03.12.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3530 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Aðvaranir hv. þm. eru lofsverðar, ef þær eru vel og rétt meintar. Ég hygg, að hv. þm. viti vel, að það, sem hann var að fullyrða hér áðan, hefur ekki við nein rök að styðjast. Þegar hann er að tala um lagabrot og stjórnarskrárbrot, þá veit þessi þm. betur af langri þingreynslu. Það, sem ég sagði hér áðan, er, að það mun verða farið að lögum í þessu efni, stjórnarskráin verður ekki brotin, ekkert lagabrot mun eiga sér stað. Ég get upplýst hv. fyrirspyrjanda um, að það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði í Ed., að þetta frv. verður lagt fram fyrir þingfrestun. En það er eins og það þurfi að margendurtaka það sama, til þess að hv. framsóknarmenn taki það til greina, ef það snertir þessi margumtöluðu brbl. Það er eins og þessir hv. menn séu svo bráðlátir í að fá málið fram til þess að geta farið að deila og rífast um það.

Ég get látið hv. Alþingi vita af því, að það eru samningaumleitanir hafnar á milli neytenda og framleiðenda varðandi þetta mál. Ég ætla, að það væri heppileg lausn, ef það tækist að fá sættir í málinu, sem báðir aðilar gætu unað við, og það væri eðlilegra en margra daga rifrildi um málið.

Ég veit, að hv. fyrirspyrjandi efast ekki um það með sjálfum sér, að þannig verður haldið á þessu máli, að hlutur þeirra, sem hann þykist bera mest fyrir brjósti, þegar hann er úti í sveitum, verður ekki fyrir borð borinn, enda þótt Tíminn og hann og hans flokksmenn séu stöðugt að gefa í skyn, að hér verði einhver svik höfð í frammi.

Ég tel ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál að svo stöddu. Ég ætla, að það, sem ég nú hef sagt, sé fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda og aðra þá, sem hafa óskað eftir svörum á sama hátt og hann.