30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3260 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það svar, sem hann gaf hér áðan, og það má vel vera, og ég skal ekki neitt efa það, sem hann sagði, að það aé rétt, að samkvæmt þeim úrskurði, sem var gefinn út á s.l. hausti um verkaskiptingu ríkisstj., mundi framkvæmd þessa frv., ef að lögum yrði, heyra undir hæstv. sjútvmrh. En ég verð nú samt að segja það, að mér finnst það vera heldur óeðlileg eða óheppileg verkaskipting, því að eins og hæstv. dómsmrh. komst að orði, þá er hann að þessu leyti sjútvmrh., að hann á að sjá um framkvæmd friðunarlaganna, um allar friðunarráðstafanir, sem gerðar eru undir vísindalegu eftirliti á landgrunninu. Og þá finnst mér það vera heldur óeðlilegt, að þessi þáttur, sem er vissulega mjög þýðingarmikill, dragnótaveiðarnar og takmarkanir á þeim, skuli ekki falla undir hans verkahring. Þess vegna fyndist mér það eðlilegt, þó að því verði kannske ekki við komið í þessari hv. d. úr þessu, að það verði athugað í hv. Ed., þegar málið kemur þangað, hvort ekki sé hægt að athuga það að setja skýr ákvæði um, að framkvæmd þessara laga heyri undir þann ráðh., sem fer með framkvæmd friðunarlaganna frá 1948. En það vill nú verða þannig í framkvæmd hjá okkur og sérstaklega í sambandi við verkaskiptingu ráðh., sem leiðir dálítið af hinum tíðu stjórnarskiptum, að það er verið að skipta ýmsum ráðuneytum og jafnvel deildum í ráðuneytum á milli ýmissa ráðherra, og af þessu getur hlotizt hálfgerð ringulreið. Þar sem þessu er nú þannig fyrir komið núna, að hæstv. dómsmrh. er látinn fara ekki aðeins með framkvæmd sjálfrar landhelgisgæzlunnar, heldur líka framkvæmd friðunarlaganna, og það er vafalaust gert með það fyrir augum, að allt það, sem snerti landhelgismálin og friðunarráðstafanir, heyri undir sama mann, þá held ég, að menn hljóti að koma auga á, að það sé eðlilegt að sameina framkvæmdina varðandi þetta frv., ef að lögum verður, og framkvæmd friðunarlaganna. Og mér þætti m.a. fróðlegt að heyra álit hæstv. dómsmrh. á því, sem hefur hér með höndum mjög vandasamt mál, þar sem landhelgismálið er, hvort hann mundi ekki einmitt núna á þessum dögum og mánuðum telja heppilegast að hafa framkvæmd allra friðunarmála á einum stað. Frá mínu sjónarmiði er það alveg ótvírætt, að það sé heppilegast að halda þannig á málinu.

Ráðh. svaraði hér einnig þeirri fsp. minni, sem fjallaði um það, hvað ætti að gera, ef það drægist hjá vissum bæjar- og sveitarfélögum að senda álitsgerðir, og mér virtist það vera helzt niðurstaðan hjá honum og þá hjá hv. frsm. n. líka, því að hann tók undir það, sem ráðh. sagði, að ef það liði nokkuð langur tími, að bæjar- og sveitarstjórn svaraði fsp. um þetta efni, þá virtist mér helzt, að það mætti líta á það sem eins konar samþykki eða a.m.k. það lægju þá ekki fyrir nein mótmæli frá því bæjar- eða sveitarfélagi. Hann talaði nú um, að það væri kannske rétt að setja einhvern ákveðinn frest um svör í þessu sambandi, og mér virðist, að það mundi jafnvel vera eðlilegra, að viðkomandi bæjar- og sveitarstjórnum yrði gert það ljóst, að þeim bæri að svara fyrir ákveðinn tíma, og ef þær svöruðu ekki, þá yrði litið þannig á það, að þær væru friðun samþykkar. En það, sem mér finnst koma hér þá til greina og vera ákaflega óskýrt og ruglingslegt í frv., er það, ef bæjar- og sveitarstjórnir á viðkomandi svæði verða ósammála, hvort þá eigi að líta svo á, að t.d. ein bæjar- og sveitarstjórn af mörgum, ef hún svarar neitandi, hafi stöðvunarvald eða hvort þá á að fara svo að, eins og mun hafa komið fram hjá hv. 12. þm. Reykv., að það ætti að skipta viðkomandi veiðisvæði upp á milli bæjar- og sveitarfélaga. En satt að segja sé ég ekki, hvernig ætti að framkvæma það, t.d. hér á Faxaflóasvæðinu. Ég held það væri heldur erfitt að ætla Seltjarnarneshreppi eitthvert ákveðið veiðisvæði og Mosfellssveit og Kjalarneshreppi o.s.frv., þó að maður nefni ekki stærri staði eins og Reykjavík og Hafnarfjörð og Vatnsleysuströnd eða Voga og Keflavík og Garð. Ég held, að slík skipting yrði ákaflega miklum vandkvæðum bundin. Og þetta virðist mér sýna það ásamt ýmsu fleiru, sem ég skal ekki eyða tíma í að telja upp hérna, að það skorti talsvert á, að þetta frv., þó að það sé búið að leggja mikla vinnu í þetta mál, sé nægilega vel undirbúið og nægilega ljóst og framkvæmd þess verði nægilega auðveld.

