28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því, að þessi fundur skuli hafa verið kallaður saman, á þessum tíma og með þessum hætti. Það hefur aldrei komið fyrir, svo að ég muni eftir, þau 22 ár, sem ég hef setið á þingi, að í fyrstu viku þings hafi verið kallaður saman þingfundur á laugardegi, og venjulega hefur það verið svo framan af þingi, að það hafa aldrei verið haldnir fundir á laugardögum. Á síðustu þrem árum hefur það verið svo, að þegar ég, sem þá var forseti þessarar deildar, boðaði til funda á laugardögum, þó að áliðið væri Alþingis, þá kom venjulega fram mjög hógvær ósk frá stjórnarandstöðunni um, að mönnum væri helzt hlíft við fundum á laugardögum. Er þó hér boðað til fundar, þar sem tekið er fyrir mál, sem þarf afbrigða við. Á öllum síðustu árum hefur það verið svo, að það hefur verið alveg sérstök ósk stjórnarandstöðunnar í þessari hv. d., að mál væru helzt ekki afgreidd með afbrigðum. nema mjög mikið lægi við. Ég vil þess vegna benda á, að nú hefur verið sett á dagskrá eitt mál í þessari hv. d., fyrsta dagskrármálið, og fimm mál í Ed., öll með afbrigðum, í fyrstu viku þingsins. Þetta hefur aldrei gerzt, svo að ég muni eftir. Og ég er hræddur um, að hefði Sjálfstfl. verið í stjórnarandstöðu núna, þá hefði hann mótmælt, jafnvel mjög kröftuglega.

Ég vil þess vegna eindregið óska þess og skjóta því til hæstv. forseta, að þessum hætti, sem mér er alveg ljóst að ekki er runninn undan rifjum hæstv. forseta, heldur hæstv. ríkisstj., verði ekki áfram haldið, en hér verði látið staðar numið. Ég þykist vita, af hvaða orsökum allir þingsiðir og allar þingvenjur séu brotnar í sambandi við þetta. Ég þykist vita, að það standi í sambandi við, að það hafi allt í einu orðið ætlun hæstv. ríkisstj. eða a.m.k. einhverra úr henni, — og þykir mér verst, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér viðstaddur til að svara fyrir um það, — að fara að senda þing heim nú, enda fram komnar till. í Sþ., sem benda í þá átt. Ég verð að segja, að slíkar hugmyndir eru svo fjarri öllu lagi, að maður undrast, að þess háttar till. skuli bornar hér fram. Það hefur aldrei komið fyrir, sízt af öllu með nýkjörið þing, en ekki heldur með þing, þó að nokkuð sé liðið frá kosningum, að það hafi verið sent heim í fyrstu eða annarri viku, eftir að það kemur saman, og nær vitanlega ekki nokkurri átt. Til þess eru þm. kjörnir, að þeir komi fram með þau mál, sem þeirra kjósendur hafa áhuga á, beri lagafrv. og þáltill. fram á Alþingi, aðrir þm. fái tækifæri til þess að hlýða á slíkt, tækifæri til þess að athuga þau mál, og svo alveg sérstaklega, að þm., hvort sem þeir tilheyra stjórnarandstöðu eða stjórnarflokkum, geti borið fram þingmál og flutt ræður, sem verða mættu ríkisstjórn til leiðbeiningar. Og mér leikur grunur á, að þess sé alveg sérstaklega þörf núna, því að eftir öllu því, sem við blasir, virðist hæstv. ríkisstj. vera svo gersamlega úrræðalaus, að hún hafi ekki hugmynd um, hvað hún eiginlega eigi til bragðs að taka, þannig að slíkri ríkisstj. mundi sannarlega ekki veita af að sitja dálítið hér á Alþingi og hlýða á ræður þm. og athuga þeirra mál og þau frv., sem þeir hafa að flytja, og þau ráð, sem þeir hafa að gefa.

