03.12.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3528 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hér var nýlega spurzt fyrir um, hvort það væri ekki ætlun hæstv. ríkisstj. að leggja fyrir Alþingi brbl. þau, sem sett voru um landbúnaðarverðlag á þessu hausti. Þrátt fyrir nokkra eftirgangsmuni fengust engin svör um þetta frá hæstv. landbrh. Á hinn bóginn hefur mér verið sagt, að hæstv. fjmrh. hafi lýst því yfir hér um nóttina í Ed., að brbl. mundu verða lögð fyrir, fyrir þingfrestunina. Hversu nákvæmlega hann greindi um fyrirhugaða meðferð málsins, er mér ekki alls kostar kunnugt.

Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Er það ákveðið nú, hefur stjórnin breytt um stefnu í þessu máli og hefur hún nú ákveðið að leggja málið fyrir Alþingi, áður en þingi verður frestað? Og vil ég þá enn einu sinni skora á hæstv. landbrh. að leggja málið fyrir strax, láta útbýta því strax í dag, svo að það geti komið þegar á dagskrá, því að væntanlega er hæstv, landbrh. ljóst, að það verður ekki aðeins að útbýta málinu, heldur verður líka að taka það á dagskrá, þannig að þingmenn geti tekið afstöðu til málsins, áður en þingfrestun á sér stað. Með því einu móti er hægt að uppfylla þingræðisvenju og stjórnarskrárskyldu, því að hitt væri að ganga á snið við ákvæði stjórnarskrárinnar, ef það væri meiningin að fleygja þessu frv. á borðin, um leið og þm. eru látnir fara heim. Ég vil ekki ætla hæstv. ríkisstj., að það sé meiningin, en vil þó vegna þess, sem um þetta mál hefur verið rætt hér í hv. Alþingi, og að gefnu tilefni spyrja hæstv. landbrh., hvort það sé nú ákveðið, að þetta mál verði lagt fyrir og þá nógu snemma til þess, að þm. geti tekið afstöðu til þess, áður en þingfrestunin verður ákveðin. En það er vitaskuld á valdi hæstv. ríkisstj., ef þingmeirihlutinn, sem ríkisstj. styðst við á annað borð, er þannig kominn, að hann ætli sér að samþ. þingfrestunina yfir höfuð, eins og hún er lögð fyrir.

En spurningin er nú þessi: Hefur stjórnin ákveðið að leggja brbl. fyrir og þá hvenær? Og er það þá ekki tryggt, að þannig verði á málinu haldið, að Alþingi geti tekið afstöðu til þess fyrir frestunina? (Forseti: Hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur.) Hann hefur skyndilega horfið, hæstv. landbrh. Ég sá, að hann var í sætinu, þegar ég fór í ræðustólinn. Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann biðji hæstv. landbrh. að mæta á fundinum, og mun ég þá fúslega endurtaka fsp., svo að hann geti heyrt hana. Ég beini þessu til hæstv. forseta.

Ég beini hér fsp. til hæstv. landbrh., sem ég neyðist til að endurtaka, vegna þess að hæstv. landbrh. var ekki viðstaddur. Ég rifjaði upp að mönnum væri talsvert mikið í mun að vita, hvort það er ekki ætlun hæstv. ríkisstj. að leggja brbl. um afurðaverðið fyrir Alþingi. Ég minnti á, að hæstv. landbrh. hafði um þetta mjög óljós ummæli á dögunum, þegar þetta var rætt í sameinuðu Alþingi. En á hinn bóginn hef ég þær fregnir úr hv. Ed., að hæstv. fjmrh. hefði lýst því þar yfir, að brbl. yrðu lögð fyrir, áður en þingfrestun ætti sér stað, og mundi þetta vottur þess, að hæstv. ríkisstj. hefði breytt fyrri fyrirætlunum í þessu efni. Af þessu tilefni spurðist ég fyrir um það hjá hæstv, landbrh., hvort þetta væri rétt, að stjórnin hefði nú ákveðið þetta, skoraði á hann að láta þá frv. koma fram strax, láta útbýta því í dag, til þess að það gæti komið fljótlega á dagskrá og örugglega áður en þinginu væri frestað, þannig að Alþingi gæti tekið afstöðu til þess.

Ég vil ekki trúa því fyrr en í síðustu lög, að hér séu nokkur brögð í tafli, þannig t.d., að það væri ætlunin að fleygja þessu frv. á borðið hjá mönnum, um leið og þeir væru látnir fara heim. En ef sá háttur væri á hafður, þá væri hér verið að brjóta alla þingvenju og sniðganga ákvæði sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Skora ég á hæstv. ráðh. að gefa um þetta skýrar yfirlýsingar og láta málið koma strax fyrir.