02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þær ráðstafanir og aðgerðir, sem gera þarf í efnahagsmálum þjóðarinnar, krefjast alllangs undirbúnings, eins og ég geri ráð fyrir að allir hv. þm. séu sammála um. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að væntanleg frumvörp ríkisstj. varðandi þau mál verði tilbúin og lögð fyrir Alþ. fyrr en eftir áramót. Af þessum ástæðum hefur verið fram borin till. um þingfrestun. Fjárlög ríkisins standa í nánu og órjúfandi sambandi við efnahagsráðstafanirnar. Það er því ljóst, að þær munu hafa veruleg áhrif til stórfelldra breyt. á fjárlagafrv. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að óhjákvæmilegt verði og ekki aðeins óhjákvæmilegt, heldur sjálfsögð og skynsamleg vinnubrögð að semja nýtt frv. til fjárl. fyrir árið 1960, sem yrði þá samið með hliðsjón af hinum væntanlegu efnahagsaðgerðum. Þetta mál liggur því þannig fyrir, að ég geri ráð fyrir, að þegar Alþ. kemur saman að nýju og lögð verða fyrir það frumvörp varðandi efnahagsráðstafanir, þá verði einnig lagt fyrir þingið nýtt frv. til fjárl. Ég tel miklu eðlilegra, að fjárlagaræðan fari fram þá heldur en nú, áður en þingi verður frestað.