02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Þær umr., sem þegar hafa farið fram um málið hér í hv. þd., gefa varla mikið tilefni til þess að bæta nokkru við það, sem ég sagði í upphafi þessa framhaldsfundar í kvöld, og skilst mér, að ekkert hafi verið af því hrakið, annað en þær tilraunir, sem fram komu hjá hv. 3. þm. Vestf. (KJJ) og nú síðar hjá hv. 5. landsk. þm. (US) um nauðsyn þess, að sjávarbotninn yrði hreyfður til þess að auka á sjávargróður og þar af leiðandi lokka þangað meiri fiskigengd en ef botninn lægi óhreyfður, eins og verið hefði undanfarin ár. Og svo langt sótt eru rökin, sem ég skal ekki á þessu stigi fullyrða neitt um, að það er talið sérstaklega gott fiskisvæði nú, þar sem skeljasandurinn til sementsverksmiðjunnar hefur verið sóttur hér í Faxaflóa. Ég vil nú spyrja að því einu sinni enn: Hvernig var með alla þá fiskigengd, sem átti sér stað við strendur Íslands löngu áður en nokkurn mann dreymdi um sementsverksmiðju eða skeljatöku í Faxaflóa? Og hvernig var með fiskigengd við strendur landsins löngu áður en nokkur maður vissi, að troll eða dragnót væri til? Hvaða hreyfing var það á botni hér við strendur landsins, sem olli því þá, að firðir og flóar voru fullir af fiski? Svona röksemdir tel ég alveg hæfa þessu máli og vera í fullu samræmi við það óðagot, sem haft er á að koma þessu máli hér fram að svo mjög lítt athuguðu máli eins og frv. sjálft er ljósasta vitnið um og margoft hefur verið bent á í þessum umr.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði, að við, sem teldumst til andstæðinga þessa máls, létum eins og aldrei hefði verið veitt með öðru veiðarfæri en dragnót hér við strendur landsins og þaðan stafaði allt það illa, sem fram hefði komið í sambandi við fiskveiðar hér. Þetta er alrangt. Það er einmitt vegna þess, hve dragnótin og afleiðingar hennar hafa skorið sig úr frá öðrum veiðiaðferðum hér við land, að við viljum vara við henni.

Síðasta haldreipið, sem stuðningsmenn málsins hafa og sífellt er skýlt sér á bak við, er, að það sé almennt sjónarmið vísindamanna, að nú beri að gera þessa tilraun. Þá vil ég aðeins endurtaka það, sem hv. 4. þm. Vesturl. (JÁ) gat um hér áðan, að við erum allir sammála um það, að reynslan frá dragnótatímunum um og fyrir síðustu heimsstyrjöld sé slæm. Stuðningsmenn málsins taka það fram, að sú saga þurfi ekki að endurtaka sig, og það eiga að vera rök með málinu nú. En ég vil aðeins benda á, að vísindamenn þeirra tíma, eins og komið hefur hér fram í umr. áður, mæltu með því, að þessar tilraunir yrðu þá gerðar. Það var vísindaleg niðurstaða, sem varð þjóðinni heldur dýr, og móti því hefur ekki verið mælt, að enginn óskar eftir því, að sú saga endurtaki sig.

Ég held þess vegna, þegar við höfum annars vegar reynsluna af þessum dragnótatíma, þessum rányrkjutíma á Íslandsmiðum, ættum við ekki að taka að okkur hlutverk þeirra fiskræningja, sem við höfum svo nefnt, sem hingað til hafa að mestu verið erlendir menn, — við ættum ekki að taka að okkur hlutverk þeirra, a.m.k. ekki á sama tíma sem við eygjum möguleika á því, að þeir fjarlægist þessa fyrri iðju sína.