27.05.1960
Neðri deild: 89. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Á síðasta reglulegu Alþingi flutti ég frv. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Það náði þá ekki fram að ganga. Aftur á s.l. hausti flutti ég það sama frv. ásamt nokkrum öðrum þm., og nú, eftir að það hafði verið til athugunar hjá sjútvn. þessarar d. og borizt höfðu þangað drög að frv. svipaðs efnis, sem gerð voru af stjórnskipaðri nefnd, þá tók sjútvn. sig til og gerði upp úr þessum tveimur frv. það frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. Það er efnislega mjög litið frábrugðið því, sem ég og hv. samflm. mínir að frv. með sama nafni, 5. þingmáli þessa þings, fluttum, að öðru leyti en því, að í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að einstökum héruðum sé gefinn kostur á því að láta í ljós álit sitt um það, hvort opna skuli fyrir dragnótaveiðum eða ekki þau mið, sem þá væntanlega yrðu stunduð af skipum úr þeirra lögsagnarumdæmi. Ég tel að vísu betur fara á því, að slíkt vald sé ekki í höndum héraðsstjórna, heldur í höndum ríkisvaldsins alfarið, sem færi með þau mál í samráði við vísindastofnun landsins í fiskveiðum, þ.e.a.s. fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands, og svo Fiskifélag Íslands. Engu að síður hef ég mjög fúslega fallizt á það að mínu leyti sem nú í augnablikinu nm, í sjútvn. að vera flm. að því frv., sem hér er, en svo sem þar er rækilega fram tekið, er þar um að ræða tilraun til samkomulags, þar sem ýmis atriði eru á þann veg ákveðin, sem einstakir nm. mundu nú gjarnan hafa haft nokkuð öðruvísi, ef þeir hefðu þar verið einir um frumvarpssmíð.

Aðalatriði þessa máls tel ég vera það, að órækar sannanir liggja fyrir því, að á Íslandsmiðum vex upp fiskistofn flatfisks, sem er svo mikill nú um þessar mundir, að af skarkola einum telja fiskifræðingar okkar að taka megi um 10 þús. smál. á ári án þess að skerða stofninn. Þetta hefur líka verið gert t.d. á árinu 1957, en það voru bara ekki Íslendingar, sem veiddu þennan fisk nema að mjög litlu leyti, því að á fimm ára tímabilinu næst á undan árinu 1957 varð veiðin sívaxandi af flatfiski og komin í það, að tekin voru tæp 10 þús. tonn af skarkola einum saman á árinu 1957. En Íslendingar voru ekki stærri aðili að þessari veiði en svo, að á nefndu fimm ára tímabili var veiði Íslendinga frá 3% og upp í 7% af heildarveiðinni, sem alþjóðlegar skýrslur sýna að tekin var á Íslandsmiðum.

Þegar við færðum út landhelgi okkar árið 1958 og bægðum erlendum veiðiskipum út fyrir 12 mílna mörkin, þá liggur í augum uppi, að möguleikinn fyrir erlenda aðila hefur stórlega minnkað til að veiða þennan fisk. Og hver veiðir hann þá? Því er fljótsvarað. Það gerir enginn, nema því aðeins að við Íslendingar sjáum hag okkar í því og stöndum við þá skyldu okkar gagnvart neytendum þeim, sem kaupa af okkur á mörkuðum okkar úti um heim, að flytja þann fisk, flytja það verðmæti, sem með góðu móti er hægt að taka af þessum miðum án þess að spilla þeim, á markað til þeirra. Allt annað væri að bregðast hlutverki okkar sem viðskiptaaðila við þá, sem við viljum hafa samskipti við og af okkur vilja kaupa.

Ég tel þess vegna, að sú mótbára, sem margir höfðu uppi gegn því að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi, að það mundi skaða málstað okkar í landhelgismálinu, sé að vísu ekki af illum hvötum upprunnin hjá þeim, sem hana hafa eða höfðu, heldur af misskilningi. En það er auðvitað skylda allra góðra manna, sem uppgötva það, að þeir hafa ranglega skilið einhvern hlut, að leiðrétta það í hugskoti sínu og láta það koma fram í gerðum sínum, þegar þeir hafa fengið að sjá fram á það svart á hvítu, að þeirra mál var orðið úrelt, ef það hefur þá ekki verið rangt frá upphafi.

