30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Vegna þess, að ég er einn af þeim, sem eru í litlum minni hluta í þessu máli hér í þessari hv. d., finnst mér rétt að gera nokkra grein fyrir atkv. mínu, áður en það fer endanlega frá d. Áður en ég vík að því, vildi ég þó bera fram tvær fsp. varðandi málsmeðferðina, sem mér eru ekki alveg ljósar. Ef til vill hafa upplýsingar komið fram um það hér við umr., en ég hef því miður ekki haft aðstöðu til að vera viðstaddur þær allar, en ég vænti samt, þó að svo hafi verið, að ég fái svar við þeim.

Fyrra atriðið, sem ég vildi spyrjast fyrir um, er það, undir hvaða ráðh. framkvæmd þessa máls kemur til með að heyra, en það er mér ekki fyllilega ljóst, eins og frv. liggur fyrir. Í lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, sem eru frá 1948, segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvmrn. skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. Ráðuneytið skal einnig ákvarða allar þær reglur, sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum till. Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar Háskóla Íslands. Reglugerðina skal endurskoða, eftir því sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.“

Enn fremur segir svo í 4. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Sjútvmrn. skal, eftir því sem unnt er, taka þátt í alþjóðlegum vísindarannsóknum, er miða að verndun fiskimiða.“

Í frv. því, sem hér liggur fyrir og heitir: „frv. til l. um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti,“ segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi skulu fiskveiðar með dragnótum óheimilar öðrum en þeim, sem til veiðanna hafa leyfi sjútvmrh. Ráðh. getur samkvæmt till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði eða svæðum á tímabilinu 15. júní til 31. okt. eða skemmri tíma, eftir því sem nánar er ákveðið samkv. lögum þessum.“

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta frekar, en mér sýnist með því að bera saman lögin frá 1948 og það frv., sem hér liggur fyrir, að þá sé ætlazt til þess og gengið út frá því, að framkvæmd þessara laga eða þessa frv., ef að lögum verður, verði í höndum sama ráðh. og þess, sem sér um framkvæmd laganna frá 1948. Nú hefur sá háttur verið á hafður þangað til við síðustu stjórnarmyndun, að framkvæmd laganna frá 1948 hefur verið í höndum sjútvmrh., en við síðustu stjórnarmyndun varð sú breyt. á þessu, að hluti af starfssviði sjútvmrn. og sjútvmrh. var lagður undir dómsmrh., og það er hann, sem nú fer með framkvæmd laganna frá 1948. Mér skilst þess vegna, að það leiði af þessu, að framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, komi til með að heyra undir hann og það verði þannig hæstv. dómsmrh., en ekki hæstv, sjútvmrh., það er hæstv. dómsmrh. Bjarni Benediktsson, en ekki hæstv. sjútvmrh. Emil Jónsson, sem kæmi til með að fara með framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður. Þó að mér virðist þetta liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, vildi ég gjarnan fá skýr svör við því, hvort þetta sé ekki rétt skilið hjá mér, að lögin frá 1948 og þetta frv. heyri saman í framkvæmd, ef það verður að lögum. og þess vegna verði það hæstv. dómsmrh., sem sér um framkvæmdina samkv. þeirri verkaskiptingu, sem var gerð á þessum málum við seinustu stjórnarmyndun, þar sem þetta verkefni, sem hafði heyrt undir sjútvmrh., var lagt undir dómsmrh.

Annað atriði, sem ég vildi gjarnan fá nánari upplýsingar um, kemur einnig fram í 1. gr. frv., 3. mgr., sem hljóðar svo:

„Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði, eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd.“

Það, sem ég vildi spyrja að af þessu tilefni, er það, hvað verður gert, ef það verður einhver dráttur á álitsgerðum. Við skulum segja, að nú sendi Fiskifélagið út fyrirspurn til sveitar- og bæjarstjórna á viðkomandi svæði. Verður þá settur í það bréf einhver ákveðinn frestur, að bæjar- og sveitarstjórnir skuli hafa svarað fyrir ákveðinn tíma, eða verður þeim sett það nokkuð í sjálfsvald, hve fljótt þær svara, og verður þá beðið eftir því? Ég held, að það væri gott, að þetta lægi nokkurn veginn ljóst fyrir.

