03.12.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Nú hefur það verið togað upp úr hæstv. ráðh., að það sé rétt, sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir í Ed., að brbl. verði lögð fyrir þingið. En ekki vill hæstv. ráðh, lofa því, að þannig verði á málinu haldið, að þingið geti tekið afstöðu til þess fyrir þingfrestunina. Um það vildi hæstv. ráðh. ekkert segja. Hann sagði bara, að ég skyldi ekki hafa neinar áhyggjur, og það, sem ég hefði sagt um það, að málsmeðferð gæti orðið í þessu efni óviðfelldin og dæmalaus, það væri alveg ástæðulaus ótti, að slíkt gæti komið til mála.

En ég vil bara spyrja: Er það skoðun hæstv. ráðh. á þingræði, og er það skoðun hv. þm. yfirleitt á eðlilegri framkvæmd þingræðis, að það sé hægt að sætta sig við, ef sá háttur verður á hafður, að þetta mál verði lagt hérna á borðin hjá okkur, um leið og við förum heim, en það verði ekki tekið á dagskrá og ekki rætt og engin atkvgr. um það, síðan, þegar þingið er farið heim, gefi ríkisstj. út ný brbl. um þessi efni eftir sinu höfði? Er þetta það, sem hæstv. landbrh. telur að sé að fara eftir réttum þingræðisreglum og af svona lagaðri málsmeðferð skuli þm. engar áhyggjur hafa? Ég spyr. Eða vill hæstv. ráðh, lýsa því hér yfir, að það verði séð um, að málíð komi hér til meðferðar í þinginu? En ef það kemur hér til atkvgr., þá verður það fellt, svo framarlega sem þm. fara eftir því, sem þeir lofuðu fyrir kosningarnar. Vill hæstv. ráðh. lofa því, að málið komi hér til atkvgr., og vill hann lofa því, að það verði ekki gefin út brbl. um afurðamál landbúnaðarins í þinghléinu? Vill hann lofa þessu tvennu?

Að ég beri traust til hæstv. ráðh. og þeirra, sem að þessu standa öllu saman með honum, að þeir muni ekki halla á bændur landsins, það, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta, er auðvitað sagt í gríni, þó að honum sé ekki tamt að gera að gamni sínu. Því fer svo alls fjarri, að ég hafi traust á honum í því efni, að það hefur ætíð farið svo, að þegar þessi öfl, sem að honum standa, hafa farið með þessi mál, þá hefur einmitt verið sérstaklega gengið út úr götu til þess að halla á bændastéttina, eins og byrjað er á með þessum brbl., sem hæstv. landbrh. ber auðvitað ábyrgð á alveg eins og Alþfl., þó að hann hafi verið að reyna að fela sig á bak við hann.

Um Sjálfstfl. er það að segja í þessu sambandi, sem einu sinni hefur verið sagt um hann áður, þegar hann ætlaði að fela sig á bak við Alþfl., að hann er of stór til þess, hann stendur alls staðar út undan, og þess vegna sést hann, þó að hann ætli að standa á bak við.