30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3341 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Háttvirtu áheyrendur. Í nýútkominni myndabók um Ísland er snjall formáli eftir Halldór Kiljan Laxness. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég minnist þess, er ég steig einhverju sinni inn í amerísku flugvélina í Keflavík síðla vors. Hún var á leiðinni milli Nýju-Jórvíkur og Kaupmannahafnar. Vorið hafði verið óvenjuhart, veturinn ætlaði aldrei að geta hypjað sig. Ferðamenn úr fjarlægum heimshluta horfðu sem steini lostnir út um flugvélagluggana niður á þennan snauða, nöturlega norðurhjara, sem þeir bárust yfir á vængjum. Fjöll, hraun, jöklar, eyðimerkur, upp aftur og aftur. Svartir klettar gægðust hér og hvar upp úr áfreranum, en á þeim jöðrum strandlengjunnar, þar sem byggilegt var, gat að líta bændabýli á víð og dreif og lítil þorp. Og þarna innanvert í víðum flóa var víst höfuðstaðarnefnan þeirra. Þetta líktist allt saman örvæntingarfullum upphrópunarmerkjum á óskrifuðu blaði. „Þeir eru sannarlega ekki öfundsverðir, sem þarna búa,“ segir einn ferðamaður. „Mér þætti fróðlegt að vita, hvað heldur lífinu í þessum aumingja manneskjum, sem hér verða að hírast yfirgefnar af guði og mönnum,“ sagði annar. „Fiskur,“ sagði þriðji maður. Allir ferðamennirnir ráku upp stóran hlátur. Þá mundi ég allt í einu eftir því, að fátt er tíðara með mönnum, sem eiga heima á meginlöndum, en að fiskur veki upp einhver sneypileg og hlægileg hugmyndatengsl í þeim og ekki síður fyrir því, þó að fiskur sé hafður sem tákn einhvers ástands. Í Tíbet hefur t.d. hver sá maður unnið til opinberrar hýðingar, sem staðinn er að því að veiða fisk. Nokkrum stundum síðar flugum við yfir Skagen í Danmörku, sem áður hét á Vendli, nú Jótland. Skógar þriflegir, en ekki víðlendir, voru að springa út og vor grænkandi í ökrunum gulu. „Þetta líkar mér betur,“ sagði einn ferðamaður. „Hér leynir sér ekki, að fólki vegnar vel“.“

Ég hef mál mitt á að lesa ykkur þennan kafla, af því að mér finnst hann með einföldum og skýrum dráttum lýsa staðreynd, sem við gerum okkur nú orðið yfirleitt ekki nógu ljósa, og brýna nauðsyn ber því til að við séum minnt á, a.m.k. öðru hverju. Það er ekki sjálfsagður hlutur, að menn búi við góð lífskjör á Íslandi. Það er þvert á móti ein af furðum 20. aldar, að á rúmum aldarhelmingi skuli 100–200 þús. manna hópi á eylandi norður við heimskautsbaug hafa tekizt að setja á stofn sjálfstætt ríki og koma jafnframt á fót nútíma menningarþjóðfélagi, þar sem ný véltækni er grundvöllur jafngóðra lífskjara og bezt gefast hjá gömlum iðnaðarþjóðum í Evrópu, — þar sem aldalöng barátta gegn áþján og harðrétti hefur orðið undirstaða þjóðfélags, er mótast af frelsi og jafnrétti, og forn bókmenntaarfur er lífæð fjölbreytts og gróskumikils menningarlífs. Þetta undur hefur gerzt, af því að feður okkar og mæður, afar okkar og ömmur áttu þá hugsjón, að á Íslandi skyldu búa frjálsir Íslendingar, að í brjóstum þeirra brann sú trú á landið, að það gæti búið börnum sínum bjarta framtíð og góð lífskjör, og vegna þess að þau voru reiðubúin að leggja mikið á sig, til þess að draumar þeirra gætu rætzt. En við, sem nú lifum, megum aldrei gleyma því, hvað það hefur kostað forfeður okkar að geta skilað í hendur okkar því, sem við nú njótum of oft sem sjálfsagðra hluta. Og við skulum heldur aldrei gleyma því, að við ávöxtum ekki það pund, sem okkur hefur verið trúað fyrir, nema með því að taka á, þegar þess er þörf, bera byrðar, þegar það er nauðsynlegt. Saga okkar Íslendinga á þessari öld, sú saga, sem greinir frá því einsdæmi í veraldarsögunni, að þjóð hefur hafizt til velmegunar af fiski, hefur ekki verið saga af jafnri, samfelldri þróun, heldur byltingarsaga. Hún greinir ekki frá stöðugum framförum, heldur víxlsporum og mistökum innan um glæsileg átök og stór framfaraspor. Í henni segir frá þungum áföllum og óvæntri, jafnvel óverðskuldaðri heppni. En í heild hefur þjóðinni miðað fram á við, af því að hún hefur alltaf borið gæfu til þess að átta sig, þegar hana var að reka af réttri leið. Það hefur kostað erfiðleika í bráð, en árangurinn hefur aldrei brugðizt.

