02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér um ræðir, hefur um alllangt skeið verið mikið deilumál með þjóðinni. Veiðiaðferð sú, sem hér um ræðir, dragnótaveiðin, var stunduð af allmörgum smærri fiskibátum um eða yfir 20 ára skeið við strendur landsins og helzt á grunnmiðum, þannig að nokkur og allgóð reynsla er nú þegar fengin um árangur hennar og afleiðingar.

Þegar saga þessa veiðiskapar er til grunna rannsökuð, má það furðulegt heita, að á Alþingi Íslendinga, þjóðar með slíka reynslu, skuli í alvöru rætt um að hefja þennan veiðiskap á ný, svo gersamlega sem öll reynsla vitnar þar á móti. Nú eru ýmsir mætir menn úr hópi okkar færustu fiskifræðinga notaðir sem eins konar skálkaskjól og til þeirra vitnað um nauðsyn þess, að veiðiskapur þessi sé á ný leyfður, þó að bláköld reynslan segi, að fjölmargar okkar dýrmætustu gullkistur og uppeldisstöðvar nytjafisks hafi gersamlega verið eyðilagðar af völdum þessara veiðarfæra fyrir augum þeirra, sem í landi stóðu og á sjónum voru og máttu ekki viðnám veita.

Enn þá furðulegri verður tilkoma þessa frv., þegar athuguð er vígstaða okkar á alþjóðavettvangi. Nú um margra ára skeið hefur íslenzka þjóðin sem ein órofaheild staðið að baki foringjum sínum á vettvangi þjóðmála í baráttunni fyrir stækkun fiskveiðilögsögunnar í krafti þess, að þar væri um fjöregg þjóðarinnar að ræða. Við höfum rökstutt þessar kröfur okkar og aðgerðir allar með því, að þjóðin lifði einungis á útflutningi sjávarafurða, eða allt að 97%, og væri háð fiskveiðum í ríkara mæli en nokkur önnur þjóð í heiminum. Á þessum forsendum höfum við barizt við skilningslítil stórveldi, svo að segja með berum hnefunum gegn milljónaauði og opinberri kúgun ýmissa þjóða, sem þó vildu rétta okkur hjálparhönd í þessari viðleitni okkar. Nú ætlum við hins vegar að segja við þessa aðila, sem þrátt fyrir allt hafa stutt okkur: Við ætlum að stunda rányrkjuna sjálfir á Íslandsmiðum í stað Bretanna og annarra, sem hafa bezt fram gengið í að gera okkur á þennan hátt fjárhagslega ósjálfstæða og öðrum háða, með rányrkju á þessum miðum okkar.

Hver eru rök okkar fyrir friðun uppeldisstöðvanna? Ég veit, hver svörin eru. Þau hafa verið fram borin við umr, um þetta mál í hv. Nd. og er lævíslega smeygt inn í grg. hinna tveggja frv., sem um þetta mál hafa verið flutt, þ.e. á þskj. 5 og þskj. 399, og hér liggja fyrir.

Vísindin og hin stóraukna þekking manna á eðli og lifnaðarháttum fisksins eiga að vernda okkur gegn því, að hin hryggilega saga endurtaki sig, þegar Íslendingar höfðu með aðstoð útlendra í augnabliksgróðafíkn nær tortímt fjárhagslegri undirstöðu þjóðarinnar, þ.e. sjálfum hrygningar- og uppeldisstöðvum fisksins við strendur landsins, þannig að þar, sem áður var gnægð fisks, fékkst ekki bein úr sjó um margra ára skeið. Nú hefur aftur á móti lifnað yfir þessum veiðisvæðum á ný, og fjölmennur hópur manna bindur vonir sínar við, að stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur auk friðunarinnar færi enn aukna fiskigengd. Smábátaútvegurinn, „trillurnar“, er nú víða orðinn svo snar þáttur í lífsafkomu fjölda fólks við strendur landsins, að miklum vafa er bundið, hvort fleiri fá tryggari atvinnu, þótt skipt væri um og á ný farið að tíðka stundarhagnaðinn með dragnótaveiði. A.m.k. er það eitt víst, að þessi útvegur á ekki um aðra kosti að velja í veiðiskap og hlýtur að leggjast niður á þeim stöðum, sem dragnótaveiðar verða leyfðar.

