31.05.1960
Sameinað þing: 56. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3398 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við sjálfstæðismenn vorum hvorki hrifnir af Hræðslubandalagi né vinstri stjórn. Þó verður að viðurkenna, að þetta voru tilraunir til að brjótast úr þeirri sjálfheldu, sem skapazt hafði í íslenzkum stjórnmálum og þó einkum í efnahags- og fjármálum. Enginn hefur fært gleggri rök fyrir skaðsemi hennar og þar með því, að úr henni yrði að komast, en hv. þm. Einar Olgeirsson, sem sýnt hefur fram á þýðingarleysi hinnar ófrjóu kauphækkunarbaráttu og síendurteknu verkfalla, sem hafa ekki í meira en áratug veitt launþegum neinar raunverulegar kjarabætur. En báðar þessar tilraunir mistókust: Hræðslubandalagið vegna verðskuldaðs fylgisleysis meðal kjósenda, vinstri stjórnin vegna ósamkomulags og úrræðaleysis valdhafanna. Ömurlegri viðskilnaður hefur aldrei átt sér stað í íslenzkum stjórnmálum en þegar Hermann Jónasson hljóp frá vandanum í desemberbyrjun 1958, og ekki bætir um, þegar Hermann segir nú, að vandinn hafi raunar aldrei verið neinn. Af hverju hljóp hann þá fyrir borð?

Með kjördæmabreytingunni og samvinnu sjálfstæðismanna og Alþfl. var efnt til straumhvarfa. Engum duldist, að það yrði ekki gert erfiðleikalaust. Meginþorri manna í öllum flokkum vissi og viðurkenndi, a.m.k. í orði, að uppbóta- og styrkjakerfið lá eins og mara á þjóðinni og hindraði eða dró stórlega úr eðlilegum framförum og því, að lífskjör almennings bötnuðu með svipuðum hætti og orðið hefur með nær öllum öðrum þjóðum síðasta áratuginn. Á þessum árum skapaðist kyrrstaða hér þrátt fyrir óhemjufé erlendis að og lántökur svo gífurlegar, að þjóðin riðaði á greiðsluþrotsbarmi.

En breytingin varð ekki gerð nema með því að skerða hagsmuni ýmissa, fyrst og fremst atvinnurekenda, er höfðu komizt upp á að velta áhættunni af rekstri sínum á ríkissjóðinn, en hirða sjálfir gróða, ef hann varð. Eins varð ekki umflúið að taka úr sambandi hina sjálfvirku kauphækkunarskrúfu vísitölunnar og treysta á hófsemi launþega um kröfugerð, á meðan á hinni nauðsynlegu breytingu stendur. Við þessum og öðrum fyrirsjáanlegum erfiðleikum kveinkuðu menn sér. Allir reynum við að forða okkur frá óþægindum í lengstu lög. Er mér þó nær að halda, að margir hv. stjórnarandstæðingar og þ. á m. sumir þeir, sem nú þusa mest út af þessum ráðstöfunum, viðurkenni undir niðri, að þær séu í höfuðatriðum réttar, og gremja þeirra stafi ekki sízt af því, að þeir hopuðu sjálfir frá vandanum, á meðan þeirra tækifæri var. Kom þetta skemmtilega fram í ræðu Karls Kristjánssonar áðan, sem valdi stefnu stjórnarinnar heiti, sem mjög minnir á það gælunafn, sem hann lengi gekk sjálfur undir meðal kunningja sinna.

Stjórnarandstæðingar segja nú, að ætlunin sé að gera þá ríku ríkari, þá fátæku fátækari og endurskapa hér það þjóðfélag, sem verið hafi fyrir 1927, þ.e. áður en Framsfl. myndaði í fyrsta skipti stjórn.

Allir, sem muna tímana fyrir 1927 og eru nokkuð kunnugir atburðarásinni á þessari öld, vita, að því fer fjarri, að sérstakir velsældartímar fyrir almenning hafi hafizt hér á því ári. Næstu 13 árin, einkum frá 1934 til 1939, voru þvert á móti um margt sannir vesældartímar. Atvinnuleysisvofan, sem þá herjaði á landslýðinn, ekki sízt verkamenn hér í Reykjavík, var sá bölvaldur, sem aldrei aftur má upp rísa. Það verður að hindra með öllum tiltækum ráðum. Um það má aldrei verða neinn skoðanamunur.