Vafasamt er, hvort nokkurs staðar hafi orðið jafnörar framfarir á jafnskömmum tíma og hér á Íslandi síðan um aldamót. Skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því, að þá voru Íslendingar í verklegum efnum öldum á eftir öðrum nálægum þjóðum. En fólkið var greint og hafði þrátt fyrir aldalanga fátækt þá almennu menntun og þá fróðleiksfýsn, sem gerði því auðvelt að læra nýja tækni og nýja starfshætti. Þjóðin fékk heimastjórn, og svo að segja samtímis náði iðnbyltingin út hingað í mynd botnvörpunga og vélbáta, auk þess sem erlent fjármagn fékkst til landsins. Engar skýrslur eru til, er geri kleift að áætla, hversu mikið lífskjör almennings hafi batnað síðan um aldamót. En fullyrða má, að s.l. 20 ár hafi þau batnað um helming.

Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir þau alvarlegu mistök, sem orðið hafa. Okkur hefur t.d. tekizt það verr en flestum grannþjóðum okkar að varðveita stöðugt verðgildi peninganna. Krónan hefur fallið — hrapað í verði. Á þeim 40 árum, sem hún hefur verið sjálfstæður íslenzkur gjaldmiðill, hefur gengi hennar verið fellt beinlínis 6 sinnum, þar af víst tvisvar sinnum í sambandi við gengisbreytingar sterlingspundsins, og auk þess hefur gengi hennar á s.l. áratug verið oftsinnis fellt með óbeinum ráðstöfunum, sem jafngilt hafa gengisbreytingu, þótt þær hafi ekki borið það nafn. Enginn einn íslenzkur stjórnmálaflokkur ber sérstaka ábyrgð á þessari miklu og stöðugu gengisfellingu íslenzku krónunnar. Þeir hafa allir átt drjúgan þátt í að móta þá efnahagsmálastefnu, sem leitt hefur til gengisfellingar. Þeir hafa varið gengisfellinguna, þegar þeir hafa setið í stjórn, en gagnrýnt hana, þegar þeir hafa staðið utan stjórnar. En gengisbreyting hefur aldrei verið framkvæmd á Íslandi að ástæðulausu. Á undan hefur ávallt gengið þróun, sem gerði hana nauðsynlega. Hún hefur verið framkvæmd misjafnlega vel, sem liður í misjafnlega hyggilegum eða réttlátum heildarráðstöfunum. En allar lækkanir, sem gerðar hafa verið á gengi íslenzku krónunnar í þessi 40 ár, sem hún hefur verið til, hafa verið viðurkenning á orðnum hlut og það á einnig við um þá gengislækkun, sem nú nýlega hefur verið framkvæmd.

Gengi krónunnar hefur aðeins einu sinni verið hækkað, á árunum 1924–1925. Það var gert til þess að vega upp á móti þeirri gengislækkun, sem orðið hafði nokkrum árum áður vegna lánsfjárþenslu Íslandsbanka. En einmitt á árunum eftir 1924 var mikið góðæri, sem gerði slíkt kleift. Í eitt skipti annað hefði tvímælalaust einnig átt að hækka gengið, þ.e. á fyrsta stríðsárinu 1940. Það voru mikil mistök, að svo var ekki gert og áhrifum verðhækkana erlendis þannig bægt frá íslenzkum þjóðarbúskap.

