28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3435 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er viðkomandi frestun Alþingis. Það liggur fyrir till. um að fresta Alþ., jafnvel frá næsta mánudegi, og við framsóknarmenn teljum þetta óeðlileg vinnubrögð, vægast sagt. Mér er kunnugt, að formaður þingflokks Framsfl. hefur átt viðræður við hæstv. forsrh. um þetta mál, og það var gert ráð fyrir því, að forsrh. léti hann vita um niðurstöðuna, sem kynni að verða í ríkisstj., eftir fund í morgun, um það, hvernig þessu yrði háttað. Það hefur engin tilkynning borizt um þetta, og ég vildi gjarnan fá að heyra um það, hver er fyrirætlunin í þessu efni, áður en umræður hefjast um málið.

Þetta ber ekki að skilja svo, að ég sé ekki þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé, að þinginu sé frestað á þeim tíma, sem talizt getur eðlilegur, og að stjórnin taki sér þann vinnufrið, sem hún telur sig þurfa til þess að ráða fram úr málum, sem kunna að vera vandasöm. Ekki ber heldur að skilja það svo, að við viljum tefja fyrir þingstörfum. En við teljum þetta óeðlileg vinnubrögð af ástæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja á þessu stigi, fyrr en fæst svar um það, hver hefur orðið niðurstaðan af þessum viðræðum, sem áttu sér stað.