Frv. gerir í 1. gr. ráð fyrir, að leitað sé álits sveitarstjórna og annarra þeirra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæðum, eins og þar hefur verið sagt, um, hvort leyfa skuli hinar tímabundnu veiðar. Svo mikið deilumál sem frv. þetta er hér, þá er vitað, að mjög mismunandi skoðanir og harðar deilur eru um það meðal almennings. Ég fæ því vart séð, hvernig þessar umsagnarorrustur, sem frv. gerir ráð fyrir, eiga að fara fram. Sjálfur er ég nokkuð kunnugur afstöðu manna til þessara mála, t.d. á Suðurnesjum. Helztu dragnótasvæðin eru stunduð frá verstöðvunum Keflavík, Gerðum í Garði og Sandgerði. Þar stunduðu á sínum tíma allir þessir aðilar hinn svonefnda Garðsjó og jafnvel Hafnabúar einnig hinn svonefnda Hafnaleir, og jafnvel var sótt suður fyrir Reykjanes. Hvað eiga margar þessara verstöðva að hafa umsagnarrétt um þessi veiðisvæði? Auk Suðurnesjamanna sóttu á ákveðnum árstímum bátar á þessi mið allt frá Snæfellsnesi og Akranesi. Á einnig til þeirra að leita um, hvort leyfa skuli veiðarnar í t.d. Garðsjó og á Hafnaleir? Við skulum nú ganga út frá því, að einungis aðliggjandi verstöðvar fái beinan umsagnarrétt, þannig að t.d. Keflavík, Gerðahreppur og Sandgerðishreppur fái umsagnarrétt um, hvort leyfa skuli dragnótaveiðar í Garðsjó og á Hafnaleir. Þá er alls ekki útilokað að gera ráð fyrir, að einn þessara staða samþykkti, en hinir væru því andvígir, eða öfugt. Á þá að leyfa veiðarnar? Um þetta er æskilegt að skýr svör liggi fyrir, áður en endanleg afgreiðsla málsins fer fram í hv. þd. Nú er Garðsjórinn óvefengjanlega umráðasvæði Gerðahrepps, ef um slíkt á að vera að ræða á annað borð. Er þá nægjanlegt, að Gerðahreppur einn samþykki að leyfa ekki veiðarnar, þannig að þær verði þá ekki stundaðar í Garðsjó? Allt þetta er mjög óljóst af frv. og verður ekki séð, hvernig framkvæma á.

Ég hef hér aðeins nefnt Garðsjóinn sem dæmi, m.a. vegna þess, að hann er eitt ferskasta dæmið um hryggilegar afleiðingar dragnótaveiða. Fiskimiðin á þessum slóðum voru um langt skeið nefnd einu nafni Gullkistan, jafnt af inniendum sem útlendum. Ég efast um, að traustið á vísindalegu eftirliti nægi til þess að sannfæra sjónarvotta þar um, að nú verði farið mýkri höndum um þessi annars gjöfulu mið en gert var á rányrkjutímanum.

Stuðningsmenn frv. halda því mjög á loft, að hér sé ekki um neina áhættu að ræða, þar sem hægt sé að loka fyrir veiðarnar hvenær sem er, ef um sýnilega ofveiði verði að ræða, og benda gjarnan á, að það sé ekki búmannlegt að láta allan þann afla ónotaðan, sem náist ekki með öðrum hætti en í dragnót. Því er jafnvel haldið fram, að nú sé sérstök nauðsyn á, til þess að viðhalda fiskimiðunum, að róta til í botninum, þannig að auðugra líf og gróður fáist fyrir fiskigengd á þessum stöðvum. Svo langt eru rökin sótt, að það hafi jafnvel sýnt sig, þar sem leyfðar hafa verið hinar svonefndu rækjuveiðar, að meiri fiskigengd hafi verið á þeim slóðum, þar sem veiðarnar voru leyfðar. Mér er þá spurn: Hvernig var háttað á þessum veiðisvæðum, áður en nokkur dragnót og nokkrar togveiðar voru til á Íslandi? Það eru enn þá til menn, sem muna þá tíma, að firðirnir voru taldir fullir af fiski og varla þurfti annað en að leggja línu í sjó, til þess að allt væri fullt af fiski. Hvorugt þessara veiðarfæra, hvorki dragnót né hinar svonefndu trollveiðar, þekktust þá. Hvað var það þá, sem rótaði svo upp botninum og gerði þessi veiðisvæði svo fiskisæl?

