30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3254 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Pálmason: Herra forseti. Þegar atkvgr. fór fram um þetta frv. við 2. umr. hér á laugardagskvöldið, hugsaði ég til hins gamla orðs, sem haft er eftir Gretti Ásmundssyni: „Það verður það, er varir, og einnig hitt, er ekki varir.“ En að það skuli geta skeð hér í þessari hv. d., að 28 þm. festi sig í þeirri dragnót, sem hv. sjútvn, hefur hér lagt, það þótti mér undrum sæta og ekki sízt vegna þess, að till. um dragnótaveiði í landhelgi var í þessari hv. d. felld á síðasta þingi með 18:7 atkv. Breyt. hlýtur aðallega að byggjast á því, að hér eru komnir aðrir menn, sem kannske halda því fram, að þeir séu vitrari menn á þessu sviði en hinir, sem farnir eru. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þeir, sem eru eldri menn og reyndari, eins og margir þeirra, sem héðan eru horfnir síðan í fyrra, hafi öll skilyrði haft til þess að líta með meiri réttsýni á þetta stóra vandamál.

A.m.k. tveir af þeim mönnum, sem hér töluðu við 2. umr. málsins, eftir að ég hafði lokið mínum ræðutíma, héldu því fram mjög ákveðið, að það væri engin hætta á því, að samþykkt þessa frv. gæti haft nein áhrif á úrslit okkar landhelgismáls, þá miklu deilu, sem búin er að standa árum saman. Ég er þarna á gagnstæðri skoðun, og vitanlega getur enginn neitt fullyrt með vissu í því efni. Þar stendur orð á móti orði. En ég vil benda á, að í því efni er ekki um neitt fiskifræðilegt úrlausnarefni að ræða, heldur pólitískt tilfinningamál. Og við, sem lítum til þess, hvernig ástatt er í þessum efnum, getum hugleitt það, hvaða áhrif slík ráðstöfun kynni að hafa. Við skulum hugsa okkur, að það skeði, sem ekki liggur nú fyrir till. um, að öllum íslenzkum togurum væri leyft að fiska hvar sem væri innan 12 mílna landhelginnar. Bannið væri sem sagt upp leyst varðandi íslenzka togara. Ég veit ekki nema mönnum, sem þykir það mikils virði að koma upp sem mestum deilum milli Íslendinga og annarra vestrænna þjóða, þætti þetta gott ráð til þess að herða þar á. En ef það væri gert, gæti hver athugull maður leitt hugann að því, hvort það mundi engin áhrif hafa á þetta deilumál.

Nú hefur því verið haldið fram hér á Alþ. árum saman og tugum ára saman af kunnugum mönnum og reyndum, að dragnótaveiðar í landhelgi væru miklu hættulegri fyrir fiskstofn okkar en togveiðarnar sjálfar, og að því hef ég vikið við undangengnar umr., en vil nú aðeins ítreka það, að það, sem mestu skiptir í því efni, er það, að botnvörpuskipin eru svo stór skip, að þau kæmust aldrei svo nærri landi, að þau gætu skafið botninn alveg upp undir strendur landsins og þar sem hættan er mest.

Á eftir ræðum mínum hér við 2. umr. töluðu 3 hv. alþm., sem allir eru miklir meðmælendur þessa frv., og skal ég segja örfá orð út af tveimur þeim ræðum.

Ræða hv. 3. þm. Reykn. (MÁM) gefur mér ekki tilefni til þess að segja neitt út af því, sem hann sagði.

En ég hygg, að hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) sé einn af helztu upphafsmönnum að þessu frv., og þessi hv. þm. talaði hógværlega og sýndi einna mesta viðleitni af öllum meðmælendum þessa máls til þess að draga fram þau rök í þessu máli, sem líklegust eru. Sum af þeim eru sjálfsagt rétt, sum af þeim eru, að ég held, nokkuð vafasöm, og skal ég fara dálítið yfir meginatriði í hans ræðu fyrir utan það, sem ég er búinn að víkja að, sem er fullyrðingin um, að þetta geti engin áhrif haft á landhelgismál okkar.

Þessi hv. þm. hélt því fram, að mesta ástæðan til þess að berjast fyrir þessu máli væri sú, að það væri nokkuð af okkar fiskimönnum, sem hefði lítið að gera vissan tíma á sumrinu, ef þeir fengju ekki tækifæri til þess að veiða með dragnót. Þetta býst ég við að sé alveg rétt. En ég vil þó benda á í því sambandi, að það er á þeim tíma, að skortur er á mönnum á togarana, á síldveiðarnar og við heyskapinn, og ég held, að það væri miklu heppilegra að stuðla að því, að þessir menn færu í þá vinnu, heldur en að fara í það, sem telja má að sé til skaðræðis fyrir framtíð sjávarútvegs okkar.

