31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3393 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar litið er yfir þróun íslenzkra stjórnmála um nær 2 áratuga skeið, kemur í ljós, að um allar fyrrv. ríkisstj., sem myndaðar hafa verið á þessu tímabili, er þrennt að mestu sameiginlegt:

Í fyrsta lagi: höfuðtilgangur þeirra allra hefur verið að stöðva vöxt verðbólgunnar og skapa framleiðsluatvinnuvegum landsmanna öruggan, heilbrigðan starfsgrundvöll.

Í öðru lagi: öllum hefur þessum ríkisstjórnum, nema ríkisstj. Emils Jónssonar á s.l. ári, mistekizt að stöðva verðbólguna, og allar nema hún hafa til þessa skilað af sér meiri verðbólgu í lok starfstíma síns en þær tóku við í upphafi hans.

Og í þriðja lagi er það sameiginlegt öllum ríkisstj. um nær 20 ára skeið, að allar hafa þær reynzt skammlífar. Mér reiknast svo til, að frá 15. des. 1942 og til þessa tíma hafi verið myndaðar hér 9 ríkisstjórnir, og er því meðalaldur þeirra um 2 ár.

Á þessu 20 ára tímabili hafa allir núverandi þingflokkar tekið þátt í stjórnarstörfum oftar en einu sinni, og allir hafa þeir starfað þar hver með öðrum. Þeir hafa einnig allir verið í stjórnarandstöðu. Reynsla þessara tveggja áratuga af undanhaldi nær allra ríkisstj. í viðureigninni við efnahagsmálin hefur fyrir löngu sannfært þjóðina um, að víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags, aukin dýrtíð og vaxandi verðbólga kemur þyngst niður á þeim, sem taka laun sín hjá öðrum.

Launahækkanir koma einnig eftir á, og á verðbólgutímum brenna launahækkanir fljótt í báli vaxandi dýrtíðar. Allir þekkja þá staðreynd, að fleiri krónur í vasann kalla á enn þá fleiri krónur úr honum aftur, séu víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds ekki stöðvaðar. Jafnvægið er því launafólki, vinnandi fólki til sjávar og sveita, þýðingarmeira en öllum öðrum þegnum þjóðfélagsins.

Ég hygg, að það hafi fyrst og fremst verið þessi reynsla, sem leiddi til þess árið 1956, að flokkar vinnandi fólks í kaupstöðum og kauptúnum, Alþfl. og Alþb., og flokkur bænda og framleiðenda í sveitum landsins, Framsfl., tóku höndum saman og mynduðu ríkisstj. Aðaltilgangur þeirrar stjórnar var að koma á jafnvægi í efnahagsmálum, skapa atvinnuvegum þjóðarinnar öruggan, heilbrigðan starfsgrundvöll og stöðva vöxt verðbólgunnar.

Til að tryggja örugga og heiðarlega framkvæmd þessa höfuðmarkmiðs vinstri stjórnarinnar var ákveðið, að um framkvæmd þessara mála skyldi haft fullt samráð og samstarf við samtök vinnandi fólks og framleiðenda. Vinstri stjórnin fór vel af stað. Hún gerði í upphafi nauðsynlega og skynsamlega hluti í efnahagsmálunum. Þessar aðgerðir þýddu að vísu fórnir fyrir verkafólk, launþega og bændur. En engu að síður var þeim vel tekið. Menn sáu, að hér var um að ræða spor í rétta átt, og vonuðu, að á efnahagsmálunum yrði tekið af festu og ábyrgðartilfinningu, sem leiddi til jafnvægis og stöðvunar dýrtíðar og verðbólgu. En Adam var ekki lengi í Paradís. Allir aðgerðir vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum voru truflaðar á sama hátt og aðgerðir fyrri ríkisstj., og brátt hófst á ný gamla kapphlaupið milli verðlags og launa. Á árinu 1958 var svo komið vegna þessara víxlhækkana, að vinstri stjórnin hafði neyðzt til að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, sem jafngiltu stórfelldari gengislækkun en þekkzt hefur á Íslandi fyrr og síðar.

