05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Undanfarna daga hafa farið hér fram allmiklar umræður bæði um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og önnur frv., sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir þingið og öll standa í beinu sambandi við þingfrestunarfyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur gengið heldur illa að fá hæstv. ráðh. til þess að svara ýmsum fsp., sem hér hafa verið bornar fram og eru í eðlilegu sambandi við þessi óvenjulegu vinnubrögð, sem hér eru viðhöfð, að fresta þingi svona snemma að þessu sinni. Það er mjög eðlilegt, að alþm. óski eftir ýmsum upplýsingum frá hæstv. ríkisstj. varðandi ýmis stórmál, sem hér liggja óleyst, og vilji fá þær upplýsingar greinilega útskýrðar af hæstv. ríkisstj., áður en þingið er sent heim.

Ég vil endurtaka nokkuð af fsp., sem ég hef vikið hér að á þeim tímum, sem t.d. hæstv. fjmrh. hefur ekki verið staddur hér og frá honum var því ekki að vænta neinna svara viðvíkjandi þeim spurningum, en eru þó í beinu sambandi við flutning þeirra mála, sem hér hafa verið rædd, og m.a. þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Það var hæstv. fjmrh. sjálfur, sem lýsti því yfir hér í ræðustól, að hann teldi ekki mögulegt eða ekki ástæðu vera til að framfylgja gamalli þingvenju og raunverulega skyldu samkvæmt þingsköpum að hafa 1. umr. fjárlaga og láta útvarpa þeirri umr., þar sem hann m.a. gerði grein fyrir fjárhagsafkomu ríkisbúsins á þessu ári. Og hann gaf þá yfirlýsingu hér, að hann teldi ekki rétt, að þessi umr. færi fram hér, vegna þess að það fjárlagafrv., sem lagt hefði verið fyrir, mundi verða tekið aftur síðar og nýtt frv. lagt fyrir þingið að þingfrestunartímanum liðnum. Og hann sagði, að þetta væri nauðsynlegt, vegna þess að í ráði væri að taka hér upp nýtt fjárhags- og fjármálakerfi.

Í sambandi við þetta vaknar sú spurning: Er þá nauðsynlegt eða er þá rétt að knýja hér í gegn á Alþingi með þeim hraða, sem nú er reynt, samþykkt á fimm tekjuöflunarfrv., þeim sem nú hefur verið steypt saman í eitt frv. og liggja nú fyrir hér til umræðu? Er þörf á því að framlengja þessi tekjuöflunarfrv. út allt næsta ár? Ef taka á upp nýtt fjármála- og fjárhagskerfi, skömmu eftir að þing kemur aftur saman eftir þingfrestun, þar sem gengið verður út frá gerbreytingu í ýmsum efnum á tekjuöflun til ríkissjóðs og útflutningssjóðs, er þá nauðsynlegt að framlengja nú út allt næsta ár öll þessi tekjuöflunarfrv., sem áður hafa verið í gildi? Við vitum, að meðal þeirra tekjulaga, sem í gildi hafa verið, eru m.a. lögin um söluskatt. Þau lög hafa lengi verið mjög umdeild hér á Alþingi. Ég hef verið í hópi þeirra manna, sem hafa talið, að sá tekjustofn væri mjög vafasamur og óréttlátur í mörgum greinum. Ég hefði þó fyrir mitt leyti fallizt á að framlengja þessi tekjuöflunarlög óbreytt út allt næsta ár, ef ríkissjóður og útflutningssjóður hefðu átt að búa hér við nákvæmlega sömu tekjustofna og áður og starfa á svipuðum grundvelli og áður. En ef hér á að gerbreyta um tekjuöflunarleið fyrir útflutningssjóð og einnig fyrir ríkissjóð og á þeim tíma, sem rætt er um það að leggja niður að meira eða minna leyti gamla og gróna tekjustofna ríkisins, eins og t.d. tekjuskattinn, gera slíka stórbreytingu á, þá vitanlega vaknar sú spurning: Er þá nokkur ástæða til þess að halda þessum gamla, vafasama skatti og framlengja hann nú út allt næsta ár? Þessi spurning kemur eðlilega upp hjá hv. þm., ekki síður þegar það er haft í huga, að núverandi hæstv. fjmrh. hefur sjálfur hér á Alþingi hvað eftir annað lýst andúð sinni á þessum skatti í því formi, sem hann er, á söluskattinum. Hann hefur a.m.k. tvisvar hér á Alþingi flutt frv. um að breyta söluskattinum, og hann hefur auk þess flutt hér sérstakar brtt. um að fá þessum skatti breytt.

Mér sýnist því, að þegar þetta allt er athugað, þá sé það ekki óeðlilegt, að um það sé spurt: Er nauðsynlegt að framlengja nú þennan skatt út allt næsta ár algerlega óbreyttan, þegar þetta er nú vitað, sem frá hæstv. fjmrh. hefur komið hér í yfirlýsingu á Alþingi, að það stendur til að gerbreyta skömmu eftir áramótin um fjárhags- og fjármálakerfi? Getur ekki hæstv. fjmrh. fallizt á það, að nauðsynjalaust sé að framlengja þennan skatt lengur fram á næsta ár en t.d. út febrúarmánuð? Mér sýnist, að öll rök ættu að mæla með því, að það ætti að duga. Ég hefði viljað, að hæstv. fjmrh. lýsti yfir afstöðu sinni til þessa hér úr ræðustóli.