Þessi hv. þm. hélt því fram, að það væri ótæmandi magn af skarkola víðs vegar í kringum land, sem væri ekki hægt að ná nema nokkru af með venjulegum veiðarfærum, netum og línu. Þetta kann vel að vera rétt, og skal ég ekkert út í það fara. En hann viðurkenndi það, sem allir vita, þessi hv. þm., að á tímabili hefði verið stórkostleg ofveiði hér kringum allt land, sem hafði haft áhrif langan tíma á eftir. Þetta vitum við að er alveg rétt. En ég hygg, að þessi hv. þm. og enginn annar geti neitt staðhæft um það, ef þetta frv. verður samþ., að það verði ekki aftur ofveiði og kannske í enn stærri stíl en var á þeim tíma, sem þessi hv. þm. var að tala um. En hann vildi halda því fram, að vegna þessarar ofveiði, sem hann viðurkenndi, væri eðlilegt, að eldri menn, sem myndu eftir þeim tíma betur en hinir yngri, væru tortryggnari á þessa hluti en ella. Nú er það svo, að ég er ekki viss um, að sú þekking, sem síðan hefur fengizt, bæti fyrir í þessu efni, því að við vitum, að síðan það var, hefur þekkingunni mikið fleygt fram um það að finna fiskimiðin og að ná fiskinum.

Þá vék þessi hv. þm. að því, sem skeði hér sumarið 1957, þegar þáv. sjútvmrh. gaf út leyfi til kola- og humarveiða, sem ég held að flestir hafi verið í vafa um, hvort hann hefði haft nokkra heimild til. En þm. vék að því, sem líka var kunnugt, að það var ekki einasta, að þessi leyfi voru notuð til hins ýtrasta, heldur langt fram yfir það, sem þýddi auðvitað landhelgisbrot af hálfu þeirra manna, sem þar áttu hlut að máli.

Þá er það eitt meginatriði í málinu, sem þessi hv. þm. vék að, og það er rányrkjan, sem er mest deila um. Hv. þm. spurði: Er ekki öll veiði rányrkja? Er það ekki rányrkja að veiða fiska, hvaða tegund sem er og hvernig sem er? Er það ekki rányrkja að veiða laxinn og silunginn uppí í ám og vötnum? Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég álít, að það sé ekki rányrkja hjá okkur bændunum að slá grasið, þegar það er sprottið, og það sé ekki rányrkja, þó að við slátrum lömbunum og öðru fé, sem við viljum ekki setja á. Það er hinn eðlilegi atvinnurekstur, sem gerir það að verkum að það er mögulegt að stunda hann. Eins er þetta með alla veiði, í sjó, í ám, í vötnum, að það er hinn eðlilegi hlutur, að hinn fullorðni fiskur sé veiddur. En deilan er um það, hvað langt eigi að ganga í þeirri veiði. Og ef þessi hv. þm. og aðrir meðmælendur þessa frv. gætu fært nokkrar líkur fyrir því, að dragnótaveiðin gerði ekki neitt annað en að hjálpa til að ná fullorðnum fiski, þá væri allt í lagi. En rányrkjan liggur í allt öðru. Hún liggur í því, að kunnugum mönnum ber saman um það, að dragnótin tekur seiði og ungfiska og raskar öllum botni, þar sem hún er dregin yfir, eyðileggur hrygningarstöðvar o.s.frv. Í því liggur sú rányrkja, sem ég og aðrir erum hræddir við, en ekki hinu, þó að fullorðinn fiskur sé veiddur, hvort sem það er í þetta veiðarfæri eða einhver önnur.

Þetta vildi ég taka fram út af því, sem þessi hv. þm. sagði um rányrkjuna.

Ég veit nú ekki, hvort það er rétt, að ég fari nokkuð að svara hv. 12. þm. Reykv. (PS), sem hér óð fram með miklum bægslagangi. En það var svona, ég var að velta því fyrir mér, á meðan þessi hv. þm. var að tala, hvort væri ríkara í honum orðhákurinn úr dragnótaverinu eða tilhneigingin til þess að vera skopleikari. Þessi hv. þm. sagði, að ég hefði gert þetta mál að gamanmáli. Því fer alls fjarri. Þetta er alvörumál, og mér hefur ekki dottið það í hug, hvorki nú né áður, að gera þetta mál að gamanmáli. Hinu er ekki að neita, að sum meðmæli, sumar röksemdir, sumar fullyrðingar, sem meðmælendur þessa frv. hafa flutt hér í þinginu, það hefur verið svo skoplegt, að ég, sem er ekkert gamansamur maður, hef ekki getað stillt mig um að gera dálítið grín að öllu því gumsi. Og nokkuð er það, að þegar hv. 12. þm. Reykv. var að tala, datt mér í hug, að það væri ekki að ófyrirsynju, sem hefði verið ákveðið hér í byrjun þessa þings, að eitt frægt blað, Spegillinn, hefði valið hann sem sinn uppbótarþingmann. Af því að hv. aðalþm. Spegilsins hefur horfið af þingi, er það kannske ekkert undarlegt, þó að uppbótarþm. reyni að standa sig þeim mun betur og halda kátínunni enn þá betur uppi, þegar hinn er farinn.

