30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3258 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi í sambandi við þetta mál vekja athygli á því, að árið 1957 voru sett lög um lax- og silungsveiði, ný lög um það efni. Í 15. gr. þeirra laga segir svo: „Eigi má leggja silunganet né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 500 metra, enda gangi lax í það vatn.“ Nú vildi ég beina þeirri spurningu til frsm. sjútvn., hvort n. hefði athugað þetta og hvort það væri alveg öruggt, að þetta ákvæði laxveiðilaganna væri áfram í fullu gildi þrátt fyrir það, þó að þetta frv. yrði samþ. og ekki yrðu sett nein bein ákvæði í það um, að þetta skyldi virða, þessi ákvæði frá 1957. Ég geri ráð fyrir, að það séu allir sammála um, að ekki eigi að hverfa frá þessum fyrirmælum eða nema þau úr lögum, þau sem ég nefndi að væru í lögunum um lax- og silungsveiði, að ekki megi hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns en 500 metra. Og spurning mín til n. er um það, hvort hún telji það alveg öruggt, að þessi ákvæði verði í fullu gildi áfram, þannig að dragnótabátar megi ekki fara með dragnót á þetta svæði nær ósum en 500 metra, þó að þetta frv. verði samþ. og ekki neitt kveðið á um það þar. Það má vera, að það sé alveg öruggt, jafnvel þó að her komi ný lög um takmarkað leyfi til dragnótaveiði í landhelgi, en hitt sé í eldri lögum. Um þetta vildi ég óska að fá yfirlýsingu frá n. Þetta tel ég að þurfi að vera alveg öruggt.

Það mun hafa verið í upphafi þessa þings, sem lagt var hér fram frv. um leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi, sem hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) bar fram. En þetta frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. sjútvn., var ekki lagt fram fyrr en 6. maí. Það er að ýmsu leyti öðruvísi en frv., sem áður lá fyrir þessu þingi. En þar sem svo skammt er liðið, síðan þessu máli var útbýtt hér og kunnugt varð um það, hafa menn víðs vegar um landið tæplega haft aðstöðu til þess að kynna sér efni þess, en efni frv. varðar menn um land allt við sjávarsíðuna, og það er kunnugt, að um þetta hafa verið og eru mjög skiptar skoðanir. Ég lít svo á, að það sé sjálfsagt að fara gætilega í þessu máli. Má líka segja, að ýmis ákvæði frv. séu þannig, að menn í sjávarþorpum og sveitum, sem liggja að sjó, geti haft það nokkuð á valdi sínu, hvort veiðisvæði fyrir landi þeirra verða opnuð eða ekki. En eins og ég sagði áður, tel ég, að hér sé sjálfsagt að fara mjög gætilega, og ég vildi því leyfa mér að leggja fram hér brtt. við 13. gr. frv. 13. gr. er um það, að lög þessi öðlist þegar gildi, og ég vildi leggja til, að við þessa gr. bætist orðin: og gildi til ársloka 1961. — Verði þetta samþykkt, er öruggt, að málið allt verður tekið til nýrrar yfirvegunar á næsta ári. Þá yrði komin nokkur reynsla í þessu efni, og þá hefði líka útvegsmönnum og öðrum víðs vegar um landið, sem hér eiga hagsmuna að gæta, gefizt tóm til að athuga málið, sem þeir hafa ekki haft tækifæri til enn vegna þess, hve skammt er liðið síðan þetta frv. kom fram. Ég sé ekki, að það væri neinu spillt a.m.k. að setja þessa tímatakmörkun, að lögin giltu fyrst um sinn til ársloka 1961, en ekki lengur. Þá yrði málið tekið til yfirvegunar enn á næsta ári og væru menn þá færari um að ákveða, hvort þessi skipan eða svipað fyrirkomulag og hér er lagt til að verði upp tekið skuli gilda áfram eftir þá reynslu, sem þá yrði fengin, ef frv. verður nú samþykkt.

Ég vænti þess að fá svarað þessari fsp. minni frá hv. n., og svo vil ég óska þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari skriflegu brtt.