02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3524 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í stjskr. Íslands segir, að frv. til fjárlaga skuli leggja fyrir Alþ., þegar er það er saman komið. Þessu ákvæði hefur að sjálfsögðu verið fullnægt með því að leggja fjárlagafrv. það, sem prentað hefur verið og útbýtt, fyrir Alþ. Það frv. var samið, fullgert og prentað, áður en núverandi ríkisstj. tók til starfa. Það segir hvergi í þingsköpum né í stjskr. né öðrum lögum, að 1. umr. fjárl. skuli fara fram á einhverjum tilteknum tíma eftir þingsetningu, og þetta hefur verið með ýmsum hætti, stundum hefur 1. umr. fjárl. farið fram nokkrum dögum eftir að frv. var útbýtt, stundum hefur það dregizt nokkrar vikur. Um þetta eru sem sagt engin ákvæði í lögum og engin föst venja.

Varðandi 1. umr. fjárlaga fyrir árið 1960, þá geri ég ráð fyrir, að hún geti farið fram á fyrstu dögum eftir þinghléið, m.ö.o., að 1. umr. fjárl. fyrir árið 1960 geti farið fram innan — við skulum segja þriggja vikna af þinghaldinu. Það er gert ráð fyrir því, að þingfrestun verði nú í vikulokin, og hefur það þá staðið í tvær vikur, og áður en vika er liðin af þinghaldinu, eftir að þing kemur saman að nýju, þá vænti ég, að 1. umr. fjárl. geti farið fram.

Varðandi fsp. síðasta hv. ræðumanns um afgreiðslu fjárlaganna vil ég taka það fram, að ég vænti þess og vona, að fjvn. vinni einnig að því, að fjárlfrv. geti hlotið endanlega afgreiðslu í Alþ. fyrir febrúarlok, og við það er miðað það frv. til laga um bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði, sem liggur fyrir hv. Alþ. og hefur verið afgr. frá Ed. Ég ætla, að einn mánuður nægi Alþ. til eðlilegrar og rækilegrar meðferðar og afgreiðslu á fjárlagafrv., og þó að fjvn. hafi haft ákaflega misjafnlega langan tíma til meðferðar frv., stundum marga mánuði, stundum örfáar vikur, þá ætla ég, að það geti talizt mjög eðlileg afgreiðsla, ef vel er að unnið og frv. verður lagt fyrir Alþ. í janúarlok, — þá ætla ég, að það mættu teljast eðlileg vinnubrögð og nægilega ýtarleg athugun á því, þó að það yrði afgreitt í lok febrúarmánaðar. Það eru því getgátur einar, þegar hv. síðasti ræðumaður vill gefa í skyn, að fjárlfrv. verði ekki afgreitt fyrr en einhvern tíma í vor eða jafnvel á miðju ári. En hins vegar vil ég þó geta þess, að e.t.v. miðar hann þarna við sitt eigið fordæmi, því að það kom fyrir, meðan hann var form. fjvn. í tið hinnar svonefndu vinstri stj., að fjárl. voru ekki afgr. fyrr en í maímánuði eða ég ætla í maílok. Slíkt er vissulega ekki til fyrirmyndar, og ég vil taka það skýrt fram, að að sjálfsögðu verður að vinna að því, að fjárl. séu afgr. fyrir áramót, ef þess er nokkur kostur. Hins vegar hafa stjórnmálin verið með þeim hætti á þessu ári, tvennar kosningar og stjórnarmyndun ekki fyrr en í næstsíðasta mánuði ársins, að enginn maður getur með eðlilegum rökum ætlazt til þess, að unnt sé að afgr. fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár fyrir áramót.

Varðandi upplýsingar um fjárhag ríkisins á þessu ári og horfur á næsta ári, sem hv. 1. þm. Austf. lýsir eftir, vil ég taka það fram, að yfirlit yfir fjárhagsafkomu ríkisins á þessu ári verður að sjálfsögðu gefið, strax þegar þingið kemur saman að nýju, og ég ætla, að það séu heppilegri vinnubrögð og fáist réttara og nákvæmara yfirlit, ef það er gefið í janúarmánuði, heldur en nú í byrjun desember. Þetta mál hef ég sérstaklega rætt við ráðuneytisstjórann í fjmrn. og veit, að hann er sammála mér um það.

Varðandi yfirlit um framtíðarhorfurnar, þá ætti hv. 1. þm. Austf. að vera það ljóst, að slíkt yfirlit eða áætlanir er erfitt að gera nú. En þær tölur, sem hæstv. forsrh. hefur nefnt, eru miðaðar við það, að ef á að halda áfram óbreyttri skipan, þeirri sem nú gildir, um útflutningsuppbætur og annað, þá mundi þurfa ekki minna en milli 2 og 3 hundruð millj. kr. á næsta ári til þess að tryggja útflutningssjóð og ríkissjóð. Að fara að leggja fyrir Alþ. nú sundurliðaða áætlun um þetta atriði tel ég ástæðulaust, þegar af þeirri ástæðu, að það er yfirlýst stefna ríkisstj. að breyta frá þeirri skipan, sem nú gildir, og taka upp nýtt kerfi, fjármála- og efnahagskerfi. Ég sé því ekki, að þessar kröfur hv. 1. þm. Austf. hafi við nein rök að styðjast.