30.11.1959
Sameinað þing: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið venjan undanfarin ár, að Búnaðarbankinn hafi veitt lán úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði í byrjun des., frá 1.–15. des. Að þessu sinni mun bankinn vera að vinna að því, að lánastarfsemin geti farið fram á sama hátt og áður.

Í sambandi við fsp. hv. 3. þm. Vesturl. vil ég segja þetta, að Bandaríkjaláninu hefur seinkað, að enn hafa ekki verið teknar nema 3 millj. dollara í stað 6. Búnaðarbankinn hefur þess vegna ekki enn fengið 25 millj. kr. En ég get upplýst það, að 12½ millj. kr. verður bankinn búinn að fá ekki seinna en 10. des. Hann fær, að ég ætla, 1. des. 6½ millj. kr. og fyrir 10. des. 6 millj. kr. Ég get upplýst, að af mótvirðisfé, sem ræktunarsjóði er ætlað, hefur hann fengið á þessu ári 22 millj. kr., að ræktunarsjóðurinn á enn inni hjá Framkvæmdabankanum af þessu fé 5–7 millj. kr., og standa vonir til, að þetta fé verði greitt fyrir áramót, að bankinn hefur talsverðar vaxtatekjur af útistandandi ræktunarsjóðslánum, að Búnaðarbankinn fær til viðbótar þessu 12½ millj., þegar seinni hluti Bandaríkjalánsins hefur verið tekinn, og geri ég mér vonir um, að það þurfi ekki að dragast mjög lengi, með því að það mun verða reynt að fá Seðlabankann til þess að hlaupa undir bagga í bili.

Ég geri mér þess vegna vonir um, að ræktunarsjóður geti hafið lánastarfsemi sína í næsta mánuði á sama hátt og áður. Það hafði verið gert ráð fyrir því, að bankastjóri Búnaðarbankans gæfi mér skýrslu um lánsþörf ræktunarsjóðs að þessu sinni og kæmi til mín í morgun, en vegna þess að ég var á stjórnarfundi, gat ekki af því orðið.

Í sambandi við byggingarsjóð Búnaðarbankans er rétt að upplýsa það, enda þótt hv. 3. þm. Vesturl. hljóti að vera það ljóst, að byggingarsjóður Búnaðarbankans hefur búið við slæman hag að undanförnu. Og svo er einnig nú. Sérstaklega hefur aðstaða þessara sjóða, ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, versnað við það að þurfa að taka á sig yfirfærslugjaldið, 55% af erlendum lánum, sem bankinn hefur tekið. Það fara þess vegna talsverðar tekjur af þessum sjóðum árlega í það fram yfir það, sem gert var ráð fyrir, þegar þessi erlendu lán voru tekin. Ég vil einnig upplýsa, að það mun verða gert, sem unnt er, til þess að sjá svo um, að byggingarsjóðurinn geti innt hlutverk sitt af hendi nú ekki síður en áður.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjanda nægi þessi svör, um leið og ég segi, að það mun verða gert það. sem unnt er, til þess að þessir sjóðir geti hafið lánastarfsemi sína í byrjun næsta mánaðar.