Að sjálfsögðu var það ekki vegna þess, að valdhafarnir frá 1934–39 vildu illa, að svo tókst til sem raun ber vitni. En þeir réðu of oft ekki við verkefnin og trúðu ekki á þau úrræði, sem betur hefðu dugað en hin, sem beitt var. Vandinn í stjórnmálum er ekki sízt sá, að þjóðin fái í senn notið nauðsynlegs frjálsræðis og félagslegs öryggis. Mönnum hefur oft sýnzt, að þetta rækist á. Stjórnmálaágreiningur stafar ekki sízt af því, hvort af þessum sjónarmiðum skuli meira meta. En þetta tvennt er sem betur fer síður en svo ósamrýmanlegt. Galdurinn hér sem oft ella er að láta ekki gamlar kenningar eða hálfsannindi verða sér til trafala, heldur læra af reynslunni. Einmitt í þessum efnum hefur orðið gerbreyting í flestum lýðræðislöndum eftir seinni styrjöldina. Menn hafa lært af fyrri mistökum og ófarnaði. Allsherjarþjóðnýting er t.d. ekki framar skoðuð neitt bjargráð nema af örfáum steinrunnum öfgamönnum. Trúin á höft, bönn og neikvæð ríkisafskipti af atvinnuvegum fer og rénandi, einnig meðal þeirra flokka, sem áður héldu þetta allra meina bót. Á hinn bóginn vinnur skilningurinn á nauðsyn félagslegs öryggis mjög á, jafnvel þar sem enn er mest treyst á einkaframtak.

Afneitun margra sósíaldemókratískra flokka á þjóðnýtingaráformum á annan bóginn og á hinn t.d. viðurkenning brezkra íhaldsmanna á mörgum meginatriðum löggjafar Verkamannaflokksins á árunum eftir stríð eru lærdómar, sem engir mega láta fram hjá sér fara. Ríkisafskipti af efnahagsmálum geta ýmist miðað að því að hefta einstaklinga í athöfnum vegna þess, að menn óttast ofurveldi hinna sterkustu, eða hinu, að greiða götu einstaklinga, ekki sízt hinna bágstöddu, og tryggja, að enginn verði vegalaus. Nefndafargan og skrifstofubákn er ímynd hins fyrrtalda.

Hér á landi hafa framsóknarmenn einkum tekið tryggð við þessi úrræði. Engin ástæða er til að efa, að raunverulegur ótti þeirra við of mikið fjármálavald einstaklinga ráði miklu um þessa afstöðu þeirra. Það vald hefur oft sínar skuggahliðar. En ekki má gleyma, að þær birtast ekki síður, þegar einstaklingar eða flokksklíkur ná ráðum yfir fé og samtökum almennings, eins og dæmin sýna.

Almannatryggingar eru aftur á móti dæmi jákvæðra ríkisafskipta. Þegar nýsköpunarstjórnin beitti sér árið 1946 fyrir lögunum um almannatryggingar, var Framsókn eini flokkurinn, sem lét sér fátt um finnast. Ég minnist þess ætíð, að það var einungis einn framsóknarmaður í Ed., þar sem ég átti þá sæti, sem greiddi atkv. með frv. Það var öðlingurinn Páll heitinn Hermannsson. Hann gerði þessa grein fyrir atkv. sínu:

„Ég tel, að frv. þetta eigi enga hliðstæðu í íslenzkum lögum aðra en sjálfa stjórnarskrána. Ég álít, að með lagasetningu þessari sé verið að búa til nýtt þjóðfélag, sem að minni hyggju verður betra en það, sem við búum nú við. Þó að undirbúningur málsins sé að ýmsu leyti góður, þá tel ég þó, að hann hefði þurft að vera betri. En þar sem frv. stefnir að mínu viti að fullkomnara þjóðskipulagi, þá segi ég já.“

Þetta sagði Páll Hermannsson. Í þessu þjóðnytjastarfi vildi Páll taka þátt, þótt flokksbræður hans ýmist sætu hjá eða héldu sig utan gátta eins og Hermann Jónasson.

Sagan endurtekur sig. Á þessu þingi hafa verið gerðar meiri endurbætur á almannatryggingum en nokkru sinni fyrr. Hagur gamalmenna og öryrkja hefur stórlega verið bættur, og hinar auknu fjölskyldubætur tryggja betur hag heimilanna en áður hefur verið gert hér á landi og þar með uppeldi æskulýðs. Á allt þetta lítur Framsfl. með algeru skilningsleysi, eins og hlustendur hafa nú heyrt af ræðum allra talsmanna flokksins. Þeir reyna meira að segja að espa upp eigingirni ólífsreyndra æskumanna, sem enn hafa ekki fyrir fjölskyldu að sjá, með því að brýna fyrir þeim, að þeir af þessum sökum verði verr úti en ella. En það er einmitt æskufólkið, sem á mest í húfi um það, að rutt verði úr vegi hinum neikvæðu höftum og hömlum, sem Framsókn hefur ráðið mestu um að lagðar hafa verið á framkvæmdadug og frjálsræði. Með því að leysa einstaklingsfrelsið úr viðjum skapast fyrst og fremst skilyrði til að halda við og bæta um hið nýja og betra þjóðfélag, sem Páll Hermannsson sá fyrir 1946 að mundi rísa með félagslegu öryggi, en foringjar flokks hans virðast enn ekki hafa hugmynd um.

