28.11.1959
Neðri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi beina því til hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess, að hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. mættu heyra mál mitt eða vera hér viðstaddir í deildinni. Ég ætlaði að beina máli sínu til þeirra örlítið. (Forseti: Ég vil benda ræðumanni á, að það er búið að koma boðum til beggja ráðh., og ég vil mælast til þess, að hann haldi máli sínu áfram.) Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta, að hann hafi þolinmæði við mig, þó að ég biði, þangað til ráðh. koma, þar sem mér er kunnugt um, að þeir eru í húsinu — (Forseti: Það er búið að koma boðum til þeirra beggja.) eða geri þá fundarhlé, þangað til ráðherrar geta haft tíma til að vera á fundinum. (Forseti: Við skulum þá reyna örlítið á þolinmæðina og sjá, hvort þeir koma ekki.) — — —

Já, eins og ég sagði, ætlaði ég að beina fáeinum orðum til hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. Ég sé, að hæstv. ráðh. eru nú báðir komnir, og skal þá koma að þessu, sem ég vildi segja.

Það er fyrst varðandi hæstv. landbrh. Ég endurtók hér í dag með nokkrum orðum fyrri áskoranir mínar um það, að hæstv. landbrh. gerði ráðstafanir til þess, að brbl. um afurðaverð landbúnaðarins yrðu lögð fyrir nú strax, og þá með alveg sérstöku tilliti til, að þessar fyrirætlanir um þingfrestun eru komnar fram. Til viðbótar þeim rökum, sem ég færði fyrir því í gær, — ætla ég, að það hafi verið, — að nauðsynlegt væri að gera þetta, þá færði ég þau rök fram nú til viðbótar og reyndi að gera það eins greinilega og ég gat, að það færi að vekja, meiri en litla tortryggni, ef hæstv. ríkisstj. drægi það nokkuð, að þessi bráðabirgðalöggjöf yrði lögð fyrir, og einmitt, að slík tortryggni fengi byr undir báða vængi við þessar fyrirætlanir, sem látnar hafa verið í ljós um þingfrestunina sjálfa. Mönnum gæti jafnvel dottið í hug, að hæstv. ríkisstj. hefði komið til hugar annað eins og það að leggja brbl. alls ekki fyrir þingið, en senda það þess í stað heim. Og þar sem áríðandi væri að taka af skarið um þetta strax og kveða niður þennan orðróm, þá væri ekki seinna vænna að leggja einmitt þessi brbl. fram.

En hæstv. landbrh. hefur ekki svarað neinu þessari ítrekuðu fyrirspurn af minni hendi, og vil ég mjög eindregið mælast til þess, að hæstv. ráðh. taki nú af allan vafa í þessu máli. Það mundi verða til góðs fyrir vinnubrögð þingsins og spara mikil óþægindi og fyrirhöfn, ef hæstv. ráðh. vildi taka af allan vafa um þetta efni nú strax og lýsa því yfir, að brbl. verði lögð fram nú. E.t.v. er það ekki hægt á þessum fundi, það skilur maður, því að hann getur varla staðið mjög lengi úr þessu, ef að líkum lætur, en t.d. á mánudaginn, og léti hann þá fylgja, að hæstv. ríkisstj. ætlaði að haga þannig þinghaldinu, hvað sem liði nauðsyn hennar til þess að fá vinnufrið, að frumskilyrði þingræðisins væru uppfyllt að þessu leyti og á þinginu færi fram atkvæðagreiðsla og afgreiðsla á þessu máli, áður en það kæmi til greina, að það væri sent heim. — Ég vil enn þá einu sinni alveg sérstaklega, bæði í þágu Alþingis og þágu þess vinnufriðar, sem hæstv. ríkisstj. og aðrir vilja fá, beina því sterklega til hæstv. ráðh., að hann gefi alveg fortakslausa yfirlýsingu um þetta.

