28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh, sagði hér áðan fáein orð. Hann sagðist vera ánægður yfir því, að það hefði komið fram, að ég læsi Morgunblaðið, vegna þess að ég vitnaði í það, sem í því hafði staðið. Það er rétt, ég lít stundum í Morgunblaðið. En það er slæmt, ef menn reka sig á, að ekkert sé að marka hátíðlegar yfirlýsingar frá Sjálfstfl., sem birtar eru í því blaði. Þá getur vel svo farið, að ég og fleiri trénist upp á því að lesa það blað.

Hæstv. landbrh. flutti hér ræðu í tilefni af þeim fsp., sem ég hafði borið fram, en ég verð að segja, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum, því að ég fékk þar engin svör við því, sem ég hafði spurt um. Hæstv. ráðh. sagði, að það liti út fyrir, að ég væri mjög ókunnugur þingsköpunum og vissi ekki, hvernig ætti að haga fyrirspurnaflutningi hér á Alþingi. Ég einmitt skýrði frá því í ræðu minni hér í dag, hvers vegna ég hefði borið hér fram munnlegar fyrirspurnir til hæstv. ráðh., en ekki skriflegar. Hann heyrði þetta, svo að þessi aths. hans var alveg óþörf. Við vitum vel, að það tekur alllangan tíma að fá svör við fsp., sem bornar eru fram með venjulegum hætti, þ.e.a.s. lagðar fram skriflega á þskj. Ef ég hefði nú flutt þessar fsp. mínar til hæstv. ráðh. skriflega, þá má ætla, að þeim hefði verið útbýtt á fundi í sameinuðu Alþingi næsta miðvikudag, þ.e.a.s. ef stjórnin hefði þá ekki verið búin að fresta þinginu. Síðan hefði skömmu síðar verið haldinn fundur í sameinuðu þingi til þess að ákveða, hvort leyfa skyldi þessar fsp. mínar, og ef það hefði nú verið gert, sem ég geri ráð fyrir, þá hefði liðið ein vika þangað til þess hefði mátt vænta, að hæstv. ráðh. gæfi svar við fsp. Þó væri engin vissa fyrir því, að svar hefði fengizt þá, vegna þess að það hefur oft komið fyrir, að viðkomandi ráðherrar hafa ekki verið tilbúnir með svör sín á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir. Það var einmitt vegna þeirrar till., sem ríkisstj. hefur borið fram um þingfrestun, eins og ég áður gerði grein fyrir, sem ég leyfði mér að flytja þessar fsp. munnlega. Ef ríkisstj. kemur fram vilja sínum um þingfrestun innan fárra daga, mundi ekki fást svar við skriflegri fsp., sem nú væri flutt, áður en þinginu yrði frestað. En ég vil halda því fram, að upplýsingar um fyrirætlanir hæstv. stjórnar í verðlagsmálum landbúnaðarins þurfi að fást, áður en þingi verður frestað, ef til þess kemur.

Það lítur út fyrir af því, hvernig hæstv. landbrh. brást við, að það sé að fara í geitarhús að leita ullar að leita upplýsinga hjá honum um mál, sem undir hann heyra og honum ber skylda til að veita þm. vitneskju um.

Hann segist hafa talað við framleiðsluráð landbúnaðarins og þm. geti leitað þar frétta af þeim samtölum. Ja, hvernig lízt mönnum á? Er þetta viðeigandi framkoma af manni í þessari stöðu? Ég held ekki. Þingmenn eiga rétt á því að fá upplýsingar frá ráðherrum um þýðingarmikil mál, sem þeir hafa með að gera, en eiga ekki að þurfa að leita til annarra, sem ráðh. hefur e.t.v. talað eitthvað við utan þings um þessi efni. Ég held, að það sé full ástæða til að endurtaka þessar fsp. til hæstv. ráðh. til að rifja þær enn betur upp fyrir honum.