Á árinu 1958 hækkaði framfærsluvísitalan um 34 stig, og þar með tók verðbólgan eitt mesta heljarstökk, sem hún hefur tekið, og hefur þó oft verið mikið að gert í þeim efnum. Alþfl. vildi láta leggja efnahagsmálin fyrir Alþingi haustið 1958 til meðferðar og úrlausnar. Forsrh., Hermann Jónasson, gat ekki á þetta fallizt. Hann tilkynnti þinginu, að ný verðbólgualda væri skollin yfir, að ríkisstj. væri ekki sammála um nein úrræði og að hin háskalega verðbólguþróun verði með öllu óviðráðanleg, ef samkomulag náist ekki um raunhæfar ráðstafanir þegar í stað. Síðan baðst hann lausnar. Enn ein ríkisstj. til viðbótar hafði gefizt upp. Höfuðstefnumál hennar, stöðvun verðbólgunnar og jafnvægi í efnahagsmálum, hafði mistekizt á sama hátt og hjá mörgum ríkisstj. á undan. Munurinn var aðeins sá, að nú hafði verðbólgan aukizt meir en nokkru sinni fyrr og við blasti stöðvun framleiðslutækja þjóðarinnar. Færustu hagfræðingar lýstu því yfir, að það væri ekki á þeirra færi að reikna út, hversu hátt vísitalan þyti upp á næstu missirum, ef ekki kæmu til nýjar, róttækar ráðstafanir. Það var vitað, að vísitalan mundi næstu mánuðina þjóta upp um 10 stig á mánuði og að þessi hækkun mundi fara vaxandi.

Útlitið var vissulega ekki glæsilegt, þegar Emil Jónsson myndaði ríkisstj. Alþfl. í des. 1958. Sjálfstfl. hafði að vísu heitið að verja stjórnina vantrausti, ef fram kæmi, en sjálfur var Alþfl. fáliðaður og veikur á þingi, og samanlagt höfðu flokkarnir ekki meiri hluta í báðum deildum Alþingis og gátu því af eigin rammleik ekki komið fram lagafrv. gegnum þingið. Ríkisstj. hafði hins vegar á bak við sig annan stuðning, sem var öllum öðrum þýðingarmeiri og sérhverri ríkisstj. er lífsnauðsyn, ef nokkur tök eiga að vera á að ráða við svo erfið og vandasöm mál sem efnahagsmálin eru, og ekki hvað sízt eftir það öngþveiti, sem þau voru komin í haustið 1958. Þjóðin sjálf gerði sér fyrir því fulla grein, hversu alvarlegt ástandið var, og hún krafðist þess, að ríkisstj. fengi frið til að halda verðbólgunni í skefjum og ráða fram úr vandamálum atvinnuveganna, þar til hægt væri að mynda nýja stjórn að afstöðnum kosningum. Almenningur sá og skildi hættu og alvöru tímans, og almenningsálitið í landinu sló skjaldborg um ríkisstj. og björgunarstarf hennar, það gerði gæfumuninn. Í efnahagsmálunum lofaði ríkisstj. Alþfl. því einu að stöðva vöxt verðbólgunnar, afgreiða hallalaus fjárlög án skatta á almenning, skapa fiskiskipaflotanum starfsgrundvöll, allt þar til hægt væri að mynda meirihlutastjórn að afstöðnum kosningum.