Frelsi einstaklinga er einnig nátengt sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar út á við. Seint verður ofmetin hættan, sem frelsi Íslands stafaði af óreiðuskuldum og lítillækkandi samskotalánum eins og þeim, sem vinstri stjórnin hélt sér uppi með og mjög minna á atferli tyrkneska einræðisherrans, sem nýlega var steypt af stóli. Að þessu var vikið í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins síðast, sem Alfreð Gíslason vitnaði í áðan með því móti að hætta tilvitnuninni, þar sem sýnt var fram á líkinguna við atferli vinstri stjórnarinnar, gagnstætt því, sem nú er.

Kommúnistar tala raunar svo sem sjálfstæði Íslands sé ógnað með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og annarri þátttöku þjóðarinnar í samstarfi lýðræðisríkja. Um þetta þarf ekki að fara mörgum orðum. Ætíð þegar möguleikar virðast vera á, að almenningur gleymi þeim hættum, sem steðja að heimsfriðnum vegna ásælni einræðisafla, aðhafast forustumenn kommúnista eitthvað, sem ýtir við mönnum á ný. Valdatakan í Tékkóslóvakíu, árásin á Kóreu, ræðan um Stalín, blóðbaðið í Ungverjalandi og upplausn Parísarfundarins, allt hefur þetta átt og mun eiga ómetanlegan þátt í því að hvetja frelsisunnandi þjóðir til öruggrar samvinnu, á meðan sá andi, sem öllum þessum atburðum ræður, er ríkjandi í öðru mesta stórveldi heims.

Dylgjur kommúnista um, að ríkisstj. skorti fulla einurð og kjark gegn bandalagsþjóðum okkar, eru marklaust hjal. Í þeim efnum er skemmst að minnast afstöðu okkar á Genfarfundinum. Hagsmunir Íslendinga fóru þar ekki saman við það, sem hinar Atlantshafsbandalagsþjóðirnar töldu sér henta. Skoðun mín er raunar sú, að þar hafi þeim missýnzt. En eins og við mátum sjálfir, hvað okkur væri nauðsyn, verðum við að viðurkenna rétt annarra til að dæma um sína hagsmuni.

Þessi ríki höfðu í vetur verulega breytt um stefnu frá því, sem áður var. Við viðurkennum að vísu ekki, að neinir aðrir eigi sögulegan rétt til fiskveiða innan fiskveiðilögsögu okkar, þó að ekki sé um lengra bil en 10 ár eða einhvern annan styttri tíma. En meginmunur er nú frá því, sem reynt var að fá samþ. 1958, að slík kvöð héldist að eilífu. Eins féllust þessi ríki nú á forréttindi strandríkis og þá ekki sízt Íslands til fiskveiða utan við 12 mílur, ef viss skilyrði væru fyrir hendi. Sú samþykkt var raunar ófullnægjandi að okkar skoðun, en er ómetanlegur vegvísir um það, sem koma skal. Hinn eini ríkjahópur, sem var með öllu ófáanlegur til að greiða nokkru slíku atkv., voru kommúnistaríkin. Það er því algert öfugmæli, þegar talað er um þau sem sérstakan bandamann okkar í þessu máli, er við höfum ekki mátt bregðast.

Hernaðarhagsmunir Sovétríkjanna gátu aldrei orðið leiðarstjarna þeirra, sem setja hagsmuni Íslands öllu ofar. Því verður hins vegar ekki neitað, að Sovétríkin sýndu hyggindi í málatilbúnaði sínum á þessari ráðstefnu. Engum, sem þar var, gat dulizt, að þau gerðu frá upphafi ráð fyrir, að atkv. Íslands kynni að ráða úrslitum, eins og raun varð á að lokum. Þess vegna var lagt á það ofurkapp að hindra, að Ísland tryggði sér endanlega viðurkenningu á óskertri 12 mílna fiskveiðilögsögu með samþykki vesturveldanna á því, að hinn sögulegi réttur eða kvöð tæki ekki til okkar.