Þessi rök hafa ekki sannfært mig eða aðra, sem hafa séð þessa rányrkju fara fram með þessum drápsveiðarfærum á uppeldisstöð fisksins. Það er fengin 8–10 ára reynsla af friðun ýmissa þeirra fiskimiða, sem hér koma helzt til greina, og á styrjaldarárunum dró einnig mjög mikið úr veiðum erlendra fiskiskipa, svo að friðunartíminn er raunar nokkru lengri og víðtækari. Nú fyrst er farið að örla á því, að þessi veiðisvæði séu að komast í hið fyrra horf, og þá skal hafizt handa um að eyðileggja árangurinn og það á vísindalegan hátt.

Ég efast ekki um, að með dragnótaveiðum má í fyrstu fá allgóðan afla, sem meta má til verðs. Það verður hins vegar nokkuð dýr afli, ef síðar eða e.t.v. eftir örskamman tíma þarf svo aftur að friða í 10–20 ár, til þess að endurtaka megi hinar sömu yfirsjónir. Ég veit ekki um sönnur á því, en mér er tjáð, að nú liggi í frystihúsum í Keflavík á þriðja hundrað tonn af hraðfrystum flatfiski, sem óseldur er. Hvar eru þessir geysilegu markaðir fyrir þennan fisk, ef við þurfum að liggja mánuðum saman með slíkan fisk óseldan í frystihúsum okkar? Ég tel, að okkur hefði farið líkt með samþykkt þessa frv. og bóndanum, sem ætlaði að kreista örari mjólkurnyt úr kúnum sínum en móðir náttúra gerði ráð fyrir vegna hækkandi mjólkurverðs, en drap í þessum tilraunum sínum allar mjólkandi kýr á bænum og átti enga eftir. Það hefði einhvern tíma ekki þótt gott búskaparlag á Íslandi.

Með tilliti til þeirrar reynslu, sem fyrir liggur um dragnótaveiðar fyrri tíma og afleiðingar þeirra, er ég andvígur samþykkt þessa frv. og tel þar of mikið við liggja um framtíð okkar sem fiskveiðiþjóðar. Og ég viðurkenni, að svo mikið traust hafi ég ekki á okkar annars ágætu vísindamönnum, að þeir geti með öllu komið í veg fyrir þá eyðileggingu, sem af þessum veiðum óhjákvæmilega hlýzt á einn eða annan hátt. Hvar er sá eftirlitsfloti, sem fylgzt getur með sjálfum veiðunum? Við vitum, að hann er ekki til og að nákvæmt eftirlit verður ekki gert úr landi. Það er enn fremur mín skoðun, að við veikjum okkar málstað í deilunni við Bretland með samþykkt frv. um stækkun fiskveiðilögsögunnar í 12 mílur. Af þessum framantöldu ástæðum og svo þeirri, að mér er enn í fersku minni reynslan frá fyrri árum, vil ég ekki stuðla að þeirri augnabliks hagnaðarvon, sem hér gæti verið um að ræða, og tel, að áfram beri að hlífa fæðingar- og uppeldisheimilum fisksins. Þess vegna styð ég þá rökst. dagskrá, sem við í meiri hl. sjútvn. höfum lagt fram á þskj. 609 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ekki þykir rétt eða tímabært, að Alþingi taki ákvörðun um það nú, hvort eða hvernig leyfðar skuli dragnótaveiðar í íslenzkri fiskveiðilandhelgi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Slík afgreiðsla á málinu mun verða Alþingi til meiri sóma en snöggsoðin samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, að lítt athuguðu máli, og sérstaklega að þeim aðstæðum Iítt athuguðum, sem af samþykkt þess kann að leiða.