Ég held alveg sérstaklega, þegar ein ríkisstjórn veit ekki, hvað hún á til bragðs að taka, þá ætti hún frekar að láta Alþingi sitja hér og óska meira að segja alveg sérstaklega eftir því, að alþm. komi fram með sínar till. um málin og taki þátt í umræðum um þau. Ég held þess vegna, að það nái ekki nokkurri átt, það sem hér er að stefnt, að ætla sér að fara að brjóta svo gersamlega í bág við alla þingsiði og allar þingvenjur að fara að senda Alþingi heim þegar í fyrstu eða annarri viku þess og það nýkjörið þing, ekki sízt þegar svo stendur á, að einmitt þetta þing, sem nú er kjörið, er, svo að ég vitni alveg sérstaklega í hæstv. forsrh., kjörið samkvæmt nýrri stjórnarskrá og nýjum kosningalögum og er, eins og hann hefur sérstaklega sagt, fyrsta þing um nokkurt skeið, sem er rétt spegilmynd af þjóðarviljanum. Manni finnst undarlegt, að þegar þing loks er kjörið eftir alllangt skeið og allharða baráttu á mjög lýðræðislegan hátt og er rétt mynd af þjóðarviljanum, skuli viðbrögð hæstv. forsrh. vera þau að fara að leggja til, að slíkt þing sé sent heim undireins. Hvað er hér um að vera? Á að byrja með því, þegar þingið er orðið virkilega rétt mynd af þjóðarviljanum, að vilja ekki hlusta á þann þjóðarvilja? Er meiningin, að þau mál, sem fyrir liggur að ráða fram úr hjá þjóðinni, eigi ekki að ráðast með ráðum Alþingis, að það séu einhverjir aðrir menn í þessu landi heldur en alþingismenn, sem séu færari um að gefa ríkisstj. ráðleggingar? Er meiningin að fara að leita til einhverra svokallaðra sérfræðinga utan veggja þessa húss til þess máske að fara að láta þá leggja ráð á um, hvað skuli gera? Er kannske meining, ef það ætti að fara að fresta þannig Alþingi, að það ætti að skella á með brbl., eins og ríkisstj. hefur oft talið sér heimilt að gera, ef þingi er frestað með þáltill., — er meiningin, að það eigi máske að skella á með brbl. jafnvel gengislækkun eða einhverju slíku? Mönnum hlýtur að koma allt mögulegt til hugar, þegar svona óvenjulegir hættir eru upp teknir eins og þessi laugardagsfundur. Hver er meiningin? Ég er hræddur um, að það sé bezt að stemma á að ósi, að það sé bezt, að hæstv. ríkisstj. geri sér nú þegar ljóst, að svona vinnubrögð, ef vinnu skyldi kalla, á ekki að taka upp gagnvart Alþingi Íslendinga.

Það verður kannske spurt, hvers vegna hæstv. ríkisstj. taki upp á svona löguðu. Það mætti máske ætla, ef marka skyldi það, sem sagt er í einu blaði bæjarins, að hæstv. forsrh. hafi sagt utan þingveggjanna í einu félagi hér í bænum, að aðkoman hafi verið miklu verri en hann hafi búizt við, það liti út fyrir, að það þurfi 250 millj. kr. í nýjum álögum, ef sú leið yrði farin, en hann hafi í sínu grandaleysi líklega haldið áður, að það væri allt í þessu fína lagi, eins og fyrrv. ríkisstj. hafði sífellt sagt.

Það mætti nú máske ætlast til þess, ef einhver slík slæm uppákoma hjá hæstv. forsrh. væri tilefni til þess, að það ætti að fara að beita svo óvenjulegum aðferðum eins og þessum laugardagsfundi og jafnvel þingfrestun nú, að hæstv. forsrh. álíti ástæðu til þess að skýra Alþingi frá því, hvað hann hefði séð í þessum plöggum, sem hann var að vitna til á Varðarfundi. Ég er ákaflega hræddur um, að það mundi einhvern tíma hafa verið talað um óvirðingu fyrir Alþingi, ef einn hæstv. forsrh. hefði leyft sér að flytja ræðu um ástandið í þjóðfélaginu og fara að kynna einhverju félagi úti í bæ, hvernig það ástand væri, en léti ekki svo lítið að fara að tilkynna Alþingi, hvernig þetta ástand væri.

Mönnum hefur máske dottið í hug, að þetta hefði hrotið út úr hæstv. forsrh. á Varðarfundi og hann hefði ætlað að segja Alþingi frá því rétt á eftir. En hvað bregður við? Jú, það virðist vera meiningin nú, að það eigi bara að senda Alþingi heim og hæstv. forsrh. ætli ekki að segja því neitt, kannske halda þeim mun fleiri fyrirlestra yfir Varðarfélaginu. Ég er hræddur um, að hann sé farinn að rugla saman Alþingi og Varðarfélaginu, og það er betra, að menn átti sig undireins, ef menn eru farnir að gera slík mistök.

Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj., sem ég er hræddur um að hafi átt upptökin að því, að hæstv. forseti boðaði til þessa fundar, verði strax að gera sér ljóst, að þm. munu ekki una svona vinnubrögðum. Það er einmitt ástæða til þess, ef hæstv. forsrh. hefur fundizt aðkoman eitthvað köld í stjórnarráðinu, að hann segði þá Alþingi alveg hreinskilnislega frá þessari slæmu uppákomu og bæri nú ráð sín saman við þingmenn, fyrst hann hefur alveg óvart myndað ríkisstj. án þess að hafa hugmynd um, hvernig ástandið í þjóðfélaginu væri, eða jafnvel trúað þeim ráðh., sem sátu áður í ríkisstj., hafandi þó sjálfur stutt þá og haft þess vegna tækifæri til þess að skyggnast eitthvað ofur lítið í þeirra plögg allt þetta ár.

Ég held þess vegna, ef eitthvað slíkt er á ferðinni, að það hefur komið hæstv. forsrh. að óvörum, hvernig ástandið væri í þjóðfélaginu eftir eins árs stjórn Alþfl. með hans stuðningi, þá bæri honum að koma til Alþingis og segja Alþingi frá þessari furðu sinni. Ef til vill væri hægt að gefa honum einhver góð ráð, það hefur oft verið gert áður. Enn fremur var vitanlegt, að það hafa verið lögð fram fjárlög fyrir þetta þing, svo sem stjórnarskráin mælir fyrir um, og það er venja, sem aldrei hefur verið brotin, svo að ég muni eftir, að fjmrh. hefur haldið ræðu, sem útvarpað hefur verið, við 1. umr. fjárl. Venjulega hefur þetta verið ein af fyrstu umr. á Alþingi, og vitað hef ég um fjmrh. í fjármálaráðherrastóli, sem hafa helzt ekki mátt bíða einn eða tvo eða í hæsta lagi þrjá daga eftir að fá að flytja slíka ræðu til þess að geta sagt þingheimi og alþjóð, hvernig ástandið væri í þjóðfélaginu. Ef það hefur verið svona köld aðkoma í stjórnarráðinu og fjármálin öll í vitleysu eftir eins árs fjármálastjórn Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl., þá held ég, að væri því meiri ástæða, þegar nýr fjmrh. er kominn, til þess að sá fjmrh., ef hann hefur líka orðið furðu lostinn eins og forsrh., segði Alþingi og alþjóð frá, hvers konar ástand væri í fjmrn. M.ö.o.: það ber allt að sama brunni. Einmitt ef hæstv. ríkisstj. kynni að hafa athugað sín mál allt of illa, áður en hún myndaði stjórn, ef hún hefði ekki verið búin að koma sér niður á, hvers konar pólitík hún ætlaði að reka, þá er því meiri ástæða til, að hún ráðgist við Alþingi.

Það kann að bera fleira til og hefur borið hér á góma nú, að það sé uppi tilhneiging hjá hæstv. ríkisstj. til þess að reyna að losna við Alþingi. Það var svo í sumar, að það voru gefin út brbl., sem hér hefur nokkuð verið minnzt á. Þegar þau brbl. voru gefin út, skrifaði ég sem formaður þingflokks Alþb. þáverandi hæstv. forsrh., núverandi hæstv. sjútvmrh., þann 22. sept., og óskaði þess f.h. þingflokks Alþb., að Alþingi yrði kvatt saman til aukafundar til þess að fjalla um þau brbl. Mér barst nokkru síðar svar frá þáv. hæstv. forsrh., sem nú er sjútvmrh. í ríkisstj. Það væri mjög æskilegt, að hann væri hér viðstaddur, þegar minnzt er á þetta, ef hæstv. sjútvmrh. væri í húsinu. (Sjútvmrh.: Hann heyrir þetta allt saman.) Hann heyrir það, það var gott. Hæstv. þáv. forsrh. sagði í bréfi sínu, að hann áliti ekki þörf á að kveðja Alþingi saman til aukafundar til að taka ákvörðun um verðlagsmál landbúnaðarins og brbl., sem út höfðu verið gefin 18. sept., og að lokum benti hann á í sínu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á það má og benda að lokum, að verði sú skoðun ofan á á hinu nýkjörna þingi, að landbúnaðarvörur beri að hækka í verði og að greiða þá hækkun niður af opinberu fé, þá getur sú ákvörðun komið til framkvæmda allt að því eins fljótlega með ákvörðun hins nýkjörna þings og þings, sem nú yrði kvatt saman.“

