02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3285 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi mæla hér til viðbótar því, sem ég hef þegar gert í þessu máli. Það var í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Vestf. (KJJ) sagði um veiðarnar í Faxaflóa á yfirstandandi vertíð, sem hann taldi hafa verið stundaðar með mjög litlum árangri, eftir því sem mér skildist, og þar til viðbótar sérstaklega benti hann á, að þorskurinn hafi nú legið utar en áður, eða ekki uppi á grunnmiðunum. Þetta er alveg öfugt við þær staðreyndir, sem fyrir hendi eru. Sennilegt er, að það sé um algert metaflaár að ræða í Faxaflóa að þessu sinni. Ég ætla, að það hafi aldrei aflazt jafnmikið og í vetur á bátaflotann, og er auðvelt að fá skýrslur þar um. Og svo þetta, sem fleiri en hann hafa bent á í sambandi við legu fisksins, að hann hafi nú legið dýpra á miðum en áður og þess vegna saki það ekki í sambandi við dragnótaveiðarnar. En hvers vegna var þessi fiskur til á djúpmiðum? Það var af því, að hann fékk næði til að vaxa upp á grunnmiðunum. Á meðan fiskurinn var að vaxa upp, hafði hann næði á grunnmiðunum, og þess vegna veiddist hann á djúpmiðunum seinna meir. Hann hefði aldrei komið á djúpmiðin, ef hann hefði ekki fengið þá friðun, sem hann fékk, eftir að friðunarlögin gengu í gildi. Þetta eru staðreyndir í þessu sambandi.

Þá eru menn að ræða um, að það séu jafnvel fiskifræðingar eða þá einhverjir menn þeim skyldir, sem séu farnir að halda því fram, að jafnvel dragnótin væri nauðsynleg til þess að hreyfa botninn, til þess að skapa lífvænlegri gróður fyrir fiskistofnana. Í því sambandi vil ég segja það, af því að við þekkjum áhrif dragnótarinnar á uppeldisstöðvarnar, að sú þjóð hefur ekkert við akra að gera í sjónum, sem drepur allar sínar skepnur með þeim plógi, sem á að skapa gróðurinn. Það er einmitt það, að því aðeins hefur þjóðin þörf fyrir akra, hvort sem er til sjávar eða lands, að hún eigi skepnur til þess að hagnýta það, sem uppskerst úr ökrunum. En ef sá plógur verður notaður, sem dragnótin er, til þess að plægja akur sjávarins, þá er nokkurn veginn víst, að þjóðin hefur ekkert að gera við þá akra, því að hún drepur um leið það líf, sem þessir akrar eiga að færa handa þjóðinni til að veita henni það traust, sem hún þarfnast á ókomnum árum.