Ég hef heyrt því fleygt, að ef þetta frv. yrði samþ., væri meiningin sú að framkvæma það ekki nema gagnvart t.d. Vestmannaeyjum eða suðurströndinni og takmarka það eingöngu við það svæði. Þó að ég mundi telja slíkt ekki heppilegt af ástæðum, sem ég hef áður fært fram, — ég álít, að það eigi ekki neitt að gera í þessum málum núna, — þá fyndist mér, að það gæti þó frekar komið til greina að leyfa dragnótaveiðar á einhverju takmörkuðu, ákveðnu einu svæði við landið og það yrði þá rökstutt með því, að það væri gert í hreinu tilraunaskyni til þess að komast að raun um, hvað væri vísindalega rétt í þessum málum, en hins vegar væri ekki stefnt að neinum allsherjar veiðiskap, eins og þetta frv. gefur til kynna. Mér virðist t.d., að gagnvart Bretum, ef þeir tækju að nota sér þetta mál, þá mundi það líta talsvert öðruvísi út, ef dragnótaveiðar væru reyndar á einhverju einu takmörkuðu svæði tiltekinn tíma og þá gert til þess að fá betur rökstudda vísindalega þekkingu um það, hvað er rétt í þessum málum, heldur en að setja almenna löggjöf eins og þessa, sem má skýra þannig, að það sé ætlunin að leyfa slíkar veiðar strax í kringum landið allt. Þó að ég sé ekki að mæla með því, að slík leið verði farin, eins og ég hef hér minnzt á, að binda þetta við takmarkaðan stað, mundi ég þó telja það skárra en að gera heimildir til veiðanna jafnalmennar og stefnt er að í þessu frv., og þar sem ekki er tími til þess nú í hv. Nd. að færa frv. í það form, finnst mér, að það m.a. ætti að koma til athugunar í hv. Ed.

Ég vil svo aðeins að síðustu segja það og taka þá undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að vegna þess, að það eru fyrirsjáanleg viss átök í landhelgismálinu næstu vikur og mánuðina og það sennilega átök, sem skera endanlega úr um það, sem verður í þessum efnum í náinni framtíð, þá sé mikil nauðsyn fyrir okkur að fara nú að með allri gát og gefa hvergi höggstað á okkur, vera ekki að neinu leyti of veiðibráðir vegna einhverra stundarhagsmuna. Og ég hef þá trú, að ef okkur tekst að halda þannig á málinu, muni örugglega takast að koma því heilu í höfn. En mér finnst, að með þessu máli séum við að opna vissan höggstað á okkur, sem sé alveg óþarft að vera að gera undir þessum kringumstæðum, og það er, eins og ég áðan sagði, ástæðan til þess, að ég treysti mér ekki til þess að vera málinu fylgjandi á þessu þingi.

Ég vil svo að lokum endurnýja þessa fsp. mína til hæstv. dómsmrh., hvort hann mundi ekki telja eðlilegt, að öll friðunarmálin heyri undir einn og sama mann, og hann á ekkert að vera neitt feiminn við það, þó að það sé hann í þessu tilfelli, en frá mínu sjónarmiði horfir það þannig við, að þannig verði heppilegast að halda á málinu.