Stjórnarandstaðan lét hins vegar ekki á sér standa að torvelda ríkisstj. björgunarstarfið. Á allan hátt var reynt að rangtúlka aðgerðir ríkisstj. og gera störf hennar tortryggileg. Fullyrt var og þá einkum af framsóknarmönnum, að allar aðgerðir Alþýðuflokksstjórnarinnar væru ekki aðeins marklaust fálm, heldur beinlínis þjóðhættulegar. Fjárlögin áttu að vera fölsuð, bæði tekju- og útgjaldaáætlun, útflutningssjóður átti að vera þess vanmegnugur að standa við skuldbindingar sínar. Ríkisstj. var sökuð um að ausa hundruðum millj. kr. í verðbólguhítina án þess að stöðva verðbólguna, að ógleymdum óreiðuvíxlinum, sem Framsfl. fullyrti að ríkisstj. væri að stofna til. Allt reyndust þó þetta bara orð, innantóm orð, sem reynslan er löngu búin að ómerkja og það svo rækilega, að Hermann Jónasson, sjálfur form. Framsfl., komst að þeirri niðurstöðu í útvarpsræðu sinni í gærkvöld, að svo vel hefði Alþýðuflokksstjórninni tekizt björgunarstarfið á síðasta ári, að með öllu hefði verið óþarft fyrir núv. ríkisstj., er hún tók við, að gera nema smávægilegar viðbótarlagfæringar til að komast fyrir meinsemdir efnahagslífsins. Róttækra aðgerða taldi þessi ræðumaður ekki þörf, svo vel hefði ríkisstj. Alþfl. gengið frá málunum. Það er mjög lærdómsríkt að bera þessa niðurstöðu Hermanns Jónassonar nú saman við allar hrakspár hans og hans flokks fyrir kosningarnar í fyrra.

Það ætti að vera óþarft að taka það fram einu sinni enn, svo greinilega var því lýst yfir við myndun ríkisstj. Alþfl. og ítrekað oft síðan, að stjórnin var stofnuð í þeim tilgangi einum að stöðva vöxt verðbólgunnar og tryggja rekstur atvinnutækja þjóðarinnar, þar til alþingiskosningar hefðu farið fram, og stjórnarskránni breytt og meirihlutastjórn mynduð, er leysti efnahagsmálin til frambúðar. Við þetta fyrirheit var staðið til fulls. En hins vegar var vandi efnahagsmálanna svo stór og öngþveitið svo alvarlegt haustið 1958, eins og enginn hefur lýst betur en Hermann Jónasson sjálfur, að minnihlutastjórn gat ekki verið þess umkomin að leysa þann vanda til frambúðar.

Með ummælum sínum í gærkvöld var Hermann Jónasson að vísu alveg réttilega að ómerkja allar hrakspár og illmælgi Framsfl. í garð Alþýðuflokksstjórnarinnar á s.l. ári. En hann var ranglega að bera hana lofi, sem hún gerir ekki tilkall til, og hæla henni fyrir störf, sem hún tók ekki að sér að leysa. Þessi vinnubrögð eru hins vegar táknræn fyrir Framsfl. Á meðan flokkurinn er að reyna að koma stjórn Alþfl. á kné með því að torvelda störf hennar, fullyrðir flokkurinn, að allar aðgerðir stjórnarinnar séu vitagagnslausar og þjóðhættulegar. Þegar stjórnin er farin frá og því ekki lengur þörf að ófrægja hana og önnur tekin við, sem Framsfl. vill einnig feiga, fullyrðir hann, að fráfarandi stjórn hafi eiginlega skilið svo vel við hlutina, að aðgerðir hinnar nýju stjórnar séu að mestu óþarfar og bein ofsókn gegn þjóðinni.

Þetta minnir átakanlega á þau vinnubrögð, sem Framsfl. viðhafði 1950, er hann bar fram vantraust á stjórn Ólafs Thors fyrir að bera fram gengislækkunartillögur, en gekk síðan að vantraustinu samþykktu í ríkisstj. með Ólafi til þess að framkvæma þessar gengislækkunartillögur.