Að því er hinar tíðu gengislækkanir snertir, hafa mistökin ekki verið fólgin í því að framkvæma gengislækkunina, þegar það var gert, heldur að búa þannig að krónunni, að gengislækkun hennar varð hvað eftir annað óhjákvæmileg. Þegar gengislækkun hefur verið ákveðin, hefur það verið gert eftir of mikið hik. Gengislækkunina 1939 hefði átt að framkvæma 8 árum áður, eða í upphafi kreppunnar 1931. Næstum áratugs barátta til þess að forðast hana reyndist árangurslaus og átti auk þess drjúgan þátt í hinu langvarandi kreppuástandi þeirra tíma. Gengislækkunina 1950 hefði átt að framkvæma strax eftir stríðið, eða 1945–1946, og þá breyt., sem nú nýlega hefur verið samþykkt, hefði verið skynsamlegra að ákveða fyrir a.m.k. fjórum árum, eða 1956, í stað þess að halda út á yfirfærslugjaldsbrautina til þess að standa undir síhækkandi útflutningsbótum.

En hver eru þá þau mistök okkar, sem þannig hvað eftir annað hafa kallað á nauðsyn breyttrar gengisskráningar? Grundvallarvandamál íslenzks efnahagslífs nú verða alls ekki skilin, nema menn geri sér ljóst, að hinar þrjár miklu gengisbreytingar síðustu tveggja áratuga hafa allar fyrst og fremst verið afleiðing rangrar stefnu innanlands á sviði bankamála, fjármála ríkis og sveitarfélaga, verðlagsmála landbúnaðarins og kaupgjaldsmála. Þær hafa ekki verið orsök neins, sem síðar kann að hafa farið aflaga, heldur afleiðing þess, sem áður hafði verið gert rangt. Gengislækkunin 1939 var orðin óhjákvæmileg vegna þess, að innflutnings- og gjaldeyrishöftunum á fjórða áratugnum mistókst að halda upp gengi krónunnar, fyrst og fremst vegna rangrar stefnu í bankamálum. Gengislækkunin 1950 var orðin óhjákvæmileg vegna þess, að verðhjöðnunarstefna áranna 1947–1949 bar því miður ekki tilætlaðan árangur og átti röng stefna í fjármálum ríkisins einn meginþátt í því. Gengislækkunin 1960 var orðin óhjákvæmileg vegna þess, að útflutningsbóta- og innflutningsgjaldakerfið hafði raskað grundvelli heilbrigðrar efnahagsstarfsemi í landinu og skapað greiðsluhalla gagnvart útlöndum, sem var orðinn óbærilegur, og allan þennan tíma voru í gildi hættuleg tengsl milli verðlags og kaupgjalds og kaupgjalds og verðs á landbúnaðarafurðum, þannig að verðlagið og kaupgjaldið hækkaði á víxl og langt umfram þær hækkanir, sem urðu á verðlagi viðskiptalanda okkar.

Heimsstyrjöldin og þær gagngerðu breytingar, sem sigldu í kjölfar hennar, áttu auðvitað mestan þátt í því, að gengislækkunin 1939 leysti ekki þann vanda, sem henni var ætlað. Ástæða þess, að gengislækkunin 1950 náði ekki heldur því takmarki, sem henni var ætlað, var sumpart sú, að Kóreustríðið breytti viðskiptakjörum landsins mjög til hins verra, en sumpart, að á öðrum sviðum og þá sérstaklega í bankamálum og verðlagsmálum var ekki fylgt þeirri stefnu, sem nauðsynleg var til þess, að réttur árangur næðist.

Af því, sem nú hefur verið sagt, finnst mér mega draga tvenns konar lærdóm: 1) Gengisbreyting sú, sem Alþingi hefur nú samþykkt, er afleiðing rangrar stefnu innanlands, sem allir flokkar bera ábyrgð á að meira eða minna leyti. Að neita nauðsyn gengisbreytingarinnar er að neita staðreyndum. Þetta leyfi ég mér að fullyrða að leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna sé vel ljóst. 2) Við verðum að láta reynsluna af fyrri gengisbreytingum okkur að kenningu verða. Við verðum að gera okkur fullkomlega ljóst, hvers vegna þær báru ekki þann árangur, sem þeim var ætlað. Við verðum að skilja til hlítar, að gengisbreytingin getur því aðeins komið að gagni, að hún sé liður í heildarstefnu, sem miði að því að leggja traustan grundvöll að heilbrigðu atvinnu- og viðskiptalífi, þar sem allir hafa verk að vinna og neyzla og framkvæmdir eru ekki meiri en sem svarar þjóðarframleiðslunni og erlendum framkvæmdalánum. Af þessum sökum má ekki skoða stefnuna í gengismálum út af fyrir sig, heldur verður allt að fara saman, markvissar aðgerðir hvað snertir útlán bankanna og útlánsvexti, fjármál ríkisins og sveitarfélaga, viðskiptamál, verðlagsmál, kaupgjaldsmál og gengismál, ef sá árangur á að nást, sem að er stefnt.

