02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3516 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af svari hæstv. dómsmrh., sem ég vil þakka honum fyrir. Mér þykir vænt um að heyra, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn sem komið er fallizt á þær skoðanir, sem fluttar voru í erindi Jónasar Haralz, og að hæstv. ríkisstj. sér ástæðu til þess að taka það fram, að hann hafi ekki að neinu leyti flutt þetta í samráði við hana.

Þá liggur hitt fyrir, sem ég talaði um og ég vil ekki taka til baka, að ég álit það taktleysi af ráðuneytisstjóra í efnahagsmrn. stjórnarráðsins að ræða um þessi mál, einmitt þegar þau eru önnur eins hitamál og nú er og álit, að það hafi verið mjög óheppilegt af honum sem embættismanni í þessari stöðu að gera slíkt. Þar með er ég ekki að banna honum að hafa sinar skoðanir, það er réttur hvers manns, en það er um leið skylda hvers embættismanns, í þeirri stöðu sem hann er, að kunna nokkra gát á sinni tungu. Hefði ráðuneytisstjóri fjmrn., Sigtryggur Klemenzson, verið beðinn um að tala af hálfu stúdenta um tollaálagningar á Íslandi á næstunni og tollatilhögun, þá efast ég um, að sá ráðuneytisstjóri hefði gert það eða honum hefði þótt viðeigandi að fara að ræða um það, hvað hann áliti, að ætti að verða af nýjum tollum, hærri tollum, lægri tollum eða slíku, í þeim tollalögum og fjárlögum, sem ætti að samþykkja næst.

Það var eins og ég því miður bjóst við, að hæstv. ríkisstj. og jafnvel fleiri í landinu mundu vilja líta svo á, að þessi maður hefði einhverja vísindalega þekkingu á efnahagsmálum til að bera. Það er einmitt það, sem skortir, og það er það, sem ég vildi alveg sérstaklega vara við. Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., að þessi maður hefur hlotið allmikinn frama erlendis. Það var nákvæmlega það sama með þann mann, sem kallaður var hingað heim fyrir 10 árum, 1950, dr. Benjamín Eiríksson, hálærður maður, hafði hlotið mikinn frama erlendis. Það var trúað á hann sem sérstakan sérfræðing. En það er bara sitt hvað að stúdera við háskóla í framandi löndum, þótt stórveldi séu og góðir háskólar, læra þar skólalærdóm og ætla svo að fara að gera tilraunir með, hvort þeir kunna þetta og hvort þeir hafa skilið það, á lífi íslenzku þjóðarinnar. Það er of dýr tilraunastöð fyrir skólapilta, þó að þeir hafi fengið doktorsnafnbót og sitt hvað annað slíkt. Og hæstv. ríkisstj. mætti læra af því. Það var ekki um annað talað hér fyrir 10 árum, 1950, þegar gengið var lækkað, heldur en þau vísu ráð dr. Benjamíns Eiríkssonar efnahagssérfræðings ríkisstjórnarinnar, tilkallaðs frá amerískum háskólum, amerískum alþjóðabanka og öðru slíku til þess að ráða fram úr efnahagsvandamálunum. Og hvað var gert? Það var gripið til ráða, sem sköpuðu vandræðaástand á Íslandi, sem seinkuðu þróun þjóðarinnar a.m.k. um 7 ár. Og hvað gerðu svo þessi yfirvöld, sem treystu þessum vísindamanni? Jú, þau hafa kúldað honum niður í einum banka í bænum við að búa til glerfjöll og kalla hann ekki oftar til ráðlegginga um efnahagsmál, fengu nóg af þessu eina. Og ég er hræddur um, að það verði eins, ef á að fara að eins nú. — Og út af því, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, að jafnvel sú hásæla vinstri stjórn hefði átt þátt í því að kalla hann hingað til landsins, – það er alveg rétt hjá hæstv. dómsmrh., og hann lýsti samþykki sínu á því, þó að hann væri annars ekki hrifinn af vinstri stjórninni. Það voru vissir hlutir, sem vissir flokkar í vinstri stjórn og stjórnarandstaðan þá virtist vera hjartanlega sammála um. En ekki hlaut vinstri stjórnin mikla blessun af þeim ráðleggingum, sem þessi efnahagsmálasérfræðingur gaf henni, þannig að ef það á að fara að reyna að telja almenningi trú um, að vegna þess að menn séu lærðir, hafi gengið á erlenda háskóla, hafi hlotið frama hjá útlenzkum alþjóðabönkum eða öðru slíku, þá er það ekki það, sem þarf til þess að gera líf íslenzku þjóðarinnar gæfusamt. En það er það, sem vantar í allra orðabók, þessara blessaðra hagfræðinga, þessara hálærðu skólapilta, sem kallaðir eru til. Þeir vita ekkert um lífsbaráttu þessarar þjóðar og hvernig þarf að búa að henni, til þess að hún geti lifað gæfusöm í sínu landi. Ég veit ekki betur en hæstv. viðskmrh. hafi sjálfur verið að lýsa því yfir, að hún hafi aldrei búið við betri kjör en nú og að við getum verið stoltir af því. En hún hefði ekki gert það, ef þessir menn hefðu komið nokkurs staðar nærri s.l. 20 ár til þess að reyna að hafa áhrif, þegar góð áhrif voru höfð í íslenzku þjóðlífi. Þeir hafa komið nærri til þess að spilla fyrir eða rýra það, sem gert var. En það getum við rætt undir öðrum dagskrárlið en hér utan dagskrár.