Ég hygg, að menn sjái hér áþreifanlega mynd af því, með hverjum hætti hefur verið unnið að því að rífa grundvöllinn undan aðgerðum ríkisstj. í efnahagsmálum á liðnum árum.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, var þjóðin á vegi stödd eins og maður, sem um langt skeið hefur lifað um efni fram og þess vegna safnað skuldum. Framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar var haldið uppi með bótagreiðslum. Bæturnar, sem greiddar voru á útfluttar vörur, námu að meðaltali 86.7%. Tekna í þessu skyni var aflað með gjöldum af innflutningsvörum, en þau gjöld námu að meðaltali aðeins 68.5%. Mismunurinn, sem þarna myndaðist, var jafnaður með erlendum lántökum og miklum innflutningi hátollavara auk tekna af Keflavíkurflugvelli. Vitað var um s.l. áramót, að auka þurfti bætur fyrir útflutningsvöru verulega, ef atvinnurekstur ætti ekki að stöðvast. Ef halda hefði átt áfram á sömu braut, hefði orðið að auka enn erlendar lántökur og innflutning hátollavara til að mæta hinum aukna halla. Skuldasöfnun erlendis var þegar orðin svo gífurleg, að yfir 10% af gjaldeyristekjunum fóru í að greiða vexti og afborganir til útlanda, og er það eitt hið mesta, sem þekkist í allri veröldinni, enda lán ekki lengur fáanleg með eðlilegum hætti.

Takmörk hljóta og að vera fyrir því, hversu langt er hægt að ganga í innflutningi hátollavara, og hafa undanfarnar ríkisstj. ekki getað staðið við innflutningsáætlanir sínar um hátollavörur. Verst af öllu var þó, að áframhald á sömu braut læknaði ekki efnahagsvandann, heldur þvert á móti jók sóttina.

Bersýnilegt var, að nýjar aðgerðir á sama grundvelli og áður kölluðu eftir skamman tíma á enn frekari aðgerðir í sömu átt: meiri erlendar lántökur, meiri hátollavöruinnflutning og hátolla á fleiri og fleiri vörutegundir. Slíkt getur ekki endað nema á einn hátt: með hruni og stöðvun atvinnurekstrar og atvinnuleysi. Ríkisstj. treysti sér ekki til að taka á sig ábyrgðina af slíkum leik. Hún valdi þá leiðina, sem eftir nákvæma athugun okkar færustu manna á þessu sviði leiddi að vísu til nokkurra fórna í bili, en skapaði grundvöll undir blómlegt atvinnulíf, bætta afkomu almennings og jafnvægi í efnahagsmálum, án erlendrar skuldasöfnunar vegna halla á þjóðarbúskapnum.

Í þessum útvarpsumræðum, í blöðum og á mannfundum hefur verið gerð ýtarleg grein fyrir aðgerðum ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég mun því ekki fara frekar út í það hér. Hins vegar þykir mér rétt að minna á, hvers vegna allar ríkisstj. í nær 20 ár hafa talið það meginverkefni sitt að stöðva vöxt verðbólgunnar og hvers vegna þetta hefur að jafnaði mistekizt svo stórlega, á sama tíma sem flestar aðrar þjóðir hafa megnað að leysa þetta vandamál giftusamlega.

Verðbólgan kemur m.a. fram í því, að meiru er eytt en aflað er. Þessari eyðslu er mætt með því að velta byrðunum yfir á framtíðina með skuldasöfnun erlendis. Á árunum 1955–58 hefur þjóðin jafnað umframeyðslu sína með 568 millj. kr. erlendum lántökum og 208 millj. kr. eyðslu að auki af gjaldeyriseignum og myndun gjaldeyrisskulda án þess þó að hafa færzt nokkuð nær því marki að leysa hin efnahagslegu vandamál, heldur þvert á móti. Slíkar áframhaldandi lántökur binda þjóðinni að sjálfsögðu hættulegar klyfjar og stofna fjárhagslegu sjálfstæði hennar í hættu. Stöðvun verðbólgunnar er því sjálfstæðismál þjóðarinnar, og skyldi enginn vanmeta þetta atriði. Inn á við hefur verðbólgan kallað á hafta- og uppbótakerfið og alla þá spillingu, sem því fylgir. Í skjóli haftanna þróast margs konar efnahagsstarfsemi, sem er þjóðarbúinu hættuleg, en gróðavænleg vegna þeirrar aðstöðu, sem höftin veita fáum útvöldum. Auk þess skapa höftin ótal tækifæri til auðgunar með ólöglegu móti og eiga þannig þátt í að holgrafa þjóðfélagið efnahagslega og siðferðilega. Fyrir launþega og allan almenning leiðir verðbólgan til versnandi lífskjara og hlýtur að enda í hruni og atvinnuleysi, ef ekki er að gert í tíma. Það er athyglisvert, að kaupmáttur tímakaupsins hefur aukizt litið sem ekkert hér á landi á undanförnum árum, en almennur vinnutími orðið sífellt lengri. Launahækkanir hafa verið knúnar fram hvað eftir annað, en ætíð endað á einn veg: í verðhækkunum, sem étið hafa upp mestan eða allan ávinninginn.

