02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. meiri hl. (Jón Arnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið frá því, sem nú er, og vil aðeins að gefnu tilefni frá hv. 5. landsk. (US) í sambandi við það, sem hann beindi til mín út af sandinum og sementsverksmiðjunni, segja það, að hér er ekki neinu saman að jafna, botnvörpunni eða sandinum. Um þær sögur, sem hann hefur heyrt um, að það væri mikil fiskigengd á þessum miðum nú í vetur eða vor, þá er það ekki rétt, og ég veit ekki til þess, ég hef spurzt fyrir um þetta, og ég veit ekki til þess, að sjómenn segi frá því, að þeir fiski meira á þessum stað en annars staðar í flóanum eða á þeim fiskimiðum, sem þeir eru vanir að fá afla á. En hitt er rétt, að á meðan var verið að dæla á s.l. sumri, þá var það svo, að það var meiri fiskur, sem kom á þessu svæði, heldur en annars staðar. Bátarnir leituðu lags um það að leggja línuna, ýsulínuna, einmitt um leið og sandskipið fór til lands, og þetta er ekkert óskiljanlegt, það er hreyfing í sjónum og fiskurinn heldur, að þarna sé æti, hann kemur á þessa staði. En ef sandurinn hefði haft svipaðar afleiðingar fyrir þann fisk, sem sótti þarna að, eins og botnvarpan hefur á hvaða ungviði sem nálgast hana, þá hefði minna komið á línuna á eftir.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta. Ég vil að lokum enda mál mitt með því að segja, að verði nú horfið að því að leyfa dragnótaveiðar að nýju, þá er það spor aftur á bak í þeirri viðleitni íslenzku þjóðarinnar að vernda fiskistofnana frá rányrkju og hvers konar yfirgangi.