Þannig hljóðuðu orð hæstv. forsrh., núv. hæstv. sjútvmrh. Í þessari yfirlýsingu felst það beinlínis, að hið nýkjörna Alþingi geti sem sé undireins tekið þessi mál fyrir. Brbl. var ætlað að vinna sitt gagn eða ógagn eða standa í gildi til 15. des., og í þessum orðum í þessu bréfi hæstv. þáv. forsrh. liggur þess vegna beinlínis loforð um það, að hið nýkjörna Alþingi skuli innan þessa tíma geta tekið sína ákvörðun um þetta mál, þannig að þetta bréf er raunverulega eins konar fyrirheit og yfirlýsing hæstv. forsrh., sem situr í núverandi ríkisstj., sem nýtur stuðnings sömu flokka og studdu hann, — þessi yfirlýsing hans er beinlínis loforð til þess þings, sem átti að fara að kjósa, um, að það mundi fram til 15. des. fá aðstöðu til þess að fjalla um þessi brbl.

Ég átti f.h. þingflokks Alþb. samkvæmt ósk hæstv. núverandi forsrh. tal við hann í gær, þar sem hann einmitt ræddi við formann þingflokks Framsóknar og mig um þessi þingfrestunarmál, og m.a. spurði hann þá að því, hvað ég áliti fyrir mitt leyti eðlilegan tíma, ef menn vildu fresta þingi, eins og stundum hefur verið gert, rétt fyrir jólin. Ég sagði honum, að ég áliti t.d., að það væri alveg hægt að sætta sig við, að það væri tími eins og 13.–20. desember. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir, að ríkisstj. hefur gjarnan viljað taka alllangan tíma til þess að athuga sín mál um áramótin, og þess vegna hafa oft verið að mestu leyti felldir niður þingfundir í janúarmánuði. Það er ekkert óeðlilegt. En hitt hefur aldrei komið fyrir, að það væri tekið upp á því, svo að ég muni eftir, að fresta þingfundum svo snemma eins og nú virðist vera ætlunin.

Þegar þess vegna einmitt hefur hér utan dagskrár verið rætt um brbl. um landbúnaðarvöruverðið og hæstv. núv. landbrh. tekið þátt í þeim umr., þá er vert um leið að minna hann á yfirlýsingu hans samráðh., hæstv. sjútvmrh., sem hann gaf sem verandi forsrh. og er náttúrlega bindandi fyrir núv. hæstv. landbrh. Það liggur fyrir yfirlýsing um, að hið nýkjörna þing muni fá tækifæri til þess að ræða þessi mál og það einmitt fyrir 15. des. og geta tekið sínar ákvarðanir um þau. Nú virðist það vera svo, að meira að segja ef hæstv. forsrh, núv. hefði haft allt sitt fram að fresta þingi frá 30. nóv., þá er mér næstum spurn: Var alls ekki meiningin að leggja þessi brbl. fyrir þetta þing, áður en því yrði frestað? Var meiningin að sleppa því alveg? Þá fyrst væri farið að brjóta þau óbeinu loforð, sem hæstv. fyrrv. forsrh., núv. sjútvmrh., gaf í sínu bréfi, sem ég vitnaði í áðan. Ég held þess vegna, að það væri að öllu leyti bezt fyrir hæstv. ríkisstj., bæði til þess að hún brjóti ekki allar þingvenjur og þingsiði og til þess að hún fái tækifæri til þess að ráðgast við Alþingi um þau vandamál, sem henni virðast, þótt ólíklegt sé, hafa borið svona óvænt að höndum, og eins til hins, að brbl. um landbúnaðarvöruverðið fái sína eðlilegu meðferð hér í þinginu, og til þess að þau loforð, sem fyrrv. hæstv. forsrh. gaf, verði efnd, þá held ég, að það sé bezt, að þingfundi eins og þessum væri hætt nú, og vil ég alvarlega skjóta því til hæstv. forseta, að þessum óvenjulega hætti, sem hér hefur verið tekinn, að boða fund á laugardegi og það með mál á dagskrá, sem afbrigða þarf við, í fyrstu viku þingsins, að þessu sé hætt og hæstv. ríkisstj. geri sér ljóst, að svona eigi menn ekki að haga sér.

Það eru því tilmæli mín, að hæstv. forseti ráðgist við hæstv. ríkisstj. um það, hvort vænlegast sé ekki að taka slíkan hátt upp, án þess að ég vilji þar með, fyrst á annað borð fundur er byrjaður, á neinn hátt koma í veg fyrir, að hæstv. sjútvmrh. og aðrir þeir, sem hér hefur verið vitnað til, gefi okkur sínar skýringar á þeirra hugmyndum í sambandi við þessi mál.