03.12.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ein af þeim röksemdum, sem hefur verið haldið uppi af hálfu stjórnarinnar og hennar fylgismanna fyrir þingfrestuninni, er sú, að þingfrestunin muni hafa verulegan sparnað í för með sér. Og ég má segja, að frá því hafi verið sagt í sumum stjórnarblöðunum, að sparnaðurinn á þingfrestuninni muni nema allt að 800–900 þús. kr. Nú er hv. þm. það kunnugt, að hvað laun þeirra sjálfra snertir, þá verður enginn verulegur sparnaður í sambandi við þingfrestunina vegna lagaákvæða, sem um það gilda, og þarf ég ekki frekar að minnast á það atriði. Ef þar af leiðandi ætti að vera um einhvern sparnað að ræða af þingfrestuninni, þá væri það í sambandi við það, að því starfsfólki, sem vinnur hér við þingið og ekki er fastráðið, væri sagt upp störfum einhvern tíma, meðan þinghlé stæði yfir. Nú held ég, að öllum þm. sé það hins vegar kunnugt, að þetta væri mjög miður ráðið. Margt af þessu fólki hefur áreiðanlega afsalað sér einhverjum öðrum störfum til þess að geta unnið hér og reiknað með því að hafa hér fast starf í nokkuð ákveðinn tíma, og þar af leiðandi væri óeðlilegt að láta það hætta störfum. Sumt af þessu fólki er líka búið að vera hér lengi og er orðið vant störfum hér, og gæti vel svo farið, að þingið missti af því, ef það væri látið hætta nú um eitthvert skeið.

Þess vegna vildi ég, í tilefni af þessu sparnaðartali, sem hefur komið fram hjá stjórnarsinnum, spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh., hvort það hafi nokkurn tíma verið meiningin að ætla að fara inn á þá sparnaðarleið, sem ég minni hér á, að láta starfsfólk við þingið hætta störfum þann tíma, sem þingfrestunin stæði yfir. Það teldi ég mjög miður ráðið af þeim rökum, sem ég hef þegar leitt fram, og þess vegna teldi ég æskilegt, ef hæstv. fjmrh. vildi upplýsa, hvort ríkisstj. hefði nokkrar fyrirætlanir í þessum efnum.

Ég býst nú við, að hæstv. fjmrh. telji sig þurfa að fylgjast nokkuð með því, hvernig útgjöldum ríkisins er háttað, og að það mundi ekki vera farið inn á sérstakan sparnað gagnstætt venjum í þessum efnum, nema því aðeins að það hefði verið haft samráð við hann. Ef það er hins vegar þannig, að hæstv. fjmrh. víkur því frá sér að svara þessari fsp. og telur, að það heyri undir þingið eða forseta þingsins að svara því, þá skal ég til samkomulags við hann breyta um þann aðila, sem ég beini fsp. til, og beini þess vegna þeirri fsp. til hæstv. forseta Sþ., hvort það hafi nokkrar ráðagerðir verið uppi um þau efni, sem ég minntist hér á, að láta það fólk hætta störfum við þingið, sem er hér ráðið um þingtímann, vegna þingfrestunarinnar.