Ég skal svo ekki tefja málið með því að gera fleiri fsp., — ég vildi gjarnan fá þetta upplýst og þá sérstaklega, að það lægi alveg ljóst fyrir, hvaða ráðh. það væri, sem á að fara með framkvæmd málsins, ef það verður að lögum, — en víkja þá að því, hvers vegna ég hafði þá afstöðu við 2. umr. að greiða atkv. gegn frv.

Ég held, að mönnum sé það nokkurn veginn ljóst, að innan fárra vikna eða mánaða kemur til með að fara fram eins konar lokaþáttur í landhelgismálinu eða þeirri deilu, sem hefur risið upp af útgáfu 12 mílna reglugerðarinnar, sem var gefin út 1. sept. 1958. Ég lít að vísu þannig á, að ef fast og eindregið sé haldið á því máli af okkar hálfu, sé það komið í höfn. Ég hef ekki trú á því, að brezka stjórnin grípi aftur til þeirra ofbeldisráðstafana, sem hún gerði haustið 1958, að senda herskip sín inn í íslenzka fiskveiðilandhelgi til þess að varna íslenzkum varðskipum að vinna sín skyldustörf. Eftir þau úrslit, sem urðu á sjóréttarráðstefnunni í Genf og gengu gegn Bretum og þeim málstað, sem þeir hafa í þessum málum, og jafnvel ekki sízt eftir fund æðstu manna, sem nýlega var haldinn í París og misheppnaðist gersamlega, eins og kunnugt er, þá held ég, að það sé engin aðstaða til þess fyrir Breta að fara aftur að beita okkur ofbeldi í þessu máli. Eftir þennan misheppnaða fund æðstu manna er mjög um það talað, að nú þurfi samvinna vestrænna þjóða að vera betri en áður hefur verið og þær koma fram með meiri sanngirni hver í annarrar garð, og ef Bretar taka nokkurt tillit til þess háttar, ætti það eitt að nægja til þess, að þeir grípi ekki aftur til þess ráðs að beita okkur ofbeldi.

En þrátt fyrir það, þó að það sé rétt af okkur að treysta á þetta og allir málavextir okkar séu þannig, að það eigi að treysta á þetta, þá megum við búast við því, að einmitt nú næstu vikurnar og næstu mánuðina verði mjög sótt að okkur af hálfu Breta og reynt undir yfirskini vinfengis og með vinmælum að fá okkur til að gera einhverja samninga um undanlát í landhelgismálinu, og mér finnst rétt að minna á það í þessu sambandi, að í mjög þekktu og viðurkenndu ensku blaði, Daily Telegraph, birtist s.l. föstudag grein eftir fréttaritara þess, sem staddur var hér á landi og hefur komið hingað nokkrum sinnum áður og þekkir allvel til mála hér, þar sem hann lætur uppi þá von, að það sé kannske ekki alveg vonlaust um að fá Íslendinga til einhvers afsláttar í landhelgismálinu. og nefnir það sem hugsanlegan möguleika, að það væri ekki alveg útilokað að fá Íslendinga til að fallast á að leyfa enskum togurum að veiða á svæðinu inn að 9 mílum á vissum tímum og vissum svæðum, ef samningstímabilið yrði miðað við 3 ár. Og það liggur náttúrlega alveg í augum uppi, við hvað þessi tímalengd, 3 ár, er miðuð. Þetta tímatakmark er miðað við það, að einmitt innan rúmlega þriggja ára eiga að fara fram reglulegar þingkosningar samkv. stjórnarskránni, og þá er dæmið auðsjáanlega hugsað þannig, að þessir samningar mundu falla úr gildi kannske rétt fyrir kosningar, og þá gætu allir að sjálfsögðu lýst því yfir að samningurinn væri þar með úr sögunni. En hins vegar er svo möguleiki til þess eftir kosningarnar, þegar þær eru um garð gengnar, að framlengja samninginn, og menn hafa það nú einmitt fyrir augunum frá seinustu kosningum, að það hefur ekki verið staðið við öll fyrirheit, sem þá voru gefin, og það er bersýnilegt, að ef Bretar óska eftir þessu tímatakmarki um t.d. 2½ eða 3 ár, þá er það miðað við næstu reglulegar þingkosningar, sem eiga að fara fram, í trausti þess, að þá komi tímar og þá komi ráð og það muni kannske vera möguleiki til þess að framlengja samninginn að kosningum loknum. Þetta eru hugleiðingar Breta í málinu og þær leiðir, sem þeir eru nú að leita að, og það kemur fram bæði í þessari blaðafrétt og öðrum erlendum, sem maður hefur séð um þessar mundir, að Bretar eru mjög að leita eftir því að fá einhvers konar samninga um undanhald Íslendinga í sambandi við landhelgismálið og halda mjög á loft þeim áróðri út á við, að Íslendingar séu ákaflega ófúsir til allra samninga í þessum málum. En þó kemur það nú fram í grein þess fréttaritara, sem ég áðan nefndi, að það sé kannske ekki með öllu útilokað, að viðhorf Íslendinga séu svolítið að breytast, þeirri ríkisstj., sem nú fari með völd á Íslandi, hafi heppnazt sínar aðgerðir í efnahagsmálum og það kunni að bæta aðstöðu hennar til þess að sýna Bretum einhverja meiri tillitssemi. En þó að hinn brezki blaðamaður segi þetta, skal ég síður en svo taka undir þetta. Ég vil ekki álíta það að óreyndu um hæstv. ríkisstj., að henni sé í huga neitt undanhald í þessum málum, heldur muni hún standa fast á þeirri ályktun Alþ., sem gerð var hér á s.l. vori, og þess vegna hvergi hvika í málinu. Að óreyndu vil ég ekki halda öðru fram um hæstv. ríkisstj. varðandi afstöðu hennar til þessa máls.