Þessi hv. þm. viðurkenndi, að það væri rétt, sem ég hélt fram, að það hefðu verið hér 1300–1500 tonn af flatfiski óseld á síðasta nýári og liti mjög illa út með að selja. En hann gerði sér hægt um hönd, þessi hv. þm., og sagði það bara, kannske ekki þeim orðum, en meiningin var sú, að það gengi ekki vel að selja þennan fisk, það væri ekki hægt, af því að hann hefði ekki verið veiddur í dragnót, hann hefði verið veiddur í net og á línu og þess vegna væri ekki hægt að selja hann. Samkv. þessum sömu kenningum ætti það að vera svo, að allur fiskur, sem veiðist hér við land okkar, væri miklu meira virði, ef hann væri veiddur í trollvörpu, veiddur af togurum, heldur en ef hann væri veiddur af bátunum á línu og í net. En það undarlega hefur skeð, ég held mörg undanfarin ár, að það hefur gengið svo, að bátafiskurinn hafi verið borgaður hærra verði en togarafiskurinn. Á hverju það byggist, skal ég ekki fullyrða, en það kemur alveg öfugt heim við þessa kenningu hjá hv. 12. þm. Reykv.

Þá sagði þessi hv. þm., að það sé nú ekki mikill vandi að eiga við það, þó að sumar sveitarstjórnir samþykktu dragnótaveiði, en aðrar ekki, það væri ekki sérlega mikill vandi, og vék svolítið að því, sem ég hafði á minnzt, ef dragnótaveiði væri samþ. hér í Reykjavík og Hafnarfirði, eins og sjálfsagt yrði, en ekki Keflavík eða Akranesi. Ég held a.m.k., að það yrðu sögð mörg orð á Akranesi, áður en það yrði samþykkt þar, hvað sem Keflavíkinni líður. En þessi hv. þm. vildi nú halda því fram, að það væri ekki mikill vandi að draga línuna og fyrirskipa það, að dragnótabátarnir, sem yrðu nokkur hundruð, mættu ekki fara inn á veiðisvæði Akurnesinga og Keflvíkinga, heldur yrðu þeir að halda sig á slóðum Reykvíkinga og Hafnfirðinga. Þetta er ákaflega góður mælikvarði á röksemdirnar hjá þessum hv. þm. og stappar nærri því að vera svipað því og það væri talið eðlilegt að ákveða í reglugerð, að fuglar loftsins mættu ekki fljúga nema eftir vissri línu eða ekki út fyrir viss mörk, ella skyldu þeir hiklaust snaraðir eða skotnir.

Þá kom það hjá þessum hv. þm., að það væri ekki mikið að marka það, sem ég hefði farið með, af því að ég hefði lesið hér bréf frá manni í Kópavogi, sem hefði skrifað undir nafnið sitt „óflokksbundinn kommúnisti með fulla sjón“. Þetta virtist eiga að þýða það, að hann teldi menn, sem væru úr Kópavogi og væru kommúnistar, eitthvað ómerkari menn en almennt gerist. En eru nú nokkrar líkur fyrir því, að þessi maður sé kommúnisti? Hann segir: „óflokksbundinn kommúnisti“. Það þýðir það, að hann hefur sérlega mikla andúð á flokksbundnum kommúnistum, það séu mjög athugaverðir menn. Og hann hefur fulla sjón. Það vill segja, að hann sé þeirrar skoðunar, að venjulegir flokksbundnir kommúnistar hafi eitthvað skakka sjón, eins og sumir aðrir halda, þegar þeir horfa til Rússlands eða Ameríku, þá sé sjónin ekki alls kostar rétt. Þessi maður gæti þess vegna alveg eins verið sjálfstæðismaður, framsóknarmaður, Alþýðuflokksmaður eða hvað annað. En það skiptir engu máli í þessu sambandi. Ég las upp þetta bréf vegna þess, að maðurinn var að lýsa skoðun sinni á stóru máli og gefa upplýsingar um aðstöðuna hér við Faxaflóa til þeirra veiða, sem hér er um að ræða, og enginn einasti af meðmælendum þessa frv. hefur reynt að hnekkja því, ekki einn einasti.

Þá lét þessi hv. þm. mjög í það skína, að það væri ekki mikið að marka röksemdir mínar í þessu máli, vegna þess að ég væri varaþingmaður og ætti heima norður í Húnavatnssýslu. Ég ætla ekki að svara því öllu meira, því að það svarar sér sjálft. En það sýndi viðleitnina um það, hvað verið er að fara út í.

Og svo klykkti þessi hv. þm. út með því að koma hér með samstæðu, sem hann bar fram eins og það væri ljóð. Auðvitað var það ekki í neinum hljóðstöfum og sýnilega órímuð orð, sem ekkert eiga skylt við ljóð. En vegna þess að reynslan sannaði, að þessi maður og félagar hans höfðu fengið stóran drátt á fundinum hér innan veggja þingsins, þá vil ég út af þessum samsetningi hans segja þetta:

Pétur strengi stillti lina,

stóran fengið hefur drátt,

dragnót þrengir kölskans kyna,

kann þó engan bragarhátt.