02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. dómsmrh, vildi bera brigður á, að þau hefðu orðið til að draga úr þróun íslenzkrar framleiðslutækni, þau ráð, sem Benjamín Eiríksson gaf 1949 og 1950. Ég skal sanna það fyrir honum. Íslenzk framleiðslutækni var stóraukin á árunum 1944–48. Á þeim árum og næstu árum á eftir komu í gagnið líklega um 40 togarar, sem keyptir höfðu verið, allmörg hundruð báta, verksmiðjur, sem reistar höfðu verið, og vélar, sem keyptar höfðu verið inn. Og það var þessi framleiðsluaukning, sem varð á þessum árum, sem gaf grundvöllinn að því, að það fór batnandi framleiðslan á Íslandi á árunum frá 1950 og þar á eftir. Grundvöllurinn var lagður á þessum 5–6 árum.

Það, sem Benjamín Eiríksson lagði til, þegar hann var kallaður hingað, var að láta þetta allt saman stjórna sér sjálft og að stjórnmálamenn væru ekki að skipta sér af því, að mótorbátar væru keyptir, togarar keyptir, vélar keyptar eða annað slíkt til landsins. Þetta skyldi allt saman fá að stjórna sér sjálft og fjármagnið mundi fara þangað, sem nauðsynlegast væri, það yrði bara að gefa allt frjálst. Hver varð afleiðingin? Á 6–7 árum eru keyptir til landsins 5000 bílar, af því að menn, sem höfðu fjármagn, vildu gjarnan leggja fjármagn í bíla, — enginn togari, ekki einn einasti til viðbótar þeim flota, sem fyrir var. Þetta var afleiðingin, þegar það átti að stjórna sér sjálft, hvert fjármagnið streymdi, — sama kenningin sem Jónas Haralz er með í dag.

Þess vegna þarf ég ekki nema að minna á þetta, af því að sjálfur átti hæstv. dómsmrh. sinn hlut að því að leggja þennan grundvöll að framleiðsluaukningu Íslands, sem Ísland lifir á enn þá, — ég þarf ekki annað en minna á það, þá sjá menn, hvað það er, sem þjóðin hefur lifað á síðan. Og ekkert af þeim togurum og enginn af þeim bátum hefðu verið keyptir, ef árið 1944 hefði verið farið eftir ráðum Benjamíns Eiríkssonar eða Jónasar Haralz, — ekki einn einasti.

Í öðru lagi, viðvíkjandi Jónasi Haralz, að hann hefði verið að mínu áliti nýtur í bæjarstjórn hér í gamla daga. Ég veit nú ekki, hvort það þarf svo geysilegar „kvalifikasjónir“ til þess að vera í bæjarstjórn í Reykjavík. Það þarf náttúrlega allnokkrar, og ýmislegt er gott um þennan mann, ég þekki hann vel og veit það ósköp vel. En svo gerðist bara þessi leiði hlutur, að hann fór að fljúga til Ameríku. Og það verður stundum svoleiðis með Ameríku, eins og er yfirleitt með voldugt peningavald, að menn spillast af því að koma í samband við það. Og lífslærdómurinn, sem við þurfum að fá, það er lífslærdómurinn af að starfa hérna á Íslandi, gera íslenzkt líf, gera mannlíf hér á Íslandi betra og gæfusamara en það var, en ekki láta gera líf þeirra manna, sem hafa trúað okkur fyrir sinni framtíð, að tilraunadýri, svo að segja, fyrir kenningar, sem ungir menn hafa lært við volduga, útlenda háskóla í ríku umhverfi, hjá þjóðum, sem hentar allt annað en okkur Íslendingum hentar.