Sumir andmælendur þessa frv. hafa haldið því fram, að óþarfi væri að leyfa dragnótaveiðar vegna þess, að við gætum með sæmilega góðu móti veitt flatfisk með öðrum hætti, annaðhvort á línu eða í net. Ég verð að segja þeim mönnum, sem þessar hugmyndir hafa, það, að í fyrsta lagi er algerlega vonlaust, að hægt sé að veiða nokkurt magn, sem heitið getur, með línu. Það er einnig vonlaust að gera það með venjulegum lagnetjum. En auk þess liggur það fyrir, að lagnet eru að verða eitt af okkar vandamálum. Það er að verða veiðiaðferð, sem virðist ekki svara kröfum tímans og úreldist nú skjótar en nokkur önnur veiðiaðferð á Íslandi, og það af mörgum ástæðum. Fyrst það, að veiðarfærakostnaðurinn er svo gífurlegur, að með engu öðru veiðarfæri er hann neitt svipaður eða sambærilegur. En það, sem veldur þó mestu, er, að slíkt veiðarfæri hefur ekki möguleika til að skila neitt svipað því eins góðri vöru og önnur veiðarfæri, og vænti ég þess, að allar þær hugrenningar, sem ábyrgir aðilar hafa haft uppi að undanförnu um þetta vandamál, hafi ekki farið fram hjá neinum hv. alþm., enda þótt þær umr. hafi meira snúizt um þorskanet en þau net, sem flatfiskur yrði veiddur í, en auðvitað er þar á enginn eðlismunur, enda sú reynsla þegar komin, að sá flatfiskur, sem veiddur er í net, er meira og minna gölluð vara, einmitt vegna þess, með hverjum hætti hann er veiddur. Ég tel þess vegna, að það séu ekki heldur nein rök að halda því fram, að við getum veitt flatfisk með þeim hætti, sem hér hefur verið nefnt að komið gæti í staðinn fyrir dragnót. Við þau rök bætist það, hversu sjálfsagt það er fyrir okkur að veiða þennan flatfisk, að við eigum einmitt bátaflota, sem mjög vel hentar til þessara veiða, en er verkefnalaus einmitt á þeim tíma, sem veiðivonin er mest um flatfiskinn, og við eigum einnig vinnslustöðvar, sem í augnablikinu eru reyndar varbúnar til þess að taka á móti miklu magni af flatfiski, vegna þess að þær hafa ekki verið vélvæddar til þess, en mundu að sjálfsögðu verða til þess hæfari, eftir því sem fram liðu tímar og eftir því sem slíkar vinnslustöðvar ættu þess kost með nokkrum fyrirvara að búa sig undir það að taká á móti slíku fiskmagni og verka það með eðlilegum hætti.

Sumir tala um það, að dragnótaveiði sé alveg sérstök rányrkja á fiski. Það er mál út af fyrir sig, en ég vildi bara mega spyrja: Hvaða veiði er það, sem stunduð er á fiski við Íslandsstrendur, sem er ekki rányrkja? Hvað látum við sjóinn hafa í staðinn fyrir það, sem við tökum úr honum? Það ber að játa það hreinlega, að öll okkar veiði er rányrkja. Við höfum ekkert fiskuppeldi í staðinn fyrir það, sem við veiðum úr sjó, svo að það er ekkert einstakt fyrir dragnót. Þeir, sem halda því fram, að dragnót sé óalandi og óferjandi, vegna þess að hún sé rányrkja, geta alveg með sömu rökum haldið því fram, að við eigum engan fisk að veiða úr sjó, vegna þess að öll okkar veiði er rányrkja. Og mér er reyndar alls ekki grunlaust um það, að lax- og silungsveiði í Miðfjarðará og í ýmsum ám norður í Húnavatnssýslu, svo að dæmi sé nefnt, sé einnig með því sama marki brennd, að það sé ekkert látið í staðinn fyrir það, sem veiðist.

Ég tel það engan veginn óeðlilegt, þótt uggur sé í hugum margra manna, sem teknir eru nú nokkuð að reskjast og muna kannske glöggar það tímabil, þegar ofveiði var af flatfiski, heldur en tímana, sem síðan eru liðnir. Það er raunverulegt, að um skeið var ofveiði á þessum fiski. Hún stafaði að litlu leyti af snurvoðarveiðum Íslendinga sjálfra. Að mestu leyti stafaði hún af því, að þá voru fiskimið okkar opin öllum þjóðum upp að 3 mílna mörkunum, sem hlykkjuðust meðfram landinu og voru raunar þannig, að það var miklu erfiðara að verja þá landhelgislínu en okkar 12 mílna línu nú. Hún var raunar allmiklu lengri, gamla 3 mílna línan, vegna þess að hún gekk inn í flóa og firði. Þá var hægara um vik fyrir erlenda veiðiþjófa að fara inn fyrir þau mörk, enda voru þess mýmörg dæmi, að svo var gert, og eru þó færri af þeim dæmum staðfest en hin, sem ætla má að átt hafi sér stað án þess, að til veiðiþjófanna næðist. Nú er búið að bægja þessum útlendu veiðiskipum alllangt frá strönd okkar. Þar af leiðandi hafa Íslendingar sjálfir langtum rýmri möguleika til veiðanna nú en þeir höfðu þá.