Ég held, að óhætt sé að segja, að aldrei fyrr hafi á Íslandi verið gripið til jafnvíðtækra og samfelldra ráðstafana í efnahagsmálum og núv. ríkisstj. hefur gert. Það er einmitt gert í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur. Öllum, sem skyn bera á efnahagsmál, er ljóst, að stefnan í þessum málum verður að vera heildarstefna og hún verður að taka til allra sviða atvinnu- og fjármálalífsins. Syndir okkar í þessum efnum undanfarna áratugi hafa einmitt verið í því fólgnar, að menn hafa haldið, að hægt væri að láta sér nægja aðgerðir á þessu sviði eða hinu, en hliðra sér hjá hliðstæðum ráðstöfunum á öðru sviði. Hafi mönnum skilizt, að átak var nauðsynlegt einhvers staðar, hafa menn reynt að hlífa sér annars staðar. Þess vegna hefur árangurinn ekki orðið sá, sem við var búizt. Nú ríður á því, að haldið sé af sömu festu í taumana í öllum greinum. Þá mun hagstæður árangur ekki láta á sér standa.

Fyrir nokkrum vikum var það aðalinntak áróðurs stjórnarandstöðunnar, að stjórnarstefnan væri röng. Nú virðist vera lögð öllu meiri áherzla á að sýna fram á, að hún hafi mistekizt. Um þetta hvort tveggja langar mig til þess að fara nokkrum orðum.

Var það rangt að breyta gengisskráningunni? Þeir, sem svara þeirri spurningu játandi, hljóta jafnframt að halda því fram, að það hafi verið rangt að reyna að binda endi á þann greiðsluhalla við útlönd, sem var að koma þjóðinni á vonarvöl. Eða var kannske leyfilegt að framkvæma ráðstafanir, er hefðu sömu áhrif og gengislækkun, ef þeim var aðeins gefið annað nafn, eða rangt að gera innflutningsverzlunina eins frjálsa og viðskiptasamningar okkar við jafnkeypislöndin gera kleift og losa okkur þannig við þau höft, sem við höfum búið við lengur en nokkur þjóð Vestur-Evrópu, — höft, sem aldrei hafa komið að því gagni, sem til var ætlazt, af því að þeim hefur jafnan verið fengið stærra verkefni en íhlutun um innflutningsmál megnar að leysa, en hins vegar lagt lamandi hönd skrifstofumennsku og sérhagsmunastreitu á atvinnu- og viðskiptalíf landsins? Var það rangt að tryggja landinu yfirdráttarheimild hjá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sjá þjóðinni þannig fyrir þeim gjaldeyrisvarasjóði, sem hana hefur svo mjög vanhagað um? Er það rangt að framfylgja þeirri stefnu einnig í bankamálum, að bankarnir auki útlán sín ekki meira en svarar aukningu innlánsfjár? Var rangt að hækka vexti og gera þannig hvort tveggja í senn, örva sparnað og hvetja menn til þess að nota ekki fé nema til hinna arðbærustu og nauðsynlegustu framkvæmda eða kaupa? Var það rangt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög? Því mun varla nokkur halda fram, þótt tillögur stjórnarandstæðinga hefðu að vísu leitt til mikils halla á ríkisbúskapnum, ef þær hefðu allar verið samþykktar. Var það rangt að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur og lækka útsvör, en innheimta í stað þess almennan söluskatt? Er ekki öllum sanngjörnum mönnum orðið ljóst, að eins og innheimtu tekjuskatts og tekjuútsvars hefur verið háttað hér á landi, hefur verið framið stórkostlegt ranglæti gagnvart launafólki, og úr því ranglæti hefur nú verið bætt að verulegu leyti? Var það rangt að tvöfalda bætur almannatrygginganna? Um það hefur engin rödd heyrzt. Var það rangt að afnema vísitöluuppbót á kaup og afurðaverð? Er ekki í raun og veru orðið langt síðan bæði launþegum og bændum var orðið fullljóst, að hvorugur aðilinn hagnaðist á sífelldum víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds, en að þær væru þjóðarheildinni til tjóns?

