02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3265 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að afstaða íslenzku þjóðarinnar til þessa máls, dragnótaveiða í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, sem hér er til umr., er vissulega ekki samhljóða. Þó verður þess mjög vart hjá þeim, sem mest hafa beitt sér fyrir breyttri löggjöf í þessum efnum, að þeir eru fyrir fram hræddir við afleiðingarnar. En nú á að skjóta sér bak við fiskifræðingana og hina vísindalegu athugun, sem nú skal viðhöfð í sambandi við veiðarnar. Það má enn fremur benda á vankanta frv., sem geta auðveldlega torveldað framkvæmdina, og er vart hægt að hugsa sér, á hvern hátt ráðh. getur útfært löggjöf, sem er með jafnvafasöm ákvæði og fram kemur í 1. gr. frv. Á ég þar við allar álitsgerðirnar frá sveitarstjórnum, samtökum útvegsmanna, sjómanna og verkamanna, eins og þar er kveðið á um. Mér er nær að halda, að slík lagaákvæði sem þessi séu óframkvæmanleg bæði hvað snertir heimildina og eftirlit varðbátanna.

Meðal þeirra, sem sjútvn. Nd. leitaði hjá umsagnar um málið, var forstjóri landhelgisgæzlunnar. f svari sínu benti hann á ýmsa erfiðleika fyrir eftirlitíð, þegar svæðin yrðu takmörkuð eða bundin við sérstök fiskimið. Það er fjarri mér að halda því fram, að réttara væri að opna allt upp á gátt, en takmarka ekki veiðarnar við ákveðin, takmörkuð svæði, ef að því verður horfið, sem ég vona þó að verði ekki, að dragnótin verði leyfð. Ég hefði talið eðlilegra, fyrst flm. frv. leggja svo mikið upp úr áliti sérfræðinganna, sem verður ekki talið óeðlilegt, að þeir hefðu hér ráðið nokkru um, en því er ekki fyrir að fara.

Það, sem ég óttast mest í sambandi við ákvörðun ráðherra, þegar til hans kasta kemur að ákveða, hvaða veiðisvæði skuli leyfð til dragnótaveiða, eru ákvæðin í 1. gr. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd. Ef sveitarstjórnir, samtök útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna leiða rök að því, að hagkvæmara sé að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum hluta veiðisvæðis, og bera fram óskir um, að þeir hlutar veiðisvæðanna verði friðaðir sérstaklega fyrir dragnótaveiði, þá skal ráðh. í samráði við Fiskifélag Íslands verða við þeirri ósk.“

Það má öllum vera ljóst, að hér getur verið um mikið vandamál að ræða, þar sem talað er um t.d. alla, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Ef við tökum t.d. Faxaflóa og það jafnvel hvar sem er í flóanum, þá eru það nokkuð margir aðilar, sem geta talið sig eiga hagsmuna að gæta, þegar um það er að ræða, hvort leyfð skuli dragnótaveiði eða ekki. Fyrir löggjafann eru vissulega skapaðir margs konar erfiðleikar, ef frv. þetta verður að lögum, og eiga flm. sem aðrir eftir að reka sig á þá staðreynd.

Þegar rætt er um, að nauðsyn beri til þess, að Íslendingar hagnýti sér í ríkari mæli flatfisksstofninn, sem nú er talið að hafi aukizt að miklum mun á grunnmiðum við strendur landsins, er nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir þeim afleiðingum, sem af því kunna að verða, ef að því verður horfið, að dragnótaveiðar í landhelgi verði leyfðar á ný. Það er margt, sem rétt er að athuga í því sambandi. Íslendingar hafa í áratugi barizt harðri baráttu fyrir því, að helzt allt landgrunnið umhverfis landið verði friðað fyrir botnvörpu. Sem höfuðrök höfum við haft þá staðreynd, að þjóðin á allt sitt líf undir þeim auðæfum, sem í hafinu búa. Þetta eru sannindi, sem fulltrúar okkar hafa haldið fram á hinum ýmsu ráðstefnum, sem haldnar hafa verið um fiskveiðimál og Íslendingum hefur verið gefinn kostur á að taka þátt í. Það er því skylda okkar að vera sjálfum okkur samkvæmir og nytja þessi auðæfi á skynsamlegan hátt og læra af þeirri reynslu, sem við höfum áður keypt of dýru verði.

