31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel eftir atvikum rétt, að ég reki hér í örstuttu máli það helzta, sem afgreitt hefur verið hér á Alþingi í vetur og snertir sérstaklega bændur og hinar dreifðu byggðir.

Afgreidd var lagabreyting um framleiðsluráð og verðlag á landbúnaðarvörum. Það mál er svo kunnugt, að útskýringar eru þarflausar. Umhverfis þetta mál rauk mikil mold s.l. haust og fram eftir vetri, svo að varla sá handaskil í sumum byggðarlögum. Málið var leyst á mjög heppilegan hátt. Hin oftöluðu orð duttu niður dauð og ómerk. Lög þessi eru mjög hagstæð fyrir bændur og enn hagstæðari en þau voru, áður en ágreiningurinn kom upp í sex manna nefndinni í fyrra.

Framlengt hefur verið ákvæði jarðræktarlaga um aukaframlög til jarðræktar á býlum, sem hafa innan við 10 ha. tún, en þau ákvæði runnu út á þessu ári.

Nefna vil ég þáltill. um eflingu veðdeildar Búnaðarbankans, sem samþykkt hefur verið. þinginu hafa komið fram mjög margar brtt. við vegalög. Ekki þótti þó fært að opna vegalögin að þessu sinni, en sem bráðabirgðaúrræði fékkst samþykki fyrir aukafjárveitingu fram yfir það, sem ætlað var til nýbyggingar vega, að upphæð 4 millj. kr., sem skipt er upp til þeirra staða, þar sem talið er að ástandið sé einna verst að því er vegina snertir.

Einnig er vaxandi skilningur á því, að endurskoða þurfi öll lög um vegi með auknar vegaframkvæmdir fyrir augum, og liggur nú fyrir þáltill. um það mál, sem að líkindum nær samþykki.

Samþykkt hefur verið þál. um klak og fiskeldi, og má vafalaust vænta mikils af þess konar starfsemi í náinni framtíð, enda hefur komið fram mikill áhugi bænda og laxveiðimanna fyrir því máli og fjöldi bréfa borizt til skrifstofu Alþingis um það að samþ. þessa till.

Þá vil ég nefna breyt. á lögum um Búnaðarbanka og lög um fjölgun dýralækna á Suðvesturlandi.

Mörg mál auk þessara varðandi landbúnaðinn hafa og verið til umræðu á Alþingi í vetur, en eru enn óafgreidd.

Ég dreg enga fjöður yfir það hér né annars staðar, að gengisbreytingin og vaxtahækkunin eru þungir baggar fyrir margan bónda að bera. Vegna gengisbreytingarinnar hækka t.d. landbúnaðarvélar mjög mikið. En þetta er svo sem ekkert nýtt fyrirbæri hér hjá okkur. Árið 1958 hækkuðu vélar mjög álíka og nú, við yfirfærslugjaldið, sem þá var lögleitt. En það er ekki neitt sérstakt fyrir bændur, að vörur hækki, þegar breyta verður gengi. Slíkt hlýtur auðvitað að koma niður á öllum þegnum þjóðfélagsins, bændum sem öðrum. En til að létta þennan þunga ofur lítið hefur ríkisstj. gripið til þess ráðs að greiða niður tvær veigamiklar rekstrarvörutegundir, fóðurbæti og áburð, sem er innfluttur. Þannig hækkar fóðurbætir nú ekki nema um 10–12%, fóðurblandan, en mun hafa hækkað um 50% eða 55% 1958, við þær efnahagsráðstafanir, sem þá gerðust. Þrífosfat er greitt niður um 71 kr. pokinn og aðrar innlendar áburðartegundir svipað hlutfallslega. Til þessa ráðs var gripið jafnhliða efnahagsráðstöfunum til að létta byrðar landbúnaðarframleiðslunnar og reyna að afstýra samdrætti.

Að einu leyti standa bændur betur að vígi en flestar aðrar stéttir. Framleiðsla þeirra er tryggð með afurðasölulögunum. Ég segi þetta ekki til að gylla hlut bænda, hann er að öðru leyti mjög erfiður í ýmsum greinum, einkum þeirra, sem búa við vondar samgöngur og hafa ekki rafmagn, en allt of margir bændur eru í þessari aðstöðu.

