07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ríkisútvarpið flutti í fréttatíma í gær þau mjög gleðilegu tíðindi, að ameríska liðinu á Keflavíkurflugvelli yrði fækkað um 1300 manns. Ég vil leyfa mér í sambandi við þessa frétt að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., í fyrsta lagi, hvort þessi frétt sé ekki rétt, sem mér skilst þegar að hann hafi staðfest gagnvart fréttastofu ríkisútvarpsins, í öðru lagi, hverjar ástæður séu um þessa fækkun, hvort þetta sé til komið fyrir aðgerðir af hálfu hæstv. ríkisstj. í þá átt að byrja að framfylgja ályktun Alþingis frá 28. marz 1956 eða hvort hér sé um að ræða einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar, og í þriðja lagi, hvort við mættum kannske eiga von á þeim gleðilegu tíðindum, að Bandaríkjastjórn haldi áfram að fækka því herliði, sem hér er, sem mest og sem fyrst, þannig að það hyrfi sem skjótast með öllu af íslenzkri grund.