30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Skaftason:

Herra forseti. Leiðir þær, sem hæstv. ríkisstj. velur til þess að laga þann skakka, sem verið hefur í þjóðarbúskapnum á undanförnum árum, eru gamalreyndar. Jöfnuði inn á við og út á við á að ná með því að gera allar framkvæmdir það dýrar, að einungis örfáir efnamenn geti í þær ráðizt, og með því að skera stórlega niður neyzlu launafólks í landinu.

Vinstri stjórnin hafði leitazt við að mæta þeim vanda, sem fyrir var, með því að efla framleiðsluna til lands og sjávar, viðhalda fullri atvinnu og leggja grundvöllinn að nýjum atvinnugreinum, m.a. í stóriðju, svo sem með Sogsvirkjuninni og sementsverksmiðju. Þessi stefna, framleiðslustefnan, var á góðum vegi með að skila okkur yfir verstu ófærurnar í efnahagslífinu, sem m.a. sást á því, að árið 1958 náðist jöfnuður í viðskiptunum við útlönd í fyrsta skipti um nokkurra ára skeið. Vinstri stjórnin varð að hrökklast frá vegna óheilinda innan frá og dæmalausrar stjórnarandstöðu, sem skeytti hvorki um skömm né heiður í aðgerðum sínum. Og nú sitja þeir saman í ríkisstj., flokkarnir, sem fyrst og fremst felldu vinstri stjórnina, og framkvæma sína stjórnarstefnu, sem almenningur hefur gefið nafnið „hrunstefnan“. Ég bið hlustendur að athuga vel það, sem flokkar þessir eru nú að framkvæma, og bera saman við loforð þeirra við tvennar kosningar á s.l. ári.

Með efnahagsráðstöfununum hafa stjórnarflokkarnir samþykkt nýjar álögur á þjóðina, sem nema a.m.k. 1000 millj. kr., og er þá tekið tillit til hækkana á bótagreiðslum trygginganna og breytinga á skattalögunum. Verðhækkanirnar af völdum efnahagsaðgerðanna eru þegar orðnar gífurlegar, og eru þó öll kurl ekki komin til grafar enn, fjarri því.

Sem dæmi þessara verðbreytinga vildi ég nefna verðbreytingar á örfáum vörutegundum fyrir og eftir efnahagsaðgerðirnar. Magn af hveiti, sem áður kostaði 100 kr., kostar nú kr. 152.57. Búsáhöld úr leir, sem áður kostuðu 100 kr., kosta nú kr. 141.62. Bómullarefni mislitt, sem áður kostaði 100 kr., kostar nú kr. 184.51. Gúmmískófatnaður, sem áður kostaði 100 kr., kostar nú kr. 186.51. Timbur, sem áður kostaði 100 kr., kostar nú kr. 157.96. Þakjárn, sem áður kostaði 100 kr., kostar nú kr. 158.78. Kol, sem áður kostuðu 100 kr., kosta nú kr. 146.25. Dráttarvélar hafa hækkað í verði um 66%, vörubifreiðar um rúm 62%. Nýr 75 rúmlesta vélbátur úr eik kostaði áður um 3 millj. kr., en nú um 4.5 millj. kr., eða hækkun um 50%.

Það er staðreynd, að verðhækkunum þessum og kjararýrnunum, sem verða munu vegna minnkandi atvinnu, eiga launamenn að mæta með óbreyttu kaupgjaldi. En fá þeir þá ekki eitthvað annað á móti? Í grg. efnahagsmálafrv. gaf ríkisstj. svofelldar yfirlýsingar, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem þessar ráðstafanir hafa í för með sér vegna hækkaðs verðlags, og til þess að koma í veg fyrir hana með öllu hjá þeim, sem sízt mega fyrir henni verða, leggur ríkisstj. til, að mjög mikil hækkun sé gerð á bótum almannatrygginga, sérstaklega fjölskyldubótum og elli- og örorkulífeyri. Munu heildarbótagreiðslur um það bil tvöfaldast. Þá leggur ríkisstj. til, að tekjuskattur verði felldur niður á almennum launatekjum.“

Þetta eru fallegar yfirlýsingar og bera vott um jafnréttis- og réttlætisást hæstv. ríkisstj. Þeim átti að bæta upp kjaraskerðinguna með öllu, sem sízt máttu fyrir henni verða að dómi ríkisstj. Og hverjir eru það svo að dómi ríkisstj., sem sízt mega verða fyrir kjaraskerðingu? Hverjir fá fullar bætur og ríflega það? Það dæmi er lærdómsríkt að rekja, því að það sýnir ljóslega eðli hæstv. núv. ríkisstj.