Þá vil ég koma að því, sem ég átti sérstaklega að erinda við hæstv. dómsmrh., eiginlega í forföllum hæstv. forsrh., sem sagt er að sé lasinn í dag og geti ekki verið við þessar umr. En það er, eins og hér hefur komið fram, mjög leitt, að hann skuli ekki geta verið við þessar umr. um þingstörfin, og hefði satt að segja vel verið hægt að bíða með að efna til þeirra, unz hann gat verið viðstaddur, því að vonandi verður hann ekki lengi lasinn. Hefði það þá e.t.v. getað orðið strax á mánudaginn, og er ekki hægt að sjá, að neinn skaði hefði orðið af, þó að dregið hefði verið að efna til þeirra umr., sem hér hafa orðið í dag, til mánudags, með það fyrir augum, að hæstv. forsrh. hefði þá getað verið sjálfur hér viðstaddur og rætt um þessi efni. Það hefði sannarlega verið viðkunnanlegra. En það, sem ég vildi segja við hæstv. dómsmrh. af þessu tilefni, var að rifja það upp, að í gær óskaði hæstv. forsrh. eftir viðtali við formenn tveggja stjórnarandstöðuflokkanna, og erindi hans var, sagði hann, að grennslast eftir því, hvort það væri rétt, sem hann hefði heyrt, að það væri megn óánægja hjá stjórnarandstæðingum út af þeirri þáltill., sem þá hafði nýlega verið útbýtt um frestun Alþingis. Honum var þá sagt af hendi þessara formanna, sem á fundinum mættu, — og það var enginn munur á afstöðu þeirra í því efni, — að það væri litið á það sem freklegt brot á öllum þingræðisvenjum og þingræðinu sjálfu, ef það kæmi til greina, að Alþingi yrði sent heim, fyrr en búið væri að ljúka ýmsum nauðsynlegum störfum, sem minnzt var á sum í þessu samtali. Var minnzt í því sambandi sérstaklega á brbl., á 1. umr. fjárl. og skýrslu um fjármálin í því sambandi, á svör við ýmsum fsp., sem fram hafa verið lagðar og nauðsynlegt er að fá svarað til þess að geta myndað sér skoðun um ýmsa þætti í þjóðarbúskapnum og varðandi einstök mál. Og á fleira var drepið, sem allt var þannig vaxið, að það var mjög auðvelt að sinna því og fá samt fullan vinnufrið fyrir hæstv. ríkisstj. og alveg eðlilegt jólahlé fyrir þingheim.

Hæstv. forsrh. hlustaði á þennan málflutning og kvaðst mundu íhuga það eða athuga með hæstv. ríkisstj., hvort þessi röksemdafærsla yrði tekin til greina og breytt yrði eitthvað út frá því, sem menn höfðu hugsað sér og kom fram í þáltill. Og mér skildist, að hæstv. ráðh. ætlaði að hafa samband við okkur formenn þingflokkanna í andstöðuliðinu fyrir hádegi í dag, áður en þingfundur hæfist, og þá væri það gert upp, hvort þessu gæti ekki orðið breytt. En við okkur var ekkert samband haft um þetta meira, en það stafar kannske af lasleika hæstv. forsrh. Ég vil minna á, að í framhaldi af þessu, sem þarna hafði farið fram, þessum umr., hagaði ég máli mínu þannig hér í dag utan dagskrár um þetta efni, að ég fór í raun og veru fram á, að þetta yrði athugað áfram, þráðurinn yrði tekinn upp um þetta efni, þar sem hann féll niður í gær, annars vegar af hendi stjórnarinnar og hins vegar stjórnarandstöðunnar, hvort það væri ekki mögulegt að fá sparað mönnum deilur um þinghaldið og fyrirkomulag þess og hvort það væri ekki hægt að fá samkomulag um heppilegri vinnubrögð, sem allir aðilar gætu sætt sig við og væru þá byggð á því, að þær skýrslur kæmu fram hér, sem hægt er að gefa á hv. Alþingi og mestu varða, 1. umr. fjárl. færi fram, brbl. yrðu lögð fyrir og fengju þinglega meðferð, svarað fyrirspurnum og afstaða tekin til þeirra mála, sem menn kæmu sér saman um að þyrfti að afgreiða fyrir þinghléið, og að stjórnarandstaðan gerði þá fyrir sitt leyti samkomulag um að gefa stjórninni eins mikinn vinnufrið og unnt væri til þess að vinna utan þingsalanna, því að okkur í stjórnarandstöðunni er vel ljóst, að það þarf ýmislegt að vinna utan þingsalanna.