Ég hef nú í stuttu máli vikið að helztu þáttunum í stefnu ríkisstj. og staðhæfingum andstæðinga um, að hún hafi verið röng. Í þeim er tómahljóð. Enn þá greinilegra verður tómahljóðið þó, þegar það er hugleitt, að annar hvor eða báðir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa margsinnis áður í orði og í verki beitt sér fyrir hverjum einasta þætti þessarar stjórnarstefnu. Þannig hefur Framsfl. staðið að öllum gengislækkunum, sem framkvæmdar hafa verið, síðan flokkurinn komst til áhrifa, að þeirri síðustu undantekinni. Og í síðustu stjórn Hermanns Jónassonar beitti hann sér eindregið fyrir till., er jafngiltu hreinni gengislækkun. Í þeirri sömu stj. stóð Alþb. að ráðstöfunum, er svöruðu til 30% gengislækkunar. Á árunum eftir 1950 stóð Framsfl. að mikilli rýmkun innflutningshafta, sem hann að vísu varð að hverfa frá, ekki sízt vegna skorts á gjaldeyrisvarasjóði. Hvers vegna telur flokkurinn þá rangt að losa um höftin nú og gera jafnframt ráðstafanir til að útvega þann gjaldeyrisvarasjóð, sem gerir þetta kleift?

Það er rétt, að Framsfl. hefur aldrei viðurkennt nauðsyn róttækra aðgerða í bankamálum. Í því efni hafa sérhagsmunir því miður villt honum sýn allt of lengi. En í þeim málum hefur hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Alþb., verið því réttsýnni, eins og till. ráðh. í stjórn Hermanns Jónassonar báru ljósan vott. Um skaðsemi vísitölutengsla milli verðlags og kaupgjalds hefur Framsfl. hins vegar verið allra flokka fjölorðastur, og Alþb. hefur tvísvar sinnum á tveggja ára stjórnarferli staðið að veigamikilli skerðingu á þessum tengslum.

Þannig hafa stjórnarandstöðuflokkarnir lýst sig og sýnt sig samþykka hverjum einasta einstökum þætti í ráðstöfunum núv. ríkisstj., enda þótt þeir því miður hafi ekki borið gæfu til að vera sammála, hvorki innbyrðis né núv. stjórnarflokkum, um nokkra þá heildarstefnu, er miðað gæti til lausnar á vanda þjóðarinnar.

En hvað þá um þær fullyrðingar andstæðinganna, að stjórnarstefnan hafi þegar beðið skipbrot? Hefur ekki framleiðslan verið stunduð af kappi, viðskipti verið með eðlilegum hætti? Jú, vissulega. Hefur atvinnuleysis orðið vart? Nei, sannarlega ekki. Hefur þá verið svikizt um að ljúka skuldbindingum uppbótakerfisins á þann hátt, sem gert var ráð fyrir? Nei, við þær skuldbindingar hefur verið staðið og mun verða staðið jafnt fyrir því, þó að útflutningsskatturinn verði lækkaður úr 5 í 2½%. Þeim skatti var aldrei ætlað annað hlutverk en að standa undir gömlum skuldbindum útflutningsbótakerfisins. Að telja lækkun hans jafngilda nýjum uppbótum er hrein fjarstæða. Hafa verðhækkanir þá ekki orðið meiri en gert var ráð fyrir? Nei, gert var ráð fyrir 13% hækkun smásöluverðs af völdum gengisbreyt. og 1–1½% hækkun af öðrum ástæðum. Rösklega helmingur þeirrar hækkunar er kominn fram, og ekkert bendir til, að hækkunin verði meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Fjölskyldubætur og auknar niðurgreiðslur munu hins vegar draga úr hækkun vísitölunnar sem nemur 10 stigum. Söluskatturinn mun aftur á móti hækka vísitöluna um 3–3½ stig til viðbótar. En ef tekið væri í vísitölunni tillit til afnáms tekjuskattsins á almennar launatekjur og þeirrar lækkunar útsvara, sem væntanleg er, þá mundi vísitalan lækka um svipaða upphæð, svo að skattabreytingarnar rýra ekki kaupmátt vísitölufjölskyldunnar, en auka hins vegar tvímælalaust kaupmátt þeirra launamanna, sem hafa hærri tekjur en vísitölufjölskyldan.

Heildaráhrif efnahagsráðstafananna munu því verða þau, að framfærslukostnaður hækkar um 3%, en auk þess af öðrum ástæðum um 1–1½%, alveg eins og gert var ráð fyrir.