Í flestum nágrannalöndum okkar hefur kaupmáttur launa farið ört vaxandi og vinnutími stytzt. Skýringin á þessu fyrirbæri er einfaldlega sú, að í nágrannalöndum okkar hefur verið rekin heilbrigð efnahagsstefna, en hér ræður verðbólgan og kapphlaup verðlags og launa ríkjum. Það er því til mikils að vinna fyrir launþega, ef takast mætti að koma hér á heilbrigðu og sterku efnahagskerfi. Þetta er eina ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið mynduð hér ríkisstj. um nær tvo tugi ára, svo að baráttan við verðbólguna væri ekki aðalmarkmiðið, og þetta var tvímælalaust grundvallarsjónarmið vinstri stjórnarinnar.

Erlendar þjóðir hafa vissulega haft við þennan sama vanda að glíma. Nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu komið sínum málum í heilbrigt horf. En hvernig má það vera, að við Íslendingar skerum okkur svo úr, að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stofnað í voða og stöðvun blasir við atvinnuvegum okkar um hver áramót? Til þessa liggja sjálfsagt fleiri en ein ástæða. En mér er spurn: Er ekki þáttur stjórnarandstöðunnar á Íslandi í óförum okkar ríkari en flest annað? Hvenær hefur verið reynt að ráða bót á efnahagsvandamálum okkar, svo að stjórnarandstaðan teldi sér ekki skylt að brjóta slíka viðleitni á bak aftur? Í aðeins eitt skipti hefur ríkisstj. tekizt að framfylgja stefnu sinni og halda verðbólgunni niðri, svo sem lofað var. Það var ríkisstj. Alþfl. á s.l. ári. En hvers vegna tókst það? Það tókst eingöngu vegna þess, að þjóðin sjálf gerði sér grein fyrir þeirri hættu, sem hún var stödd í, og stjórnarandstaðan vissi, að þjóðin mundi ekki þola henni að brjóta efnahagsaðgerðir ríkisstj. niður við þær aðstæður.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, hafði fyrrverandi ríkisstj, haldið verðbólgunni í skefjum í bili. En málið var ekki varanlega leyst, síður en svo. Það verður ekki leyst, nema þjóðin taki höndum saman um lausn þess með ríkisstj., sem hefur öruggan meiri hluta á Alþingi á bak við sig.

Núv. ríkisstj. gerir djarfa, en heiðarlega og ábyrga tilraun til að skapa efnahagslífi þjóðarinnar traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöll en þjóðin hefur átt við að búa að undanförnu, og ríkisstj. gerir tilraun til að bjarga efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Þjóðin hefur þegar sýnt, að hún hefur fengið meira en nóg af öngþveitinu í efnahagsmálum, og hún gerir sér fulla grein fyrir þeirri hættu, sem fram undan er, ef áfram ætti að halda á sömu braut og áður og víxlhækkanir kaupgjalds og launa að hefjast á ný. Þjóðin vill tvímælalaust stuðla að því, að aðgerðir ríkisstj. beri tilætlaðan árangur, og ríkisstj. fer fram á það eitt við þjóðina, að ráðstafanir hennar í efnahagsmálunum fái að sýna sig í raun. — Góða nótt.