02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3526 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Það eru nokkur orð út af þessum undanbrögðum hæstv. fjmrh. Hann hefur lýst því hér yfir, að hann muni eiga þátt í því, að Alþingi verði frestað, án þess að 1. umr. fjárlaganna fari fram og án þess að hann gefi það yfirlit um fjármálin, sem skyldugt er að gefa í byrjun þings, því að það er ekkert annað en útúrsnúningur úr ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem hér að lúta, að það sé að uppfylla allar skyldur í þessu efni að fleygja hér inn einhverju fjárlagafrv. til málamynda, en gefa engar upplýsingar jafnframt. Það er að fara í kringum skyldur sínar að gera slíkt.

Hæstv. ráðh. notar helzt þau undanbrögð, að það muni verða gleggra að gefa yfirlit um afkomu ríkissjóðs eftir áramótin fyrir heilt ár, og vísar í ráðuneytisstjórann í fjmrn. í því sambandi. Ég held, að hann ætti ekki að byrja ráðherraferil sinn með því að skjóta sér á bak við ráðuneytisstjórann, og það er ekki góður siður.

Hitt vil ég svo segja í þessu sambandi, að það, sem við þurfum að vita, er, hvernig ríkissjóður stendur núna, og það þurfum við að vita núna strax til þess að reyna að skapa okkur skoðun um efnahagsástandið. Okkur er ekki nóg, að hæstv. ráðh. viti eitthvað um þetta. Alþingi á heimtingu á að fá að vita það, og þjóðin á heimtingu á að fá að vita þetta núna. Og venjan er ekki sú að bíða með slíka skýrslu, þangað til árið er liðið. Venjan er sú að gefa slíka skýrslu á haustin um það, hvernig þá standi og hvernig horfur séu um þessi efni. Það er það, sem hæstv. ráðh, vill ekki gera.

Þá segir hæstv. ráðh., og það kemur fyrst fram greinilega núna, svo að það er ofur lítið gagn að því að pumpa hæstv. ráðh., — hann segir, að hæstv. forsrh. hafi gefið upplýsingar í Varðarfélaginu um, að það vantaði 200–300 millj. kr. að minnsta kosti. Nú er sem sé komið aftan við „ekki minna en“ og að óbreyttum uppbótum.

Hæstv. fjármálaráðherra segir, að þetta sé mönnum bara alveg nóg. Menn hafi ekki við meira að gera, það sé engin ástæða til þess fyrir þingmenn að vera að kíkja nokkuð í þetta, þeir geti farið heim, þetta hafi verið sagt í félaginu, það sé engin ástæða til þess að gefa mönnum þetta sundurliðað.

En hvað finnst hv. þingmönnum? Finnst þeim þetta nóg? Ætli það væri ekki fróðlegt að vita, við hvers konar fjárlagaafgreiðslu hæstv. ráðherra miðar þessa niðurstöðu? Er það við þetta málamyndafrv., sem hér liggur fyrir, eða eitthvað allt annað? Og hvernig er það útflutningssjóðsuppgjör, sem þetta byggist á?

Það er augljóst af þessum undanbrögðum og vífilengjum hæstv. ráðh., að hann vill halda fyrir Alþingi þeim upplýsingum, sem hann hefur um efnahagsmálin, og því mótmæli ég. Honum er þvert á móti skylt að gefa hér þessar upplýsingar, og hann hefur enga afsökun í því, þó að hann ef til vill hafi það í huga að leyna þessum upplýsingum nú til bráðabirgða af einhverri vorkunnsemi við sjálfan sig og aðra út af því, hvað þeir sögðu þjóðinni um þessi mál fyrir nokkrum vikum. Þeir eru að sjálfsögðu grunaðir um að þora ekki að segja sannleikann vegna þess, hvað þeir sögðu þá, en það er engin afsökun.