Flm. frv. viðurkenna, að svo hafi verið komið, þegar friðuninni var komið á, að fiskistofnarnir þoldu ekki dragnótaveiðarnar. En þegar þeir í þessu sambandi tala um fiskistofnana, eiga þeir fyrst og fremst við flatfiskinn. En það er ekki upplýst, að hve miklu leyti dragnótaveiðarnar höfðu einnig áhrif á stofna annarra nytjafiska, sem þjóðin á miklu meira undir og hafa allt til þessa verið henni að miklum mun gjöfulli. Á ég þar sérstaklega við þorskinn. Það er enginn vafi á því, að dragnótin hefur mjög skaðleg áhrif á allt fiskuppeldi, sem á sér stað á þeim stöðum, þar sem hún er leyfð og notuð að einhverju marki. Þetta vita engir betur en sjómennirnir.

Það er talið, að ýsan sé sú tegund íslenzkra nytjafiska, sem auðveldast sé að fylgjast með, hvort stofninum sé ofboðið eða ekki. Kemur þetta fram á ýmsan hátt. Almennt mun það talinn vottur þess, að um ofveiði sé að ræða, ef sá fiskur, sem veiðist, fer minnkandi að meðallengd og þyngd. En þess eru glögg dæmi hvað ýsuna snertir, dæmi fyrir og eftir styrjöldina og svo núna, eftir að friðunin kom til framkvæmda. Áhrif hennar hafa komið skýrt í ljós. Hver einstaklingur er orðinn miklu stærri og verðmætari fiskur, þegar hann veiðist. Árið 1955 er meðalþyngd ýsunnar t.d. 7 sinnum meiri en meðalþyngdin á árunum fyrir 1948. Á sama tíma hefur fjöldinn aukizt mjög og var á árunum 1953–1957 að meðaltali á togtíma níu sinnum meiri en hann var á tímabilinu fyrir 1948. Þessi dæmi ættu vissulega að geta nægt til þess að opna augu hv. alþm. og þjóðarinnar í heild fyrir þeim voða, sem yfir vofir, verði dragnótinni á ný beitt til eyðileggingar og gegn þeirri heillavænlegu þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum í skjóli friðunarinnar.

Þetta eru tölur, sem tala skýrt sínu máli, hver þróunin hefur verið, á meðan friðunin hefur verið. Magnið, sem veiðist nú, eftir að friðunin hefur staðið þennan tíma, er orðið níu sinnum meira en það var á þeim tíma, sem dragnótin var meira eða minna notuð, og stærð fisksins, sem veiðist, hefur að sama skapi vaxið stórlega, og er talið eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja frá fiskifræðingunum og flm. þessa frv. hafa birt sem fylgiskjal, að stærð fisksins sé nú fimm sinnum meiri að meðaltali en hún var, á meðan dragnótaveiðarnar voru leyfðar og stundaðar.

Í ljósi þessara staðreynda hafa sjómenn vorir víða um land tryggt sér á undanförnum árum aðstöðu til þess að nýta þessi verðmæti. Þeir hafa í hinum ýmsu verstöðvum byggt sér báta við þeirra hæfi, sem eru hentugir og heppilegir einmitt til þess að nýta þessa fiskistofna, sem vaxið hafa upp á landgrunninu. En með því að nú yrði horfið að því að leyfa dragnótina, þá munu fljótt koma í ljós sömu áhrifin og þekkt eru frá dragnótatímabilinu. Sjómenn okkar eru minnugir þungbærrar reynslu fyrri ára, þegar dragnótaveiðar voru stundaðar með þeim afleiðingum, að verðmæt fiskimið í flóum og fjörðum voru nálega eyðilögð. Þeim er það ljóst, að verði dragnótaveiðarnar leyfðar aftur á nýjan leik, mundi það verða hættulegt spor aftur á bak í þeirri viðleitni íslenzku þjóðarinnar að vernda fiskistofnana frá rányrkju og hvers konar eyðileggingu. Það hefur verið gæfa okkar, að þjóðin hefur á undanförnum árum staðið saman sem ein órofafylking í harðri baráttu fyrir þessu fjöreggi sínu, minnug þess, að líf og framtíð hennar geti verið undir því komið, að vonin, sem tengd er við stundarhagnað af væntanlegum dragnótaveiðum, nái ekki þeim tökum á íslenzkri löggjöf, að það verði yfirsterkara þeim heillavænlegu áhrifum, sem Íslendingar hafa verið að byggja upp á undanförnum árum með þeim ágæta árangri, sem raun ber vitni.