Því miður skorti vesturveldin víðsýni til að gera þetta, sem þó hefði væntanlega nægt til að forða ráðstefnunni frá því, að þar fékkst engin lögleg samþykkt. Þar voru aðrir betur vakandi, eins og sást af hótuninni um, að ef slík viðurkenning á óskertri 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar fengist, þá mundu skip frá járntjaldslöndunum hefja fiskveiðar innan 12 mílna lögsögunnar og þá í skjóli þess svokallaða sögulega réttar, sem þó var ráðgert að aðrir hefðu viðurkennt að ekki tæki til Íslands. Þessu var hótað, þó að ekkert þessara ríkja hafi stundað fiskveiðar hér með þeim hætti, að þau hafi öðlazt sögulegan rétt, svo sem hann er skilgreindur, og þau hafi öll formlega viðurkennt lögmæti 12 mílna fiskveiðilögsögu okkar, en mótmælt gildi sögulegs réttar. Þessi ofbeldishótun, sem var borin fram, eftir að Bretar höfðu horfið á brott með herskip sín, mun lengi í minnum höfð. Hún er enn eitt dæmi þess ofbeldisanda, sem einræðinu fylgir. Ótrúlegast er þó, að íslenzkir menn skyldu láta hafa sig til að flytja hótunina og gera hana að sínum orðum, auðsjáanlega í þeirri trú, að fyrir þeim boðskap mundu allir glúpna.

Íslendingar guggnuðu ekki fyrir vígdrekum Breta 1958–60 fremur en löndunarbanni þeirra 1952–56, og enginn landsmaður hefur mælt þeim ráðstöfunum bót, hvað þá gerzt boðberi þeirra. Allflestir viljum við þó eiga góð samskipti við Breta eins og allar aðrar þjóðir. Fráleitt er, að þótt við metum eigin hagsmuni í landhelgismálinu meira en hernaðarhagsmuni Sovétríkjanna, þá viljum við ekki friðsamleg samskipti, þ. á m. eðlileg verzlunarviðskipti, við þau.

Ein af síðustu ráðstöfunum mínum sem utanrrh. 1953 var að gera umfangsmikla viðskiptasamninga við Sovétríkin, en slíkri samningsgerð hafði verið hafnað af þeirra hálfu síðustu ár Stalínstímabilsins. Þá eins og nú var enginn efi á því, að eðlileg viðskipti við Sovétríkin eru Íslandi hagkvæm. Í gær voru sögur af því sagðar, að erlendir bandamenn Íslendinga vildu fá okkur til að hætta þessum viðskiptum. Enginn þeirra hefur látið það uppi í mín eyru, enda mundi ég skjótlega hafa frábeðið mér slíka afskiptasemi af okkar eigin málum. Undanlátssemi við annarlega íhlutun, hvað þá ofbeldi eða ofbeldishótanir, hefur aldrei orðið Íslendingum til góðs, hvorki í skiptum við aðrar þjóðir né í innanlandsmálum.

Á sama veg og okkur ber að halda í heiðri bæði frjálsræði og félagslegu öryggi, megum við aldrei missa virðingu fyrir lögum og rétti. Enginn hópur, hversu voldugur sem hann telur sig, má með ofbeldi rísa gegn löglegum ákvörðunum þeirra stjórnarvalda, sem sett eru með lýðræðislegum hætti til að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar. Á meðan verið er að brjótast út úr fyrri sjálfheldu og ryðja brautina fram á víð, finnst áreiðanlega ýmsum að sér hert. Sjálfsagt er, að menn segi frá því og geri samþykktir um það, sem þeim þykir miður fara, því að hver er sjálfum sér næstur. Hæfilegt aðhald og heilbrigð gagnrýni er okkur öllum holl. En ekki þarf að hvetja núverandi ríkisstj., hvorki til að hindra óþarfar kjaraskerðingar né til að bæta raunverulega kjör almennings, strax og fært er. Til þess vill hún gera allt, er í hennar valdi stendur, og vonandi láta engir undan freistingunni um að grípa til óyndisúrræða. Hvað sem í kann að skerast, verður nú ekki staðið í stað né aftur snúið án þess að lenda í miklu verri ófæru en nokkru sinni fyrr.

Hin þrautseiga íslenzka þjóð hefur yfirstigið marga miklu alvarlegri örðugleika en þá, sem nú er við að etja. Hagnýting nútímaþekkingar, vísindi og tækni, tryggð við hugsjónir frelsis og félagsöryggis mun ásamt meðfæddum manndómi þjóðarinnar gefa henni kraft til að ryðja sér braut til betri tíma. Þá mun enginn óska sér þess að hafa verið utan gátta, hvað þá reynt að spilla því viðreisnarstarfi, sem nú stendur yfir. Og ef einhverjum vex í augum það, sem hann þarf um sinn að leggja af mörkum til að tryggja atvinnu og velmegun þjóðarinnar inn á við, en sjálfstæði hennar og virðingu út á við, þá er hollt að minnast þess, að mikið skal til mikils vinna. — Góða nótt.