Það væri líka auðvitað fróðlegt fyrir hv. þm. að fá að heyra það, hvort hæstv. fjmrh. hefur skipt um skoðun í sambandi við söluskattinn, hvort hann telur nú orðið, jafnvel hvað sem líður breyttu fjármálakerfi í landinu, breyttum tekjustofnum ríkissjóðs og útflutningssjóðs, hvort það eigi samt sem áður að halda við þennan tekjustofn til ríkisins í því formi, sem hann hefur veríð, eða hvort hann vill með öðrum þm. halda sér við þá skoðun, sem hann flutti hér áður, að fá þessum skatti nokkuð breytt, m.a. að einhverju leyti til stuðnings víð bæjar- og sveitarfélög landsins.

Í sambandi við undanbrögð hæstv. ríkisstj., þegar hún fæst ekki til þess að hafa hér 1. umr. um fjárlögin og ber þessu við, að það sé ekki bein þörf á því, þar sem hið raunverulega fjárlagafrv., sem hún ætlar sér að láta samþ. fyrir næsta ár, sé ekki tilbúið enn, þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Getur hann þá ekki hugsað sér, þrátt fyrir þessa meðferð á flutningi fjárlagafrv., að gefa hér á Alþingi skýrslu um fjárhagsafkomu ríkissjóðs og útflutningssjóðs á því ári, sem nú er að líða. Ég efast ekkert um, að bæði stjórn útflutningssjóðs og eins fjmrn. geta gefið honum allar upplýsingar um það, hvernig fjárhag ríkissjóðs og útflutningssjóðs er nú varið. Það eru mörg dæmi þess, að ráðh. hafi hér á Alþingi gefið Alþ. skýrslur um mikilvæg mál, án þess að það sé gert í sambandi við 1. umr. fjárlaga. Og ef hann telur alveg óhjákvæmilegt að láta 1. umr. fjárlaga bíða, þangað til þing kemur aftur saman eftir áramót, þá sýnist mér þó, að hann geti gert hitt, sem er kannske meginatriði málsins, að gefa hér á Alþingi skýrslu um það, hvernig er ástatt um fjárhag ríkissjóðs og útflutningssjóðs. Það mætti verða öllum alþm. og reyndar öllum landsmönnum mjög gagnlegt í sambandi við þau þungu og erfiðu viðfangsefni, sem liggja fyrir í efnahagsmálum landsins. Ég tel, að ef hæstv. ríkisstj. færist undan því að gefa þessa skýrslu, aðeins skýrslu um staðreyndir, sem liggja fyrir, þá sé hún alveg ótvírætt að halda nauðsynlegum upplýsingum fyrir alþm. og fela staðreyndir fyrir þjóðinni. Eðli málsins samkvæmt áttu þessar upplýsingar að koma fram í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., sem þingsköp gera ráð fyrir að haldin sé og útvarpað sé einmitt í byrjun þings, en fyrst nú þykir ekki fært að halda þessa ræðu, þá gæti hæstv. fjmrh. þó gefið skýrsluna í skýrsluformi hér á Alþingi og leyst þar með meginvandann. Ég get ekki litíð á það á annan veg en svo, ef þetta ekki fæst, en það sé verið að halda upplýsingum fyrir Alþingi og fyrir þjóðinni.

Ég vildi nú spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann vildi ekki verða við þeim tilmælum að flytja slíka skýrslu, og ég held, að einmitt flutningur slíkrar skýrslu mundi á allan hátt greiða fyrir þingstörfum og einnig greiða fyrir því, að hægt væri að vinna eðlilega að lausn efnahagsmálanna síðar.

Ég skal svo endurtaka það, sem ég hef sagt áður, að út af fyrir sig, ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað hafa samráð við stjórnarandstöðuna nú, eins og jafnan hefur áður verið gert í sambandi við þingfrestun, þá hefði hún ábyggilega getað komizt þar að eðlilegu samkomulagi, og þá hefði hún getað líka fengið samþykkt hér á Alþingi bæði frv. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og eins frumvörp um framlengingu á þeim tollum og sköttum, sem úr gildi áttu að falla um næstu áramót, til eðlilegs tíma. En hæstv. ríkisstj. hefur valið hina leiðina, að vilja ekki sinna um samkomulag við stjórnarandstöðuna hér á Alþingi í sambandi við þingfrestunina, heldur kosið þá leið að brjóta hér gamlar þingreglur og þingvenjur um það, hvað gera á á Alþingi í upphafi hvers þings. Það er það, sem við höfum viljað mótmæla hér í sambandi við þessar umræður, og af því hafa sumpart orðið hér lengri umr. um þessi mál en annars hefði verið þörf á. En ég tel, að ef hæstv. fjmrh. vildi nú sinna þessum tilmælum mínum, sem ég hef flutt hér, þá mætti enn bæta nokkuð úr þeim afglöpum, sem ég tei að hæstv. ríkisstj. hafi gert sig seka um fram að þessu í sambandi við þingfrestunarmálið.