Sú kjararýrnun, sem menn að meðaltali verða að sætta sig við, nemur þannig alls 4–4½%, að vísu nokkru meiri fyrir einhleypa og barnlaust fólk, en minni og jafnvel engin fyrir þá foreldra, sem hafa fleiri en tvö börn á framfæri.

Hafa þá kannske ráðstafanir ríkisstj. stefnt hag landsins út á við í voða? Nei, því fer víðs fjarri. Frá febrúarlokum til aprílloka hefur gjaldeyrisaðstaða bankanna í frjálsum gjaldeyri batnað um 89 millj. kr. og heildaraðstaðan um 130 millj.

Þá hefur það heyrzt, að stefna ríkisstj. í bankamálum væri óframkvæmanleg og mundi sigla öllu í strand, ef framkvæmd væri. Útlánaaukning bankanna er miklu minni á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs en á undanförnum árum. Samt hefur framleiðslan gengið með eðlilegum hætti. Hins vegar hefur sparifjáraukning orðið mun meiri í marz og apríl en undanfarin ár. Fjárhagsafkoma ríkissjóðs er einnig enn sem komið er í fullu samræmi við það, sem gert hafði verið ráð fyrir, og er staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum nú betri en hún hefur verið um sama leyti árs um margra ára skeið.

Í öllum þeim atriðum, sem ég hef nú nefnt, hafa því áætlanir ríkisstj. staðizt. Allt tal stjórnarandstæðinga um, að kerfið sé að hrynja, ríkisstj. sé að gerbreyta öllum fyrirætlunum sínum og sérfræðingar hennar hafi misreiknað sig um 100 millj. eða einhver ósköp önnur, eru út í bláinn. Allar þessar fullyrðingar eru algerlega úr lausu lofti gripnar.

Hins vegar verður þjóðin að gera sér skýra grein fyrir því, að undanfarna mánuði hafa orðið miklar og alvarlegar verðlækkanir á útflutningsafurðum okkar. Engum manni mun þó væntanlega til hugar koma að gera ríkisstj. eða sérfræðinga hennar ábyrga fyrir því. Fiskimjöl og síldarmjöl hefur fallið í verði um 30–40% , og einnig hefur orðið verðfall á lýsi, freðfiski, rækjum og humar. Þessar verðlækkanir jafngilda um 5% lækkun á útflutningsverðmæti þjóðarinnar á ári og um 2% lækkun þjóðarframleiðslunnar, og eru þó ekki talin með þau óbeinu áhrif, sem minnkandi gjaldeyristekjur hljóta að hafa til að draga úr framleiðslunni á öðru sviði. Þessar verðlækkanir erlendis munu gera afkomu ársins í ár mun erfiðari en hún hefði ella orðið og tefja fyrir því, að ráðstafanir í efnahagsmálum beri fullan árangur.

En er heiðarlegt og drengilegt að nota þá erfiðleika, sem þetta bakar þjóðinni í heild, í baráttunni gegn ráðstöfunum ríkisstj.? Ýmsir úr forustuliði stjórnarandstöðunnar hafa undanfarið látið í ljós þá skoðun, að ég ekki segi von, að verkalýðsfélög muni bráðlega efna til verkfalla og knýja fram kauphækkanir. Hér er alvörumál á ferð og nauðsynlegt, að þjóðin öll geri sér grein fyrir þeim atriðum, sem skipta máli í þessu sambandi. Annars vegar er þess að geta, að gengislækkunin var höfð eins lítil og frekast var unnt, þannig að útflutningsatvinnuvegunum var þröngur stakkur skorinn. Á hinn bóginn var hækkun bóta almannatrygginganna höfð eins mikil og fjárhagur ríkissjóðs frekast leyfði, og er þar í raun og veru um kauphækkun að ræða til þess að vega á móti verðhækkunum, en bótahækkunin er ekki enn komin til framkvæmda nema að nokkru leyti.