Ég sný ekki aftur með það, að ég teldi það langsamlega manndómslegast að snúa sér að því að reyna að koma upp svona vinnuáætlun, og það var það, sem við töluðum um í gær við hæstv. forsrh. Ég hef ekki enn þá fengið neitt svar við þessari uppástungu, sem ég gerði hér í ræðu minni í dag um það að viðhafa þessa málsmeðferð. Ég hef ekki fengið neitt svar við þeirri uppástungu t.d. af hendi hæstv. dómsmrh., sem mætir hér í dag í stað hæstv. forsrh., og það var þetta, sem ég sérstaklega vildi beina til hans, þessi uppástunga eða hvað menn vilja kalla það, að svona verði haldið á málinu.

Það var einnig annað, sem ég vildi gjarnan vekja athygli á og hæstv. dómsmrh. hefur ekki komið neitt inn á, en ég vék líka til hans í dag og snertir þetta mál ákaflega mikið allt saman, og það var, hvort hæstv. ráðh. vildi ekki gefa hér yfirlýsingu um, að brbl. um afurðaverðið yrðu lögð fram og afgreidd sem einn liður í þessu samkomulagi um vinnuaðferðir, sem ég var að stinga upp á, og hvort hann vildi ekki líka lýsa því yfir til þess að eyða allri tortryggni, að það kæmi ekki til mála, að ríkisstj. gæfi út brbl. í því þinghléi, sem hún vill efna til.

Það hlýtur að vera eins með hæstv. dómsmrh. og hæstv. landbrh., að honum hlýtur að vera það ljóst, að ef ekki koma fram skýrar yfirlýsingar um þetta, þá gætu menn álitið, að ætlunin væri sú að losa sig við þingið til þess að gefa út brbl. um deiluefni í þinginu og jafnvel koma því þannig fyrir, að ríkisstj. gæti ekki aðeins með því þvingað andstæðinga sína, heldur jafnvel þvingað stuðningsmenn sína, með því að senda þá heim og láta þá síðan standa frammi fyrir gerðum hlut, þegar þeir kæmu til baka, í trausti þess, að henni tækist þá að beygja þessa menn til þess að samþykkja það, sem búið væri að gera, vegna þess að það mætti ekki gera ríkisstj. það að breyta út frá því, sem hún hefði ákveðið, hennar virðing þyldi það ekki og menn yrðu að taka tillit til þess.

En þetta er einmitt ein af þeim hættum, sem yfir vofa, ef léttúð er sýnd og þinghaldi ekki hagað með eðlilegu móti. Þinghald á ekki að vera bara til þess, að stjórnarandstæðingar geti skammað stjórnina og flutt till. eða uppástungur. Það er ekki eini tilgangurinn með þinghaldi. Þinghald á líka að vera til þess að tryggja, að ríkisstj., hver sem hún er, ráðgist einnig við þá, sem hana styðja, og slíkt er óhugsandi að tryggja nema einmitt með fundarhöldum í þinginu og nærveru þingmanna.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minnast ofur lítið á þann mun á skilningi á þinghaldi, sem kemur oft fram í umr. um þinghald og vinnubrögð á Alþingi og kom fram nokkuð hjá hæstv. dómsmrh. einmitt hér í dag. Við höfum oft heyrt því haldið fram, stundum jafnvel af þingmönnum og mjög oft af öðru fólki, að þingið sitji aðgerðalaust. Hvað sé þingið að hanga, það er bezt fyrir þingið að fara heim, segja menn stundum. Það eru kannske stuttir þingfundir og ekki miklar samþykktir gerðar í málum, jafnvel vikum saman á Alþingi. Ég man t.d. eftir því, að þegar fyrrv. ríkisstj. starfaði, var þannig ástatt stundum, að það gerðist ekki mjög mikið á þingfundunum sjálfum vikum saman, og þannig hefur þetta ævinlega verið. Og þá var það, að hv. stjórnarandstæðingar, sem þá voru, sjálfstæðismenn, gagnrýndu þetta ákaflega sterklega og sögðu, að þetta þinghald væri til skammar og stjórnin hefði átt að hafa öll málefni sín undirbúin til þess að leggja þau fyrir þingið. En ég benti á það þá, og ég bendi á það enn, einmitt í sambandi við þennan skilning á þinghaldi, að hér er að mínu viti um misskilning og rangtúlkun að ræða. Til hvers situr þingið, þótt stundum gerist lítið á þingfundunum? Það situr til þess, að þingmenn geti unnið með ríkisstj. eða í hópum að því að skapa sér skoðanir um helztu vandamálin og móta þær úrlausnir, sem síðar koma fram í frv. og á annan hátt á þingfundum. Það er þetta, sem er að gerast á Alþingi, þegar svona stendur á. Þingið hangir ekki aðgerðalaust, þótt svona líti út á yfirborðinu. Og þetta vita engir betur en hv. þingmenn.