Ég tel alrangt, að það geti verið nokkur réttlæting til í því að leyfa ekki hóflega veiði flatfisks, þegar svo stendur á eins og ég nú hef nefnt, og skal ég ekki fjölyrða frekar um það að svo stöddu. Það er þó aðeins eitt, sem ég vildi víkja að af þeim mótbárum, sem hafðar hafa verið uppi gegn samþykkt þessa frv., en það er það atriðið, að ýmsir gamlir og reyndir formenn og sjómenn aðrir tala með skelfingu um snurvoðarveiðina og telja hana hinn mesta háska. Ég hef áður tekið það fram, að mér finnst það ekki með öllu óeðlilegt, þótt menn, sem komnir eru nokkuð á aldur, hugsi þannig og hafi sleppt úr að meta þá þróun, sem á síðustu árum hefur átt sér stað. Þess vegna vil ég ekki áfellast einn eða neinn, þótt hann hafi þessa skoðun. En fyrst hér hafa verið sagðar sögur af slíkum mönnum, þykir mér ekki alveg út í hött, þótt ég leyfi mér að segja undan og ofan af af lífsreynslu eins ágæts manns, sem einmitt var þessarar sömu skoðunar þar til nú fyrir nokkrum árum.

Það var á árinu 1957, að nokkrir bátar í Vestmannaeyjum fengu leyfi til þess að veiða humar, ýmist í nætur eða í botnvörpu. Þetta var gagnrýnt af mörgum, og því ber ekki að neita, að nokkrir af þeim, sem þessar veiðar stunduðu, fóru út fyrir þau takmörk, sem hið opinbera hafði ætlazt til af þeim. Það fylltust ýmsir menn mikilli vandlætingu yfir þessu, m.a. einn ágætur skipstjóri, sem ég veit ágæt deili á og veit að er mikill heiðursmaður. Hann talaði um það af mikilli vandlætingu, að þarna væri farið um með humartroll, sem væri eitt ægilegt veiðarfæri og hlyti að gera slíkt tjón, að óbætanlegt væri fyrir þjóðina. En þegar stundir liðu fram og þessar veiðar reyndust allvel, kom t.d. í ljós, að þar sem aðallega hafði verið veitt með þessum veiðarfærum sumarið 1957, þar var miklum mun meiri veiði af ýsu og rúnnfiski að haustinu en verið hafði um mörg ár. Þá fannst þessum formanni alls ekkert fráleitt að prófa sjálfur, hvernig þetta væri, og síðan gerðist hann formaður á humarveiðibát og dró sína botnvörpu eins og hinir og fiskaði ágætlega. Samt var ekki laust við það, að í honum væri nokkur ímugustur á þessu veiðarfæri, enda hafði hann ýmislegt misjafnt látið sér um munn fara um veiðarfærið, allt þar til er hann varð fyrir því, að eitt sinn þegar hann hífði inn vörpu sína og fékk upp sína hlera, þá voru á þeim nokkrar netatægjur, en upp hjá bátnum gaus slíkur óþefur, að líkast var því sem báturinn sigldi á fúlli for. En þegar farið var að taka ínn vörpuna, kemur í ljós, að hann hefur lent þarna í því að draga vörpu sína yfir gamlan netahaug, sem í voru þorskmorkur, allt frá beinagrindum og upp í lifandi fisk, en þeir áttu í hinum mestu erfiðleikum með að hreinsa þessar dræsur af humartrolli sínu, enda angaði bátur þeirra í óþef í nokkra daga, eftir að þetta hafði skeð, enda þótt vandlega væri þveginn. Síðan þetta skeði, er víst um það, að þessi hinn sami formaður telur hvorki nót né vörpu vera þau alvarlegustu veiðarfæri sem í sjó eru lögð. En það má vel vera, að til séu þeir menn, sem þurfa endilega að reyna eitthvað slíkt persónulega sjálfir til þess að skilja, að sjónarmið, sem voru máske góð og gild fyrir svo sem 10 eða 15 árum, eiga ekki lengur alls kostar við í dag, og það vona ég, að þeir, sem nú andmæla þessu frv., eigi eftir að reyna.