28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3440 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir mál þeirra hv. þdm., sem hér á undan mér hafa mótmælt þeim vinnubrögðum í deildinni, sem virðist fyrirhugað að hafa. Hér eru á dagskrá 5 mál, sem öll snerta fjárhag. Þessi mál eru sett á dagskrá í dag, og til þess að þau verði tekin fyrir, þarf afbrigði. Þetta er óvenjulegt, að ég hygg, sérstaklega í þingbyrjun. Alþm. hafa verið kallaðir til þingsetu fyrir örstuttu. Margir þeirra hafa tekið sig upp, jafnvel með fjölskyldur sínar, langt að og setzt að hérna og gert ráð fyrir, að þeir ættu hér að starfa fyrst um sinn. Allt í einu kemur boðskapur um það, að nú skuli þingið sent heim, þm. gefið frí frá störfum og þeir fara heim. Mér er ekki ljóst, að þörf sé á slíku. Mér er miklu frekar ljóst, að þörf sé á, að þingið sitji og starfi nú með eðlilegum hætti og á eðlilegum tíma, þar til jólafrí hefst.

Það er vitað mál, að fyrir þinginu liggja mörg og mikilsverð mál, sem þarf að leysa, og þar á meðal efnahagsmálin, og það er ekki aðeins hlutverk hæstv. ríkisstj. að leysa úr þeim málum, það er líka hlutverk hins háa Alþingis. Einhvern tíma var vinstri stjórnin ásökuð fyrir það, að hún vildi hafa samvinnu við samtök hinna vinnandi stétta, og að því fundið, að hún vildi flytja málin út fyrir endimörk Alþingis og láta gera út um málin þar. Mér virðist, að þeir, sem þetta gagnrýndu, viðhafi nú eða ætli sér að viðhafa svipað. Þeir ætla að láta einhverja aðila, sem þeir kalla sérfræðinga, gera út um efnahagsmálin og síðan demba þeim hér inn á Alþingi síðar í vetur og láta afgreiða þau, ef til vill með svipuðum hraða og þessi mál eiga nú að afgreiðast. Ég vil alveg ákveðið fyrir mitt leyti mótmæla slíkum vinnubrögðum. Það er ekki fyrst og fremst hlutverk sérfræðinga af neinu tagi að ráða fram úr efnahagsmálunum eða efnahagsvandanum hér á landi. Það er fyrst og fremst hlutverk Alþingis, það er hlutverk fulltrúa þjóðarinnar að gera það, og þeir eiga að hafa tíma til þess, og það á að ætla þeim tíma til þess og síst ástæða til að gefa hv. alþm. frí frá störfum nú, þegar þing er nýkomið saman.

5. málið á dagskrá er bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði. Að sjálfsögðu er eðlilegt, að slík heimild verði veitt, áður en þingið fer heim í jólafrí. En það er ekki sjálfsagt, að hv. alþm. séu því viðbúnir að greiða atkv. um það nú þegar. Ég veit ekki nema mál eins og brbl. fyrrv. ríkisstj. komi til með að hafa þar nokkur áhrif á óskir og vilja hv. alþm. Eins og kunnugt er, ganga þau lög úr gildi nú eftir hálfan mánuð, og þá hlýtur að liggja fyrir að taka ákvörðun um þann vanda, sem þar er við að eiga. En ég hygg, að það komi mjög fjárhag ríkisins við, hvernig á því máli verður tekið. Þetta er aðeins eitt dæmi, sem ég nefni, og skal ekki fara nánar út í það nú. En þessi vinnubrögð, sem virðist eiga að viðhafa hér í hv. d. nú í byrjun þings, að hespa af mikilsverðum málum á örstuttum tíma og með afbrigðum á afbrigði ofan, tel ég vitaverð og hlýt eins og aðrir hv. þdm., sem hafa talað á undan mér, að mótmæla slíku.