Það er einmitt þessi misskilningur í garð þingsins, sem gætir talsvert meðal almennings, að þegar svona stendur á, sé það vottur um það, hversu þingið sé aðgerðalaus og jafnvel lítilfjörleg stofnun. En við vitum, að þetta er ekki rétt, og við vitum, að einmitt þegar svona stendur á gerist oft það á Alþingi, sem mestu máli skiptir. Það gerist á Alþingi sjálfu. Það gerist með því, að í flokkunum og utan flokkanna eru þingmenn að rannsaka málin og komast að niðurstöðum, oft ásamt ríkisstjórninni, hvað skuli gera. Og ég segi: Það situr sízt á hv. alþm. og hæstv. ráðh. að vera að reyna að útbreiða þann hættulega misskilning, sem einmitt er talsvert almennur í landinu um störf þingsins og þýðingu þess, þegar svona stendur á. Það situr sízt á þeim að gera slíkt, að útbreiða það, sem þeir víta að er rangt, að þegar svona stendur á sé Alþingi áhrifalaust og aðgerðalaust. Þingmenn vita, að þessu er ekki þannig háttað.

En það virðist vera skilningur þeirra manna, sem þetta leggja fyrir sig, eins og t.d. hæstv. dómsmrh., að svona eigi ekki að hafa þinghald, heldur eigi þinghald að vera þannig, að þingmenn eigi að vera heima hjá sér, á meðan einhverjir aðrir eru að ákveða, hvað skuli gera í aðalmálunum, t.d. ríkisstjórnin með einhverjum ráðunautum hingað og þangað aðfengnum. Það séu þessir menn, sem raunverulega eigi að ákveða það, hvað skuli gert, og þeir skuli og eigi ekki að kalla í alþm. eða Alþ. fyrr en þeir hafi ákveðið, hvað skuli gert, hvað skuli samþ. Síðan á að leggja þykkju sína við, ef alþm., sem þá eru kvaddir að, bláókunnugir og án þess að hafa verið með í þróun málanna, kunni að finna að því, sem gera á. Þá á að dynja á þeim: Ætlar þú að fara að beita þér á móti stjfrv.? Ætlar þú að fara að eyðileggja það, sem ríkisstjórnin þín hefur gert, með því að vinna að því með andstæðingunum að breyta till. stj.? Nei, þú verður að sýna þegnskap þinn við ríkisstj., sem þú styður, og flokkinn þinn og samþykkja þetta óbreytt eins og það liggur fyrir.

Það er þessi aðstaða, sem verið er að koma þm. í með því að halda því að þeim, að þeir eigi að vera heima hjá sér, á meðan undirbúin eru aðalmálin. Þeir séu þar bezt geymdir. En þá fyrst eigi þeir að koma til þess að rétta upp puttana, þegar þeir, sem hafa verið settir í ríkisstjórn, eru búnir að ákveða með sinum mönnum, einhverjum allt öðrum mönnum, hvað skuli gert.

