30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þar sem allt er í óvissu um þinghaldið nú að þessu sinni, hvenær þinghlé verður gert, treysti ég því, að hæstv. landbrh. svari fyrirspurn, sem ég ætla að gera til hans, þó að hún sé ekki borin fram á formlegan hátt.

Eins og kunnugt er, hefur Búnaðarbankinn eða þeir sjóðir hans, sem lána til stofnlána, þ.e. ræktunarsjóður og byggingarsjóður, aðallega lánað að haustinu frá miðjum nóv. til miðs des. Það er ljóst, að þessir sjóðir geta ekki innt af hendi eðlilega lánastarfsemi, ef afgreiðsla lána á sér stað eftir þann tíma eða getur a.m.k. ekki hafizt upp úr þessum mánaðamótum, sem nú standa yfir, þar sem ársuppgjör bankanna fer fram strax um áramótin, og er því útlánastarfsemi ekki framkvæmanleg, ef hún hefst ekki a.m.k. strax í byrjun des.

Á s.l. vori, þegar láni því, sem vinstri stjórnin hafði undirbúið að tekið yrði í Bandaríkjunum, var skipt, var ákveðið, að ræktunarsjóður fengi af því láni 25 millj. kr. Þrátt fyrir þetta liggur nú ekkert fyrir um það, svo að mér sé kunnugt um, að bankinn geti hafið lánastarfsemi. A.m.k. var svo fyrir helgina, að ekki var það mögulegt, vegna þess að ekkert fé var fyrir hendi. Af þeirri ástæðu vil ég nú leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh, og treysti honum til þess að svara þessu, eins og ég tók fram áðan, þó að fsp. sé borin fram á þennan hátt:

1) Fær ekki ræktunarsjóður nú þegar þær 25 millj. kr. af bandaríska láninu, sem honum voru ákveðnar skv. 22. gr. yfirstandandi fjárlaga?

2) Fær ekki ræktunarsjóður þær tekjur, sem honum eru ætlaðar úr mótvirðissjóði, einnig nú þegar?

3) Verður byggingarsjóði Búnaðarbankans ekki séð fyrir fé, svo að hann geti afgreitt þær lánsbeiðnir, sem fyrir liggja hjá bankanum, sem munu nú vera ca. 10 millj. kr., og afgreiðslan geti farið fram fyrir áramót?

Ég treysti hæstv, landbrh. til þess að gefa þessar upplýsingar nú þegar, enda þótt fsp. sé borin fram á þennan hátt.