28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3445 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. lýsti því yfir hér, að við gætum verið rólegir, því að hæstv. ríkisstj. mundi fara að lögum. Ég skal ekki gera henni neinar getsakir um það efni. En það hefur tíðkazt, þegar þingi er frestað með ályktun, að gefa út brbl. milli þinga, og ákvæði stjórnarskrárinnar hafa verið skilin svo, að slíkt sé heimilt. En þegar svo hefur verið litið á, að brbl. megi gefa út, hafi þingi verið frestað með ályktun, þá liggur nokkuð nærri að álíta, að það sé ekki heldur óeðlileg lögskýring, að brbl. beri að leggja fyrir Alþ., áður en því er frestað með ályktun. Það er a.m.k. nokkuð nærri lagi, held ég, þó að það megi sjálfsagt að einhverju leyti um það deila. Og það er ekkert óeðlilegt, þó að þingmenn vilji fá að vita um það, hvern hátt hæstv. ríkisstj. ætlar að hafa á þessu máli, þegar brbl. falla úr gildi 15. n. m. Það er ekkert óeðlilegt. Það mundu, hygg ég, í flestum þingum vera talin eðlileg vinnubrögð, að hv. þm. væri, áður en þeir eru sendir heim, gerð grein fyrir því, hvernig með þetta skuli fara. En þegar þeir koma heim frá sínum þingstörfum, geta þeir ekki frekar en aðrir almennir borgarar gefið neina skýringu á því sínum kjósendum, hvernig farið verður með þetta mál. En sleppum þessu atriði.

Það var aðallega eitt atriði, sem ég ætlaði að minnast á úr ræðu hæstv. landbrh. Hann sagði, að við framsóknarmenn hefðum mikinn áhuga á því að rétta hag bænda núna, þegar við værum í stjórnarandstöðu, og sló fram þeirri fullyrðingu, sem hann hefur slegið fram áður, sem er alveg röng og sannarlega alröng og ósönn og ég vil ekki láta hjá líða að leiðrétta og mótmæla. Hann segir, að það liggi nú fyrir, að Framsfl. hafi gleymt að tryggja hagsmuni bænda. Þegar hann hafi lagt á, eins og hann sagði, nýja skatta, þá hafi hann ætlað fyrir því, að sá skattur kæmi ekki niður á öðrum stéttum en bændum. Ég veit vel, við hvað hann á með þessum sköttum, því að hann hefur svo oft sagt þessi ósannindi, og það er 55% yfirfærslugjaldið, sem hann á við. Þessu hefur hann haldið þráfaldlega fram, án þess að hafi verið hægt að leiðrétta það eins oft og hann hefur staðhæft það. En sannleikurinn í þessu máli er sá, að þegar 55% yfirfærslugjaldið var lagt á, sem hækkaði að sjálfsögðu ýmsar vörur, sem bændur notuðu við framleiðslu, t.d. vélar o.fl., þá var ætlað fyrir þessum skatti í verðlaginu og leitað til framleiðsluráðs landbúnaðarins til að láta það fara yfir alla reikninga í þessu efni, til þess að það gæti sannfært sig um það, að það væri í landbúnaðarverðinu ætlað fyrir þessu 55% yfirfærslugjaldi. Sumarið 1958 var þetta mál, sem hæstv. ráðh. er nú að tala um, tekið til umr. á landsfundi bænda, og þar stóð upp sjálfstæðismaður, sem kom með þessar staðhæfingar, sem hæstv. landbrh. er hér með enn, og fullyrti þetta, sem landbrh. enn þá fullyrðir þvert ofan í staðreyndir. Og þá stóð þar upp bóndi, sem heitir Einar Ólafsson í Lækjarhvammi, og sagði: „Ég hef farið yfir alla þessa reikninga sjálfur, og ég er eins reikningsglöggur maður, hygg ég, eins og sá maður, sem hér var að halda fram ásökun um þetta,“ — og það hugsa ég, að hann sé, — „og ég staðhæfi það, að ekkert af þessu er á nokkrum rökum byggt. Það er ætlað fyrir þessu öllu saman í verðlaginu, og ég hef sannfært mig um það sjálfur, og þið skuluð láta umr. falla niður um þetta efni, því að þær eru alveg ástæðulausar.“ — Og það sagði enginn neitt, eftir að hann hafði haldið þessa ræðu, þar sem hann hafði sýnt fram á þetta með tölum. Nú gengur þessi draugur hér enn aftur, og ég vil ekki láta hjá líða að mótmæla þessum ósannindum, og það er leiðinlegt, að þetta skuli koma fyrir ráðh., að hann heldur fram þessum ósannindum hvað eftir annað.