Ég spurði um það, hvort hæstv. ráðh. væri eitthvað búinn að gera viðkomandi greiðslu á þeim uppbótum, sem flokkur hans lofaði að leggja til að bændum yrðu greiddar. Ég spurði um það, hvort ráðh. væri t.d. búinn að tilkynna framleiðsluráði landbúnaðarins, að bændur mundu fá þessa 3.18% uppbót á verð þeirra afurða, sem þeir hafa selt, síðan brbl. komu til framkvæmda. En þegar slík yfirlýsing frá ríkisstj. lægi fyrir, væri hægt að deila uppbótunum niður á búvörutegundirnar, gera reikninga yfir uppbæturnar og ganga eftir borguninni hjá yfirvöldunum. Ég spurði enn fremur um það, hvort hæstv. ráðh. teldi sig þurfa sérstaka heimild frá Alþingi til að greiða þessar umræddu bætur eða hvort hann liti svo á, að heimild til þess væri í einhverjum lögum, sem nú eru til, og ég vitnaði í yfirlýsingar Sjálfstfl., þar sem sú skoðun virðist koma fram, að þörf sé fyrir sérstaka þingsamþykkt um þetta. Ég spurði, hvort þetta væri einnig skoðun hæstv. ráðh. eða ríkisstj. núverandi, að sérstaka heimild þurfi frá Alþingi til að borga uppbæturnar, og ég spurði hæstv. ráðh., ef sú væri skoðun hans, hvort hann ætlaði ekki að leita eftir slíkri heimild á Alþingi nú þegar, því að ég benti á, að hún þyrfti að fást afgreidd, áður en þingi verður frestað, ef til þess kemur. Hitt væri hin mesta óhæfa og óverjandi með öllu, að láta bændur bíða eftir þessum lofuðu uppbótum langt fram á næsta ár. Í fáum orðum sagt: Ég óskaði svars frá hæstv. ráðh. um það, hvaða ráðstafanir hann er þegar búinn að gera, ef einhverjar eru, eða hvaða ráðstafanir hann ætlar að gera og þá hvenær viðkomandi greiðslu á þessum bótum.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að þegar þing var sett, hefði forsrh. gefið upplýsingar um stefnu stjórnarinnar, m.a. varðandi þetta mál, og þar gæti ég fengið svör við fyrirspurnunum, skildist mér. Og hæstv. landbrh. sagði, að ég gæti látið mér nægja það, sem hann sagði um málið, þó að það væru engin svör við fsp., heldur að mestu skætingur um Framsfl. En hvað er það þá, sem hæstv. forsrh, hafði fram að flytja um þetta efni fyrir um það bil viku, þegar þing var sett, þegar hann var að gera grein fyrir myndun ríkisstj., verkaskiptingu og fleira í því sambandi? Um þetta mál sagði hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi verðlag landbúnaðarafurða mun reynt að fá aðila til að semja sín á milli um málið, ella verður skipuð nefnd sérfræðinga og óhlutdrægra manna, er ráði fram úr því.“

Ég býst við, að það fari svo fyrir fleirum en mér, að þeim þyki erfitt að fá nokkrar upplýsingar út úr þessari málsgrein um það, hvað stjórnin ætlast fyrir í því máli, sem ég hef verið hér að spyrja um. Þarna er ekkert svar við því, hvort stjórnin ætli að greiða eða beita sér fyrir, að greiddar verði þessar bætur, sem Sjálfstfl. lofaði bændum fyrir kosningar í haust, — ekkert um það, hvenær þeir ætli að leggja brbl. fyrir þingið og hvort Sjálfstfl. ætli að standa við það, sem hann sagði fyrir kosningar í sínum hátíðlegu yfirlýsingum, að flokkurinn vildi færa bændum aftur þann rétt, sem þeir eiga, og fella úr gildi brbl. Það eru engin svör við þessum fsp. mínum, en þingmenn eiga heimtingu á því að fá svör við þessum fsp.

Ég hefði vel getað skilið það, ef hæstv. ráðh. hefði óskað eftir fresti til næsta fundar í þd. til að svara fsp. Það hefði ekkert verið við því að segja, þótt hann hefði óskað eftir slíku, og hefði verið auðvelt að fallast á það. En undanbrögðin, sem hér eru höfð í frammi, eru til þess fallin að vekja grunsemdir um, að hér sé ekki allt með felldu, og það er vissulega þörf á því að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. yfirlýsingarnar, sem hans flokkur gaf í þessu máli fyrir kosningarnar í haust, eins og ég gerði í minni fyrri ræðu.

Ég vil því ítreka kröfu mína um það að fá svör við fsp. mínum, áður en till. um þingfrestun verður tekin til umr. hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.