11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) deildi hér nokkuð á ríkisstj. fyrir að hafa gefið út þessa hvítu bók, Viðreisn. Ég treysti mér ekki almennilega til að gera mér fulla grein fyrir, hvað hátíðlega eigi að taka svona ádeilur. Þessi hv. þm. var staðinn að því, þegar ég hlustaði á hann seinast, að segja allt annað sem vísindamaður eða prófessor heldur en hann segir sem þm. Hann var staðinn að því af stéttarbræðrum sínum á móti lögfræðinga, — það var víst hæstv. fjmrh., sem stóð hann að því. Ég veit því ekki svo vel, hvort ég á að halda, að þetta sé alvara eða spaugi blandið, ef svo má segja. Ég veit, að hann er ekki gamall í hettunni sem þm., en hann hlýtur að muna það, að það er altítt, að gefnar séu út slíkar bækur. Ég held, að hans flokkur hafi staðið mjög fast að þessu. Hann gerði Gulu bókina úr Bláu bókinni, og einhverju slíku, án þess að fjárveitingar væru til þess veittar. Og ég tek ekki á móti neinum ámælum, eða a.m.k. get ég huggað hann með því, að ég taki mér ekki nærri neinar slíkar ádeilur fyrir að hafa gert þá skyldu mína eða við í stj. að reyna að gera almenningi sem gleggsta grein fyrir þessu mikla máli. Örlög þjóðar okkar geta oltið á því, að fólkið fái upplýsingar um þetta og þær sem allra gleggstar. Þetta, sem þarna er borið fram, er það, sem ríkisstj. telur sín sterkustu rök fyrir að gera þessar róttæku till. um breytingu á efnahagskerfinu.

Ég veit ekki með vissu, hvað þetta kostar enn þá. Það er nú stundum þannig, að maður getur ekki alveg fyrir fram séð reikninginn, — það verður að sjálfsögðu greitt úr ríkissjóði, eins og slíkar bækur hafa alltaf verið greiddar.

Á undanförnum árum hafa margar slíkar bækur verið gefnar út, líka alveg eins á síðari árum, t.d. eins og um landhelgismálið.

Ég man ekki, — það var eitthvað það þriðja, sem hv. fyrirspyrjandi spurði um, hver væri höfundurinn, hvað það kostaði og með hvaða heimild, — var það ekki? Það er með þeirri heimild, sem annars vegar felst í öllum fordæmunum um þetta, og hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst það ákaflega góð heimild að þurfa að gera þjóðinni sem gleggst skil fyrir þessu stórkostlega máli.

Ég skal svo ekki neitt vera að hnotabítast við hv. þm. út af þessu, líka eins og ég segi, ég get ekki gert mér fulla grein fyrir því, hvað honum er alvara með af því, sem hann segir, og hvað hann segir sem þm. og hvað hann segir sem vísindamaður, sbr. það, sem ég áðan sagði um hans framkomu í Sþ., síðast þegar ég hafði þá ánægju að hlusta á hann þar.