02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3518 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er aðeins til þess að taka fram eina eða tvær staðreyndir til viðbótar, en ekki í því skyni að hefja almennar deilur.

Fyrst varðandi Benjamín Eiríksson, þá er það mikill misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að það sé sérstök óvirðingarstaða að vera bankastjóri. Ég held, að það hafi aldrei þótt hér á landi, svo að það er síður en svo, að Benjamín hafi verið gerður að eins konar próventukarli með því að vera settur yfir þá stofnun, sem hann nú stjórnar. Þar að auki er rétt, að það komi ljóst fram, að eftir því sem ég veit, þá er Benjamín stöðugt kallaður til við lausn hinna vandasömustu mála. Á þeim stutta tíma, sem ég hef nú verið í stjórn, hef ég heyrt vitnað til hans ráðlegginga, og ég vissi, að hann var í sendiförum og í ráðum fyrir vinstri stj., og ég vissi, að hann var einn af ráðunautum þeirrar stj., sem ég sat í fyrir árið 1956. Það er líka algerlega rangt, að tillögur dr. Benjamíns hafi orðið til að seinka þróun hér á landi um sjö ár, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, um leið og hann talar um hinar miklu framfarir, sem orðið hafi hér á síðustu 20 árum. Það liggja þvert á móti fyrir ótvíræð og óhnekkjanleg gögn um það, að framleiðsluaukning var hlutfallslega meiri á árunum 1952, 1953, 1954 og 1955, meðan ráðleggingar dr. Benjamíns fengu að njóta sín til fulls, heldur en eftir að áhrif verkfallanna miklu frá 1955 komu til, sem vinstri stj. síðan eyddi meginkröftum sínum til að ráða við og henni tókst aldrei til hlítar. Þetta sést, ef skýrslur eru skoðaðar. Þetta var rakið nú í kosningabaráttunni. Þar kom fram nokkur leiðrétting og bent á það, að sennilega mundi framleiðsluaukning hafa verið eitthvað meiri síðustu árin en talið hafi verið í þessum bráðabirgðaskýrslum. En það var þó ljóst, að á þeim tímum, sem segja mátti, að ráðleggingar dr. Benjamíns væru í fullu gildi, var framleiðsluaukningin hlutfallslega meiri en hún hefur orðið seinna. Er nauðsynlegt, að menn átti sig á þessu, og fullyrðingar hv. 3. þm. Reykv. eru þess vegna gersamlega rangar, hvíla á algerum misskilningi.

Ég met hv. 3. þm. Reykv. mjög mikils og tel hann fróðan mann, þó að ég sé honum ósammála í stjórnmálum. Hins vegar get ég ekki talið hann sem æðsta úrskurðarvald í hagfræði eða hverjir séu fremstu hagfræðingar Íslands. Ég veit ekki til þess, að hann hafi umfram okkur hina nokkra sérstaka hæfileika til þess að dæma um það. En látum það vera. En ef hann vill gera sjálfan sig að hæstarétti í þeim efnum, verður hann að vera eitthvað samræmari sjálfum sér í fullyrðingunum og dómunum en hann hefur verið. Ég man ekki, hvort það var heldur 1946 eða 1950, sem þessi ágæti hv. þm. hélt því mjög að okkur borgurum í Reykjavík, að við ættum að velja Jónas Haralz sem bæjarfulltrúa, þá gersamlega óreyndan mann, en vegna hans afburða hagfræðiþekkingar átti að taka hann ungan, nýkominn frá skólaborðinu, af því að hann hefði aflað sér betri hagfræðiþekkingar en flestir aðrir. Þetta var boðskapur hv. þm. þá gagnvart okkur Reykvíkingum. Það létu margir orð hins merka manns hafa áhrif á sig, og skjólstæðingur hans var kosinn í bæjarstjórn. Síðan starfaði hann nokkurn tíma þar, starfaði síðan að margvíslegum málefnum hér á landi og hefur síðan unnið hjá alþjóðastofnunum. Það tjáir engum að halda því fram, að sú reynsla, sem Jónas Haralz hefur fengið af margvíslegum störfum innanlands og utan, eftir að hann var búinn að taka þau ágætu próf, sem hv. 3. þm. Reykv. taldi nóg, til þess að hann yrði kosinn bæjarfulltrúi Reykjavíkur, þá kornungur, eigi að gera hann með öllu ófæran og að nú eigum við ekkert mark að taka á honum, en við áttum að trúa á hvert orð, sem hann sagði, þegar hann kom alveg nýsleginn frá prófborðinu.

Það hafa einmitt fáir menn, sem ég hef séð, ef svo mætti segja, þroskazt mannvænlegar en Jónas Haralz og sannað það í verki, að það er allt annað að gleypa ómeltar einhverjar kenningar eða læra af lífinu, eins og þessi ágæti maður bersýnilega hefur gert. Það er sem sagt ekki lífslærdómurinn, sem hv. þm. í raun og veru metur, þó að hann segi svo. Það er aðeins skólalærdómurinn, sem hann vill taka mark á, því að hann vill ekki gera neitt úr þeirri miklu reynslu, sem þessi maður hefur fengið umfram flesta aðra.

Þar fyrir utan vil ég svo taka fram, að ríkisstj. sá ekki ástæðu til af sinni hálfu að taka neitt fram um þessa ræðu Jónasar Haralz. Ég tek það bara fram til þess, að orð hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann vitnaði í mín orð, verði ekki misskilin. Hér hefði engin yfirlýsing um þetta efni verið gefin, ef hv. 3. þm. Reykv. hefði ekki borið fram alveg ákveðnar spurningar, og þá var sjálfsagt að svara þeim satt og rétt eins og málið liggur fyrir. Það mun vera með ríkisstj. eins og með aðra landsmenn, að við munum meta það, sem Jónas Haralz hefur haldið fram, eftir rökum hans málstaðar.