En ég álít hins vegar, að á meðan á því stendur, að Bretar gera þessa lokahríð að okkur, að reyna að fá okkur til samninga um landhelgismálið, þá verðum við að fara með mikilli varasemi og mikilli gætni og gera ekki neitt það, sem þeir kynnu að geta notað til áróðurs gegn okkur út á við. En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að út á við, t.d. í öðrum löndum, hafa Bretar miklu betri aðstöðu til að koma sínum málflutningi og sinni málstúlkun á framfæri en við getum gert. Og ég er ekki grunlaus um það, að ef við gerðum eitthvað svipað því, sem ætlazt er til með þessu frv., ef við drægjum úr friðunarráðstöfunum innan fiskveiðilandhelginnar, þá gætu Bretar notað það í sínum áróðri á þann veg, að þetta ásamt öðru sýndi, að það væri ekki þörf á þeirri friðun, sem Íslendingar væru að tala um, og þess vegna væri alveg óhætt fyrir þá að leyfa enskum togurum um einhvern tiltekinn tíma að fiska innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar. Ég veit alveg, hver þau rök eru, sem við mundum fá á móti þessu og hafa komið fram hér í hv. d. frá þeim mönnum, sem fyrir þessu máli mæla, og ég skal viðurkenna, að þau hafa mikið til síns máls. En hitt er bara að athuga í þessu sambandi, að þótt við getum komið þeim röksemdum fram hér á Alþ. og innanlands, er ekki jafngóð aðstaða til þess fyrir okkur að koma þeim röksemdum á framfæri á erlendum vettvangi. Þar standa Bretar miklu betur að vígi en við, vegna þess að þeir ráða yfir miklu meiri áróðurstækjum þar og hafa betri áróðursaðstöðu, og þess vegna gætu þeir notað þetta mál þar til þess að vinna heldur á móti okkur og ýta undir þann áróður, sem þeir hafa nú mjög í frammi, að Íslendingar sýni mikla ósanngirni í þessu máli, eins og sjáist t.d. af því, að þeir dragi úr friðunarráðstöfunum innan landhelginnar gagnvart sjálfum sér, og þess vegna væri líka alveg eins óhætt fyrir þá að velta nokkra tilslökun gagnvart erlendum veiðiskipum.

Ég held þess vegna, að meðan landhelgismálið eða landhelgisdeilan stendur á því stigi, sem það gerir nú, þar sem lokaátök eru væntanleg í því innan fárra vikna eða mánaða, þá eigum við ekki að gera hluti eins og þá, sem stefnt er að með þessu frv. Og svo að ég hafi þessi orð ekki fleiri, vegna þess að það var ekki ætlun mín að halda hér uppi neinu sérstöku málþófi, vil ég segja það að lokum, að þetta er ástæðan til þess, að ég treysti mér ekki til að vera með þessu máli á þessu þingi.

Ég vænti þess svo, að ég fái svör við þeim fsp., sem ég lagði fram, og þá einkum þeirri fsp., hvaða ráðh. það er, sem kemur til með að fara með framkvæmd þessa frv., ef það verður að l., hvort það sé ekki rétt, að þetta sé í tengslum við friðunarl. frá 1948 og þess vegna verði það sami maður sem sér um framkvæmd þessa máls og þeirra laga.