Bætur almannatrygginganna átti að auka. Það hefur verið gert. Elli- og örorkubætur hafa hækkað um 20% frá í fyrra, og fjölskyldubætur hafa verið hækkaðar verulega hjá fjölskyldum með allt að þrem börnum, en fari barnafjöldinn fram yfir það, þá nemur hækkunin aðeins 269 kr. á barn á ári eða tæplega svo, að nægi til að kaupa fyrir ódýra barnsskó. En bætur þessar fá bæði ríkir og fátækir, þannig að ekki verður af því dregið, hverja að dómi ríkisstj. þurfi fyrst og fremst að verja fyrir kjaraskerðingu.

Þá er á hitt atriði kjarabótanna að líta, lækkun skatta og útsvara, og þá sést líka fljótt, hverjir fá kjaraskerðinguna bætta og sumir rúmlega það. Hjón með þrjú börn og 50 þús. kr. tekjur lækka í skatti um 236 kr. Séu þau með 100 þús. kr. tekjur, lækkar skattur þeirra um 5700 kr. Og hafi þau haft 200 þús. kr. tekjur, lækkar skattur þeirra um 20869 kr., eða nálægt nítugföld lækkun á við þá, sem fjölskyldan með 50 þús. kr. tekjurnar fær.

Nákvæmlega sama gerist í sambandi við breytingarnar á útsvarslögunum. Hátekjumennirnir fá margfalda lækkun í útsvari, miðað við menn með miðlungstekjur eða þaðan af lægri tekjur. Dæmi: Einstaklingur í Reykjavík með 200 þús. kr. tekjur árið 1959 og 50 þús. kr. útsvar það ár fengi 15 þús. kr. lækkun í útsvari 1960 samkvæmt nýsamþykktum útsvarslögum, en einstaklingur með 60 þús. kr. tekjur sama ár og 8500 kr. útsvarsfrádrátt fengi rúmar 2000 kr. í lækkun í útsvari 1960. Hátekjumaðurinn fengi því rúmlega sjöfalda lækkun á móts við hinn. Ég vil ekki draga í efa, að nauðsynlegt hafi verið að lækka hæstu þrepin í skatta- og útsvarsstigunum, þau voru of há. En ég mótmæli kröftuglega þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð. Það er óhæfa, að menn með algengustu launatekjur skuli fá nokkur hundruð eða þúsundir króna í skatta- og útsvarslækkanir sem kjarabætur vegna stórhækkaðs verðlags, en hátekjumenn lækkanir, sem nema tugum þúsunda. Ég mótmæli slíku ríkisstjórnarréttlæti og vara við afleiðingum þess.

Sem fyrr segir, er stefna hæstv. ríkisstj. við það miðuð, að jöfnuður í greiðsluviðskiptum við útlönd og jöfnuður í ríkisbúskapnum fáist með því, að dregið sé úr verklegum framkvæmdum einstaklinga, félaga og hins opinbera og með minnkandi neyzlu þjóðarinnar. Þessu marki á að ná með því að gera allt svo dýrt, að aðeins fáir útvaldir geti ráðizt í framkvæmdir. Samdráttarstefnan gerir þannig ráð fyrir því, að innflutningur á þessu ári verði um 200 millj. kr. lægri en hann var árið 1958, miðað við það gengi, sem þá var. Fjárveitingar á fjárl. til verklegra framkvæmda og atvinnuveganna eru hlutfallslega lægri í ár en verið hefur síðasta áratuginn, eða aðeins um 19.7% af heildarútgjöldum fjárl. fyrir árið 1960 á móti 31.8% árið 1.957.

Íbúðabyggingar á að skera niður með því að hætta hinni pólitísku fjárfestingu í íbúðabyggingum, sem talsmenn stjórnarflokkanna nefna svo, en því nafni er stuðningur hins opinbera við húsbyggjendur nefndur, og taka á upp í staðinn efnahagslega fjárfestingu, þ.e.a.s. að fáir, en fjársterkir aðilar byggi íbúðirnar og leigi út. Með þessum aðgerðum sannar Sjálfstfl., sem fyrst og fremst ber ábyrgð á stjórnarstefnunni, hverra flokkur hann er. Hann miðar aðgerðirnar við að safna eignunum og framleiðslutækjunum á fárra manna hendur. Hann vill fórna hagsmunum hins tiltölulega fjölmenna hóps sjálfstæðra atvinnurekenda, húseigenda og framleiðenda og safna eignum þeirra og rekstri á hendur fárra, en voldugra einstaklinga, sem eru innsti kjarninn í fyrirtæki því, sem nefnir sig Sjálfstfl., enda ráða þeir mestu um reksturinn á því fyrirtæki.