Sjútvn. hv. d. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Tveir nm. vilja samþykkja frv. óbreytt, en meiri hl. hefur leyft sér að leggja til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.

Ég mun ekki að þessu sinni orðlengja frekar um þetta mál. Ég tel, að ég hafi dregið fram í ræðu minni þau sjónarmið, sem nauðsynlegt er að hafa í huga við afgreiðslu þessa máls. Það eru staðreyndir, sem fyrir liggja frá fyrri tíma um þá eyðileggingu, sem þetta veiðarfæri, sem hér er nú lagt til að verði notað að nýju, veldur, og við blasir þá að sjálfsögðu sú eyðilegging öðru sinni á fiskimiðunum, sem nú eftir friðunina hafa sýnt, að þau hafa skilað miklum mun meiri arði til þjóðarinnar en áður. Það er því staðreynd, að í öllum verstöðvum í kringum land og þá ekki sízt hér við Suðvesturland, þar sem þorskveiðarnar eru að öllu jöfnu mestar á vetrarvertíðinni, hefur afli bátanna farið að miklum mun vaxandi frá því, sem hann var áður en friðunin kom. Aflamagnið hefur farið stöðugt vaxandi, og hafa jafnvel seinustu vertíðirnar náð þeir árangri, að telja má, að metafli hafi náðst í einstökum verstöðvum. Við erum minnugir áranna, þegar dragnótin var notuð í algleymingi og aflaleysi var í verstöðvum þjóðarinnar. Það magn, sem skýrslurnar gefa til kynna frá fiskifræðingunum, það, sem veiðzt hefur í dragnótina á þeim tíma, sem þær veiðar voru stundaðar, er ekki svo mikið, að hlutur smábátanna, sem nú eru starfandi og gerðir út í verstöðvunum kringum landið, geti ekki jafnazt á við það magn, sem þar kemur fram. Þar er aðeins um fá þúsund tonna að ræða af þessum fiski í kringum landið eða við Íslandsstrendur, en t.d. í einni verstöð, sem mér er kunnugt um, á Akranesi, öfluðu þessir litlu bátar á síðustu sumarvertíð, á árinu 1959, á annað þúsund tonn af fiski.

En þótt dragnótin gengi eitthvað á kolastofninn og hann minnkaði, þá er það ekki aðalatriði í þessum efnum frá mínu sjónarmiði, heldur er það sú staðreynd, — og því miður liggja þær upplýsingar ekki fyrir frá sérfræðingum eða fiskifræðingum, — hvaða áhrif þessar veiðar hafa á aðrar fisktegundir, t.d. eins og þorskinn. En það vita allir, sem fiskveiðar stunda og gera út, að þetta veiðarfæri, ef það verður nú notað á ný í flóum og fjörðum, hlýtur að hafa skaðvænleg áhrif á uppeldi þorsksins. Og það er enginn efi, að það mun koma í ljós, fyrr en varir, að ef að því verður horfið nú að leyfa dragnótaveiðarnar, eigum við eftir að tapa miklu meira á öðrum sviðum en mundi vinnast um stundarsakir í sambandi við dragnótaveiðarnar, því að það mun nú eins og áður sýna sig, að eftir að þær hafa verið stundaðar um skamma stund, munu koma í ljós þau skaðvænlegu áhrif, sem þetta veiðarfæri hefur jafnan haft á fiskistofna við Íslandsstrendur.