Ég hef rakið þennan þátt þingmálanna nokkuð eingöngu af því, að í eyrum hafa klingt æsiskrif og æsiskraf í allan vetur í báðum sölum Alþingis og Tímanum um árásir ríkisstj. á bændur og bændastéttina, og þá auðvitað um leið hafa stuðningsmenn ríkisstj. staðið að þessum árásum. Ég neita því, að þessar ásakanir hafi við rök að styðjast.

Fyrir ári eða svo talaði maður varla svo við mann, að viðkvæðið væri ekki á þessa leið: Við fáum víst aldrei ríkisstj., sem þorir að taka efnahagsvandamálið föstum tökum og einarðlega, þótt ekki sé af öðru en því, hvað allir flokkar eru hræddir við kjósendur. Allir vita, að þjóðin hefur um langt árabil, svo að segja hver maður, verið í kapphlaupi um að ná sem mestu í sinn hlut af veraldargæðum, sem komið hefur fram í fjárfestingu og mörgu öðru, áður en gjaldeyrishrun skylli yfir og kreppa, sem svo að segja allir hafa búizt við að væri í aðsigi vegna þess, sem á undan er gengið. Það kom því flatt upp á marga, þegar sú ríkisstj., er nú fer með völd, ákvað að spyrna við fótum í alvöru og segja: Hingað og ekki lengra. Þetta viðurkennir þjóðin a.m.k. undir niðri að sé mjög virðingarvert, og yfirleitt hafa menn tekið hlutunum vel og skynsamlega, almenningur. En allt of margir svokallaðir leiðtogar hafa ekki tekið þeim vel og skynsamlega. Samt held ég, að mjög mörgum sé ljóst, að stjórnarandstaðan heldur allt of mikið á lofti því, sem kalla má aukaatriði í þessu stóra máli, en þegir vandlega um aðalatriði efnahagsráðstafananna, aðaltilganginn, þann að afstýra þjóðargjaldþroti.

Það er að sjálfsögðu hægt að tala við bændur, tala við verkamenn, tala við hvaða stétt sem er í okkar landi og segja: Þetta er allt gert af mannvonzku í ykkar garð annars vegar og sjálfselsku hinna ríku, sem ætla að verða enn ríkari á ykkar kostnað. Þetta klingir sífellt og einnig hér við þessar umræður. Menn þegja vandlega um allt, sem telja verður undirrót eða orsök. En virðulegt hlutverk finnst mér þetta þó ekki og vera nokkuð mikið að verja til þess heilum þingvetri.

„Hálfsannleikur ávallt er óhrekjandi lygi,“ segir einhvers staðar í ágætri vísu. Sannast sagt er hæpið, að þess konar orðaskak og blaðaskrif geti einu sinni talizt hálfsannleikur, ekki sízt þegar það bætist ofan á, að öll úrræði stjórnarandstæðinga liggja utangarðs og eru hvergi nefnd.

Ég skal ekki angra neinn með því að fara hér að lofa hæstv. ríkisstj. Hvað eina bíður síns tíma. En úrræði hennar þurfa að fá að sýna sig, sanna sig, hvort þau duga eða duga ekki. Hún biður um vinnufrið, hún á að fá hann. Úrræði hennar geta tekizt, ef þjóðin vill. Sennilega er líka hægt að eyðileggja þau. En þeir, sem að því vinna og róa öllum árum, mega vara sig. Allir menn hafa skyldu við sitt föðurland.

Það var einu sinni maður, sem hét Jón tófusprengur. Hann tók úr sér lungun og lagði á þúfu. Það gerði hann til að létta sig, því að atvinna hans var refaveiðar. Og þegar hann var orðinn lungnalaus, gat hann hlaupið uppi hvern einasta melrakka, og þó eru þetta allra fótfráustu dýr. Stjórnarandstaðan hér á Alþingi í vetur hefur hvað eftir annað minnt mig undarlega mikið á Jón tófuspreng. Ekki hafa þeir þó tekið úr sér lungun, heldur annað. Ekkert veit ég um það, hvernig Jóni hefur liðið, meðan hann var að slíta úr sér lungun, sem flestir telja allnauðsynlegt líffæri, né heldur um líðan hans næstu daga á eftir, en léttur var hann á sér, sennilega álíka léttur á sér og sá þjóðmálamaður, sem tekur úr sér ekki aðeins hálfa sannsöglina, sem er mjög algengt, heldur nærri því alla við túlkun mikilsverðra mála og leggur á þúfu hjá lungum Jóns heitins tófusprengs inni á hlauparefaheiði.