En er þessi stefna í samræmi við þjóðarhag? Eru það hagsmunir þjóðarinnar, að hún skiptist upp í fjölmenna stétt þeirra, sem ekkert eiga, og hinna, sem allt eiga? Á fyrstu dögum umræðna hér á Alþ., eftir að efnahagsmálafrv. var lagt fram, heyrðust talsmenn ríkisstj. iðulega halda því fram, að aukning á bótagreiðslum trygginganna og skattalækkanir mundu fyllilega bæta upp kjaraskerðingu launafólks vegna efnahagsaðgerðanna. Nú heyrist slíku ekki lengur haldið fram. Allir viðurkenna kjaraskerðinguna, sem orðin er, og á þó meira eftir að koma í dagsljósið.

Og hver eru svo rökin fyrir þessum glæfralegu ráðstöfunum? Talsmenn ríkisstj. telja þau aðallega þrenn: Í fyrsta lagi til þess að forða þjóðinni frá því að sökkva í skuldir og vanskil út á við. 800 millj. kr. eyðslulántaka ríkisstj. fellir þau rök. Í öðru lagi: kollsteypan á að vera nauðsynleg til þess að komast út úr uppbótakerfinu. Það fær ekki heldur staðizt. Uppbótakerfið á alls ekki að leggja niður. Annan meginþátt þess, niðurgreiðslurnar, á að auka stórlega, eða upp í 303 millj. kr., og útflutningsuppbætur halda áfram. Útflutningssjóður á að vera við lýði, þangað til ríkisstj. telur hlutverki hans lokið. Í þriðja og síðasta lagi á svo að stórauka frelsið og minnka ríkisafskiptin. Frelsispostular íhalds og krata geta tæplega tára bundizt, er þeir ræða þennan þátt viðreisnarinnar. En í hverju er þetta mikla og áður óþekkta frelsi fólgið? Er það útflutningurinn, sem gefinn er frjáls? Nei og aftur nei, engu er þar hróflað. Er innflutningurinn gefinn frjáls? Um 40% hans verða áfram háð leyfum, eða svipað og áður hefur verið. Og nú verða lánsfjárhöft svo gífurleg og íhlutun um þau mál svo mikil, að aldrei hefur nokkuð slíkt þekkzt fyrr. Svo er af fjálgleik skrafað um aukið frelsi.

Ríkisstj. hefur tekið mjög ógiftusamlega á þessum málum. Hún leitaðist ekki við að fylkja sem flestum saman um þær ráðstafanir, sem gera þurfti. Hún neitaði allri samvinnu um þessi mál, bæði innan þings og utan, og sekt þeirra manna, sem svo gálauslega fara með þýðingarmestu málefni landsins, er mikil. Og það er með öllu óverjandi, að efnt sé til glæfra um þau, án þess að hugsa nokkuð um, hvað framkvæmanlegt sé eða til hvers það kann að leiða, sem þvingað er fram, og án þess að það eigi hljómgrunn hjá þjóðinni eða nauðsynlegan stuðning.

Góðir hlustendur. Á s.l. ári gekk þjóðin til tveggja alþingiskosninga. Alþfl. bað þá um stuðning kjósenda til þess að framkvæma áfram þá stöðvunarstefnu, sem hann sagðist hafa framkvæmt s.l. ár það vel, að dýrtíðin væri stöðvuð og tiltölulega sléttur sjór fram undan. Hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., kvað leiðina til bættra lífskjara vera þá að setja X-ið við D. Þjóðin veitti flokkum þessum meiri hluta á þingi, og nú eru þeir að framkvæma stjórnarstefnu, sem gengur í þveröfuga átt við það, sem lofað var. Aldrei hefur dýrtíðarspólan snúizt jafnhratt og nú, og aldrei um langt árabil hafa lífskjör almennings verið verri en nú. Gamall málsháttur segir: Skamma stund verður hönd höggi fegin. Ég ætla, að svo verði um núverandi stjórnarflokka. Sá trúnaður, sem þeim var sýndur af kjósendum í síðustu kosningum, dvín nú óðum, og ég þykist mega fullyrða, að stuðning þjóðarinnar skorti þá til þeirra framkvæmda, sem þeir eru nú að gera. Valdaferli stjórnarinnar mun því ljúka senn, aðeins er eftir spurningin um nafn þess mánaðar, sem hún mun deyja í. — Góða nótt.