02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. fjmrh. svaraði spurningu minni þannig, að því er mér virtist, að fjárlagaræðan mundi ekki verða haldin nú og að þingi mundi verða frestað, án þess að fjárlagaræðan væri haldin. Og hann vildi afsaka þetta fordæmalausa tiltæki með því, að svo gæti farið, að það yrði að semja nýtt fjárlagafrv.

Ég hygg, að hæstv. fjmrh. hljóti að vera það alveg ljóst, að það er til þess ætlazt af honum, að hann gefi Alþingi þær upplýsingar, sem hann hefur um efnahagsmálaástand landsins og um ástæður ríkissjóðs sérstaklega. Og það er ætlazt til þess, að hann geri það núna og hafi um það engin undanbrögð. Það stendur alveg skýrt í stjórnarskránni, að það skuli leggja fjárlög fyrir í þingbyrjun, og þetta er ekkert málamyndaákvæði, sem er ætlað til þess, að menn skjóti sér undan því á þann hátt að leggja fram frv. og láta ekki fara fram umr. um það, heldur er þetta ákvæði fullkomlega einn af hyrningarsteinunum í okkar þjóðskipulagi. Þetta hygg ég, að hæstv. fjmrh. sé rétt að gera sér ljóst og að það er aðeins gert til málamynda að leggja frv. fyrir, ef 1. umr. fjárlaganna fer ekki fram. Og það afsakar ekki þetta, þó að það kæmi til mála að semja nýtt fjárlagafrv., því að Alþingi þarf að fá að vita núna og á kröfu á því að fá að vita núna, hvernig ástatt er um efnahagsmálin.

Hæstv. fjmrh. gæti t.d. gefið okkur upplýsingar um það, hvernig ríkisbúskapurinn stendur, eins og venja er að gera við þetta tækifæri. Það er honum skylt að gera, og það á hann að gera. Hæstv. fjmrh. er líka alveg skylt að gefa Alþingi skýrslu um það, á hvaða skýrslum og hvaða tölum hæstv. forsrh. hefur byggt þá fullyrðingu sína, sem þegar er komin fram í stjórnmálafélagi hér í bænum, en ekki á Alþingi, — ekki á Alþingi, — að það vanti 250 millj. kr., til þess að ríkisbúskapur geti staðizt næsta ár og útflutningssjóðurinn. Hæstv. fjmrh. er skylt að gefa upplýsingar um þetta hér á Alþingi, og ég mótmæli því algerlega þessum vinnubrögðum, sem fyrirhuguð eru af hendi hæstv. fjmrh„ og tel þau móðgun við Alþingi. Ég tel það móðgun við Alþingi, ef hæstv. fjmrh. dettur í hug að senda Alþingi heim án þess að gefa því skýrslu um efnahagsmálin við 1. umr. fjárlaganna. Og það afsakar hann ekki í einu eða neinu, þó að stjórnin hafi ekki framtíðartill. sínar tilbúnar, því að það er skylt að gefa þinginu upplýsingar um staðreyndir í þessum málum, hvað sem því líður. Það getur enginn krafizt þess, að hæstv. ríkisstj. gefi yfirlýsingar um þá stefnu, sem hún er ekki búin að móta, eða um þau úrræði, sem hún er ekki búin að gera sér grein fyrir, en hins er hægt að krefjast, og við eigum kröfu á því, að þingsköpum og stjórnarskrá sé fylgt, fjárlögin séu ekki aðeins lögð fram til málamynda, heldur fari 1. umr. fram. Og við sættum okkur ekki við það þegjandi, að félögum úti í bæ séu gefnar upplýsingar af hæstv. ríkisstj. um efnahagsmál landsins, en á Alþingi þegi fjmrh. þunnu hljóði. Við sættum okkur ekki við slíkt án þess að mótmæla því.