28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem það er nú látið að því víkja, að Alþ. muni frestað innan fárra daga, vil ég ekki láta hjá líða að spyrja hæstv. fjmrh. nokkurra spurninga út frá áður gefnum fyrirheitum Sjálfstfl.

Sem kunnugt er, voru á s.l. hausti gefin út brbl. um landbúnaðarafurðaverð. Það var 18. sept. Daginn eftir kemur svo hljóðandi yfirlýsing í Mbl. frá Sjálfstfl., með leyfi forseta:

„Hlutur bænda verði ekki skertur. — Yfirlýsing þingflokks miðstjórnar Sjálfstfl. í gær.

Vegna þeirrar deilu, sem upp er komin um verðlagningu landbúnaðarafurða, gerði miðstjórn og þingflokkur Sjálfstfl. eftirfarandi samþykkt á fundi sínum:

Sjálfstfl, telur stöðvun verðbólgu og jafnvægi í efnahagsmálum vera höfuðnauðsyn. Í þessum efnum hefur þegar mikið áunnizt frá því, sem var í des. s.l. Öllum er þó ljóst, að ráðstafanir þær, sem enn hafa verið gerðar, eru einungis til bráðabirgða og skapa þarf öruggari grundvöll til að tryggja framfarir og atvinnu handa öllum landsmönnum. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að taka allt efnahagskerfið til endurskoðunar, þegar nýtt Alþ., skipað í samræmi við vilja þjóðarinnar, tekur til starfa að afloknum kosningum.

Gildandi verðlagsgrundvöllur. — Vegna ósamkomulags hefur að þessu sinni ekki reynzt kleift að ákvarða verð landbúnaðarafurða lögum samkv. Ekki skal um það dæmt, hverju það er að kenna, en á það bent, að æskilegast hefði verið, að úr því hefði fengizt bætt. Það hefur ekki tekizt og þangað til annað reynist réttara ekki við annað að miða en þann verðlagsgrundvöll, sem verið hefur í gildi. Samkv. þeim grundvelli hefði verðlag landbúnaðarafurða nú átt að hækka um 3.18%. Sú hækkun er hliðstæð því eins og er kaup launþega hækkaði vegna hækkunar vísitölu fyrir verðlagshækkanir og þess vegna annars eðlis en beinar grunnkaupshækkanir.

Bændum bætt tjónið. — Hækkun landbúnaðarafurða nú mundi aftur á móti skapa hættu á nýrri verðhækkunarskriðu. Í samræmi við aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið eftir setningu stöðvunarlaganna í vetur, hefði verið sanngjarnast að greiða þessar verðhækkanir niður, þangað til Alþ. hefur gefizt kostur til að taka ákvarðanir um efnahagsmálin í heild. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki fallizt á þá lausn, heldur ákveðið að banna verðhækkanir með lögum. Af framangreindum ástæðum lýsir Sjálfstfl. yfir því, að hann mun á Alþ. leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir af þessum sökum verða fyrir.“

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Er byrjað að bæta bændum þetta tjón, sem Sjálfstfl. hét þeim að gert yrði þegar eftir að þeir kæmust til valda að kosningunum afstöðnum? Ég efast ekki um, að meðal bænda hafi flokkurinn fengið nokkur atkvæði út á þetta. Og það er fyllilega ástæða fyrir okkur, sem verðum sendir heim af þinginu innan fárra daga, að vita, hvort Sjálfstfl. ætli að standa við gefin fyrirheit í þessum efnum. Og ef svo er, að það er ekki þegar hafizt handa um að bæta þetta tjón, þá vil ég skora á hæstv. fjmrh. að gangast fyrir því, að þessi gefnu fyrirheit verði efnd. Það má kannske segja sem svo, að þetta tjón sé ekki óskaplegt. En það er óskaplegt hvort tveggja í senn af hæstv. ríkisstj. sem og fyrrv. ríkisstj. að níðast á samningsrétti bændastéttarinnar með bráðabirgðalögunum og svo af þessari stjórn, þar sem meiri hluti hennar hefur lofað því að bæta bændum tjónið. Þess vegna vil ég skora á hæstv. fjmrh. að gefa skýrar upplýsingar í þessum efnum nú þegar, og ef ekki er hafizt handa um að bæta þetta tjón, þá beita sér fyrir, að það verði gert.