Þá er aðstaða verkalýðshreyfingarinnar til þess að efla hagsmuni félaga sinna að tvennu leyti gerólík því, sem hún hefur verið um langt skeið undanfarið. Vinnudeila nú yrði eingöngu við atvinnurekendur. Ríkisstj. mun hvorki taka upp nýjar útflutningsbætur né lækka gengið á ný, til þess að hægt sé að velta kostnaðarauka af kauphækkunum yfir á þjóðarheildina. Ef atvinnurekendur geta hækkað kaup, eiga þeir að gera það. En þeir eiga að greiða kauphækkunina af rekstrartekjum sínum. Hana á ekki að greiða úr ríkissjóði eða neinum nýjum útflutningssjóði. Þetta er fyrra atriðið. Hitt er, að eins og kaupgjaldsmálum er hér nú háttað, væri ekki hægt að takmarka kauphækkanir við ákveðinn hóp, t.d. Dagsbrúnarmenn. Iðnaðarmenn, sjómenn, bændur og opinberir starfsmenn yrðu að fá sömu hækkun, þ.e. kauphækkunin mundi ná til nær allrar þjóðarinnar. En er nokkur von til þess, að slíkt væri kleift, án þess að ný verðbólguskriða skylli yfir? Mér finnst augljóst, að verkalýðshreyfingin geti aðeins dregið af þessu eina ályktun. Henni ber að sjálfsögðu að standa vörð um hagsmuni félaga sinna, en eins og málum háttar nú, eru hagsmunir þeirra nákvæmlega hinir sömu og þjóðarheildarinnar. Verkalýðshreyfingin gætir bezt hagsmuna og réttinda allra þeirra, sem fylla fylkingar hennar, með því að stuðla að því, að verðbólguhjólið fari ekki að snúast á ný, að ekki verði truflun á útflutningsframleiðslunni, að efnahagskerfið sé heilbrigt og traust. Væri nokkur önnur afstaða í samræmi við þær hugsjónir, sem verkalýðshreyfingin hefur helgað baráttu sína í áratugi?

Þær raddir heyrast oft í umræðum um efnahagsmálín, að þjóðin muni ekki una aðgerðum ríkisstj., því að hún þoli ekki þá kjaraskerðingu, sem ríkisstj. hefur enga dul dregið á að í bráð muni fylgja ráðstöfunum hennar. Ég gat um áðan, að þessi kjaraskerðing mundi nema að meðaltali 4–5%, nokkru meira fyrir suma, en minna fyrir aðra og alls ekki vera nein fyrir þá, sem sízt mundu þola hana. Mig langar í fyrsta lagi til þess að benda ykkur, hlustendur góðir, á þá staðreynd, að ríkisstj. hefur enga tilhneigingu til þess að dylja þjóðina neins í þessum efnum, enga tilhneigingu til þess að leyna hana því, að nokkur kjaraskerðing er óhjákvæmileg í bráð. Það er skoðun ríkisstj., að það sé ekki aðeins rangt, heldur beinlínis hættulegt að láta þjóðina halda, að allt sé í góðu gengi, en rýra svo kjör hennar eftir einhverjum krókaleiðum. Íslendingar eru áreiðanlega svo þroskað og greint fólk, að þeir vilja láta segja sér satt. Þeir kæra sig ekki um að láta blekkja sig. Ríkisstj. hefur gert sér far um að láta það koma skýrt fram, að ráðstafanir hennar munu hafa í för með sé.r nokkra kjararýrnun. Hún hefur gert það í trausti þess, að þjóðin geri sér ljóst, að alvara er á ferðum, og kynni sér því rækilega orsakir þess, að þetta er nauðsynlegt. Ég er viss um, að þjóðin mun ekki bregðast þessu trausti.

Í öðru lagi langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þá staðhæfingu, að 4–5% kjaraskerðing sé meiri en svo, að þjóðin geti þolað hana. Er ekki flestum áheyrendum mínum kunnugt, að Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða í heimi, sem hæstar hafa tekjur á hvern vinnandi mann? Allir vita, að yfirleitt eru lífskjör hvergi betri og jafnari í Evrópu en á Norðurlöndum. Tekjur manna hér á Íslandi munu vera svipaðar og í Noregi, nokkru lægri en í Svíþjóð og Danmörku og talsvert hærri en í Finnlandi. Í alþjóðlegum hagskýrslum er þjóðarframleiðslan í Noregi talin um 1000–1100 dollarar á mann. Hún er mjög svipuð hér á landi. Tekjur Finna á mann eru 20–30% lægri en þetta. Eru Finnar komnir á vonarvöl? Skyldu þeir telja kjör sín óbærileg?

