02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal reyna að tefja ekki þessar umr., vil aðeins gera örstutta grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Þetta er mikið deilumál og það er ekkert undarlegt, þó að skoðanir séu skiptar um það. Hér er bersýnilega um mikið hagsmunamál að ræða og mikið vandamál. Það er augljóst, að hér er um mikil verðmæti að ræða, þar sem er um flatfiskinn að tefla, og það er um dýr og góð matvæli að ræða. Og það er líka sýnt fram á, að það séu miklir hagsmunir við það tengdir fyrir ákveðna staði, ákveðna báta af ákveðinni stærð og ákveðna útgerðarmenn og sjómenn að leyfa þessar veiðar, a.m.k. á vissum árstíma, þannig að þegar eingöngu er litið á það, virðast blasa við augljósir kostir af þessum veiðum. Það er auðvitað sjálfsagt, að við verðum að reyna að nýta þær auðlindir, sem hér eru fyrir hendi, sem bezt og skynsamlegast. En svo koma aftur aðrir og benda á, að þessari veiðiaðferð fylgi miklir ágallar, og þeir benda á reynsluna, máli sínu til stuðnings, á reynslu, sem á sínum tíma fékkst af þessum veiðum og virðist óneitanlega benda til þess, að þær hafi haft verulega hættu í för með sér fyrir fiskstofna og fiskigengd.

Ég verð að segja það, að ég hef hlustað á þessi rök með og móti þessu máli og verð að segja um það, að mér finnst alls ekki hafa verið nægilega athuguð sú hlið. Ég geri á engan hátt lítið úr áliti vísindamanna um þetta, og ég geri ekki heldur lítið úr áliti sjómanna, sem um þetta dæma af fenginni reynslu. Ég held, að um þetta atriði þurfi meiri athugun. En ég verð að segja það, að ég er alls ekki við því búinn að taka afstöðu til málsins út frá því sjónarmiði. Mér finnst, að þessi hlið málsins þurfi meiri athugunar við.

En það, sem frá mínu sjónarmiði skiptir langsamlega mestu máli í sambandi við þetta mál nú, er það, að mig skortir alla tryggingu fyrir því, að það geti ekki verið í því fólgin einhver hætta fyrir landhelgismálið, landhelgisdeiluna, sem við vitum að við eigum í, þó að þar sé nú stormahlé, ef við opnum nú landgrunnið fyrir þessari veiðiaðferð. Í mínum huga er það alls ekki útilokað, að þetta geti haft einhver áhrif í því máli, og það er langstærsta atriðið og alveg nægilegt í mínum huga til þess, að ég er ekki við því búinn að fylgja því fram á þessu stigi, að landgrunnið sé opnað með þessum hætti. Ég sé að vísu í grg. með þessu frv., að það er sagt frá því, að n. hafi kynnt sér álit Hans G. Andersens sendiherra og Davíðs Ólafssonar fiskimálastjóra á þessu atriði, þ.e.a.s. á því, hvort það væri hugsanlegt, að ef dragnótaveiðar yrðu leyfðar, kynni það að spilla málstað okkar í landhelgismálinu. Og þar segir, að n. hafi kynnt sér álit Hans G. Andersens sendiherra og Davíðs Ólafssonar fiskimálastjóra á þessu atriði. Mættu þeir á fundi n. 2. marz s.l. og lýstu þar báðir þeirri skoðun sinni. að það mundi á engan hátt skaða málstað okkar í landhelgisdellunni, þó að dragnótaveiðar yrðu upp teknar á ný. Ég verð nú að segja það, að ef hér er rétt og nákvæmlega skýrt frá þeirra álíti, þá furðar mig alveg stórlega á því. Mig furðar alveg stórlega á því, ef þeir hafa látið frá sér fara álit í þessari mynd. Ég þekki þá báða svo, að mér þykir það furðulegt, ef þeir hafa verið með slíkar fullyrðingar sem þessar og ef hér á sér ekki einhver misskilningur stað. En hvað sem því líður, er alveg öruggt, að þeir geta auðvitað alls ekkert um þetta fullyrt. Það getur náttúrlega ekki nokkur maður um það sagt, hvort þetta muni spilla í landhelgisdeilunni eða ekki. En það eitt, að það er alls ekki útilokað, að það geti spillt, það nægir mér. Það geri ég að höfuðatriði. Og ég get ekki stillt mig um í því sambandi að benda á, að aðgerðir okkar í landhelgismálunum höfum við byggt á l. nr. 44 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. En í 1. gr. laganna segir:

„Sjútvmrn. skal með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar íslenzkum reglum og eftirliti, enda verði friðun á landgrunninu á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur.“

Á þessum l., þ. á m. á þessu fyrirheiti í þessu lagaboði, höfum við byggt reglugerðina um stækkun landhelginnar, bæði þá fyrri og eins þá síðari 1958. Að vísu er þetta lagaákvæði eins og annað, sem breyta má að sjálfsögðu með lögum, en mér finnst þó, að siðferðilega séð geti þetta nokkuð veikt málstað okkar, því að engum blandast hugur um, að friðun á landgrunninu verður rýrð við þessar aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru, með því að leyfa dragnótaveiðar, þótt í takmörkuðum mæli sé.

Ég verð þess vegna að taka undir það, sem kom fram hjá einum ræðumanni hér áðan, að ég hefði talið skynsamlegast, að þetta mál hefði verið látið daga uppi að sinni. Og ég er satt að segja hálfhissa á því, að ríkisstj. skuli láta þetta mál ná fram að ganga með þessum hætti, að atkv. verði að vísu látin úr því skera, hvort það á að ná fram eða ekki. Ég held, að það hefði verið ólíkt skynsamlegra að láta þetta bíða. Og ég verð að segja fyrir mína parta, að ég er ekki tilbúinn til þess að gefa um það neinar yfirlýsingar, hvernig ég mundi snúast við þessu máli síðar, ef það kæmi til kasta Alþingis.