Og þessir menn eru að hefja hér upp í þinginu, ekki aðeins nú, heldur æ ofan í æ, saknaðaróð um, hvernig þetta hafi einhvern tíma verið, — þá hafi nú aldeilis verið höfð hröð handtökin, það hafi allt verið tilbúið, þegar þm. komu. Og þessir menn fárast yfir því, að það skuli nú á síðari árum hafa verið þannig, að mörg stærstu málin hafa, sumpart vegna þess, hve þau hafa verið erfið, orðið að undirbúast beinlínis í samráði við þm, á Alþingi og þingflokkana, þannig að þingfl, hafa orðið að fylgjast með þessum málum á undirbúningsstigum þeirra. Þetta finnst þeim, sem þennan hugsunarhátt hafa, alveg ótækt, og þeir kalla það Alþingi aðgerðalaust og einskis nýtt, sem vinnur að því að fá heildarmynd af því, hvernig raunverulega er ástatt í landinu, og á þátt í því að byggja upp till. um úrræði. Það er þetta, sem hæstv. dómsmrh. kallar að láta þingið sitja og bíða. Það er að sitja og bíða, að vinna þessi verk á Alþingi. Það er ekki talið viðeigandi.

En menn eiga að sitja annars staðar og bíða. Þingmenn eiga að sitja heima hjá sér og bíða eftir því, að aðrir ráði fram úr þessu. Það er hugsjónin.

Að lokum vil ég segja: Ég skora á forseta Alþ. að ganga hér í milli og reyna að koma því til leiðar, að það verði hyggilegri og heppilegri háttur hafður á þinghaldinu en orðið gæti, ef engar breyt. verða á stefnu stj. í þessu máli frá því, sem nú horfir. Ég skora á forseta Alþ. að gera þetta vegna Alþ. sem stofnunar. Ég álít, að forsetar Alþ. hafi í þessu efni miklar skyldur. Það má vel vera, að ríkisstj. hafi tilhneigingu til þess að líta þannig á, að það sé meiri friður að hafa Alþ. ekki sitjandi. Það er kannske ekki nema mannlegt, að þetta hvarfli að ráðherrum af og til og sú tilhneiging skekki jafnvel eitthvað í þeirra augum rétta mynd af þessu öllu saman. En þeir, sem eiga alveg sérstaklega að gæta sjónarmiðs Alþ. í þessu efni, eru forsetar þingsins. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta þessarar d., því að hæstv. forseti Sþ. á ekki sæti í þessari d.: Hefur verið ráðgazt við forsetana um þann sérstæða hátt á þingfrestun og vinnubrögðum í þinginu, sem komið hefur til mála, — ég segi ekki meira en: sem komið hefur til mála, samkvæmt þeim plöggum og ummælum, sem fram eru komin? Hefur verið ráðgazt við þá um þetta, og hver var þeirra afstaða í þessu, ef ráðgazt var við þá? En ef það hefur ekki verið ráðgazt við þá um þessi efni, þá ætla ég ekki nú að fella dóm um, hvað í því felst, heldur fara fram á það, eins og ég sagði áðan, alveg eindregið, að hæstv. forsetar þingsins gangi hér í milli og reyni að fá samkomulag um vinnuáætlun, sem er í betra samræmi við venjur þær, sem skapazt hafa á hv. Alþ., og þingræðisreglur en þær áætlanir, sem a.m.k. hafa hvarflað að sumum mönnum. Og einn liður í því að reyna að koma þessu á heppilegri braut væri sá, að hæstv. forseti þessarar d. yrði við óskum, sem komið hafa fram um að halda þessum fundi hér í hv. d. a.m.k. ekki miklu lengur áfram, fresta því að taka fyrir þau mál, sem eru á dagskránni, og í þess stað væri snúið sér að því að reyna að fá heppilegri vinnuáætlun. Það er þetta, sem ég eindregið skora á hæstv. forseta d. að eiga þátt í, enda er nú náttúrlega hvort sem er senn liðinn sá fundartími, sem kemur til mála á slíkum degi, og félli þetta þá allt saman. Og í ljós kæmi þá eftir helgina, hvort ekki hefur náðst um þetta haganlegt samkomulag.