02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. minni hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl., 4. þm. Vestf. (JÁ), sagði, að aflinn í Faxaflóa hefði í vetur verið meiri en áður. Um það sagði ég ekki neitt. Það sannar einnig út af fyrir sig lítið, hver aflinn var í vetur. Það getur margt valdið því. Aflinn er, eins og við vitum, kominn undir ýmsu. Hann er kominn undir gæftum, stærð báta og gæðum og magni veiðarfæra og ýmsu fleira, þannig að aflamagnið eitt fyrir sig sannar ekki neitt. En hitt er enn rétt, að í vetur var að áliti sjómanna langrónara hér við Faxaflóa en áður, og varla er það dragnótinni að kenna.

Um landhelgismálið og áhrif þessa máls á það, þá dettur mér ekki í hug að efast um, að vísindamennirnir, sem til voru kvaddir af hv. sjútvn. Nd., hafi sagt það eitt, sem þeir vissu sannast og réttast, og mér dettur ekki heldur í hug að efast um, að hv. þm. í n. hafi farið rétt með mál þeirra. En til viðbótar við það er mér kunnugt um, að annar þessara vísindamanna, sem n. átti tal við um þetta, hefur, eftir að hann kom frá Genfarráðstefnunni núna, látið í ljós, að það álit, sem hann hafði áður gefið n., væri enn óbreytt.

Þá vil ég biðja hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ) afsökunar á því, að mér hafði láðst í fyrri ræðu minni hér að svara honum, þar sem hann spurði um, hvernig fiskigengdin hefði verið hér, áður en nokkur dragnót kom til sögunnar og meira að segja var ekki einu sinni botnvarpa til, og sagði, að þá hefðu allir firðir og flóar verið fullir af fiski. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það segir frá því sums staðar í sögunum, að allir firðir og flóar hafi verið fullir af fiski. En það var ekki alltaf, það komu hallæri, og það segir líka frá því í sögunum, að það var ekki nokkurn fisk að fá í fjörðunum. Og í einu slíku hallæri var heitið á völvu eina mikla, sem átti heima í Vatnsnesi í Bolungarvík, og hún setti mið, svo að menn fengu aftur fisk til matar, svo að það kom fyrir þá líka, að fiskilaust var, þó að engri dragnót eða botnvörpu væri um að kenna.

Og við vitum fleira um þetta, við vitum það líka, að Ísafjarðardjúp, sem er langur og mikill fjörður, — það er álíka langt frá Ísafirði og inn á Arngerðareyri og héðan upp í Borgarnes, en þá vegalengd þekkja flestir hér, þið þurfið ekki að halda það, að bændurnir við Ísafjarðardjúp hefðu verið að hafa verbúðir úti í Bolungarvík, ef fjörðurinn hefði verið fullur af fiski.

Ég held, að þessu sé nægilega svarað með þessu.