Enn lærdómsríkara er þó að líta til Austur-Evrópu. Samkvæmt sömu alþjóðlegu hagskýrslum og ég gat um áðan var þjóðarframleiðsla þess lands í Austur-Evrópu, sem allir viðurkenna að hæstar hefur þjóðartekjur, þ.e. Tékkóslóvakíu, 400–500 dollarar á mann 1955 og því væntanlega nú um 600 dollarar, eða rúmlega helmingurinn af þjóðarframleiðslunni á mann, eins og hún er hér á landi og í Noregi. Það hlýtur að reynast fleirum en mér óskiljanlegt, að það verði allt að því ólíft á Íslandi, ef lífskjör manna hér þurfi í bráð að skerðast um 4–5% , samtímis því sem talið er ríkja sæluástand í Austur-Evrópu, þótt þar séu meðaltekjur manna næstum helmingi minni og þar sé enn fremur miklu fé varið til vígbúnaðar. Auðvitað hafa ýmsir hópar manna í þessum löndum jafngóð kjör og hér tíðkast og sumir jafnvel betri, enda er tekjuskipting þar miklu ójafnari en hér gerist, en á hinn bóginn býr mikill fjöldi og þá fyrst og fremst fátækir bændur við miklu lakari kjör en hér þekkjast, og dregur það meðaltal teknanna mjög niður.

Þessar staðreyndir, að lífskjörin eru víða og meira að segja víðast hvar í heiminum lakari en hér hjá okkur og skipting þeirra ójafnari, eru auðvitað ekki rök fyrir því, að þau þurfi eða megi lækka hér, en það eru rök fyrir hinu, að við þurfum ekki að æðrast, að við þurfum sannarlega ekki að örvænta, þótt þau verði að lækka eitthvað í bráð. Ótal aðrar þjóðir búa við mikla menningu og afreka miklu í vísindum og listum, þótt lífskjör þeirra séu miklu lakari en þau, sem við njótum. En samt er það rétt, að lífskjörin eiga aldrei að versna, ekki heldur í bráð, nema það sé óhjákvæmilegt eða það sé liður í tilraun til þess að bjarga verðmætum, sem eru enn þá meira virði en efnaleg velmegun.

Í sambandi við þær gagngerðu ráðstafanir í efnahagsmálum, sem við framkvæmum á þessu ári, skulum við aldrei eitt andartak gleyma því, hvers vegna þær voru nauðsynlegar, hvað í húfi var, ef við hefðum látið það undir höfuð leggjast að grípa til þeirra. Um margra ára skeið hafði verið um það bil 200 millj. kr. halli á gjaldeyrisviðskiptum okkar. Þjóðin var orðin óhóflega skuldug. Hún var hætt að fá venjuleg lán erlendis, hún hafði hvað eftir annað orðið að leita til ríkja, sem hafa hér mikilla hernaðarhagsmuna að gæta, til þess að fá hjá þeim lán og fékk þau með mjög óvenjulegum hætti. Gjaldmiðill hennar var einskis virði í alþjóðlegum viðskiptum. Var þetta ástand samboðið sjálfstæðri þjóð? Hvað varðveitir sú þjóð lengi stjórnarfarslegt fullveldi sitt, sem kann ekki að gæta fjárhagslegs sjálfstæðis síns? Það var þetta, sem var í húfi. Íslendingar voru á góðri leið með að verða bónbjargamenn og styrkþegar, sem gátu ekki litið framan í vini sína og viðskiptamenn sem frjálsir menn, sem þjóð, er vildi aðeins góð og heilbrigð viðskipti við aðrar þjóðir. Slíkur tími mátti aldrei koma.

Íslendingar urðu að snúa við, áður en þeir voru búnir að glata áliti annarra og eigin sjálfsvirðingu. Það var þetta, sem gerði stefnubreytinguna nauðsynlega. Það er í ljósi þessara staðreynda, sem 4–5% kjaraskerðing í bráð er réttlætanleg. Ef okkur tekst að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl, ef okkur tekst að koma í veg fyrir halla á viðskiptunum við útlönd, ef okkur tekst að skapa traust á gjaldmiðli okkar inn á við og út á við, ef okkur tekst að skapa trú á framtíð okkar sem frjálsra manna í fullvalda ríki, þá er ég sannfærður um, að þjóðin telur ekki eftir sér þá erfiðleika, sem þetta átak veldur henni í bráð. Hún veit og skilur, að þá mun hún uppskera þann ávöxt, sem saga hennar og sjálfstæðisbarátta hefur kennt henni að meta umfram allt annað. — Góða nótt.