11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Tveir hv. stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt það hér harðlega, að það rit, sem lagt hefur verið á borð okkar, hafi verið gefið út af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Annar þeirra komst þannig að orði, að hér væri um áróður og blekkingar að ræða. Það hefur að vísu ekki verið bent á neitt ákveðið í þeim upplýsingum, sem í þessu riti liggja fyrir, sem hægt sé að kalla áróður eða blekkingar. Hvað sem því líður, er sjálfsagt ýmislegt í þessu riti, eins og öðru, sem um efnahagsmálin er skrifað, sem orkar tvímælis. Um það skal ég ekki ræða hér, enda gefst til þess ærið tóm, þegar efnahagsmálafrv. í heild verður til umr. hér í hv. deild.

En það, sem var tilefni þess, að ég stóð hér upp, er það, að hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) hélt því fram, að hér væri um algert einsdæmi að ræða og því gefið hættulegt fordæmi.

Það rifjast nú upp fyrir mér einmitt í þessu sambandi, að ég lenti í því fyrir um það bil 30 árum að reiða heim langa leið heilar klyfjar af riti, sem þáverandi ríkisstj. gaf út og voru upplýsingar um ýmis hennar afrek. Verk þetta hlaut síðar nafnið „Verkin tala“ og var mjög umdeilt. En það var hv. Framsfl., sem þá fór með stjórn í landinu. Svo háttar til, þar sem ég ólst upp í einni af uppsveitum Húnavatnssýslu, að reglulegar póstferðir voru frá Blönduósi til uppsveitanna, en að þessu sinni var pósturinn veikur, svo að þeim, sem bréfhirðingar höfðu með höndum, var þá falið að sækja, hann sjálfir til bóndabæjar skammt frá Blönduósi, og var mér falið þetta sem unglingi. Pósturinn hafði að jafnaði verið svo lítill, að hann komst fyrir í einni hnakktösku, og þannig útbúinn fór ég á bréfhirðingarstaðinn. En þegar til kastanna kom, voru þarna tveir þungir póstpokar, svo að ekki hefði veitt af klyfjahesti til þess að koma þessu til skila. Er það eitt af því versta, sem ég lenti í næstu nótt, að koma þessu einhesta heim. — Hvað sem öðru líður, er því víst um það, að það er ekki um neitt einsdæmi að ræða fyrir því, að ríkisstj. hafi talið nauðsynlegt að gefa út rit, sem höfðu að geyma ákveðnar og sem nánastar upplýsingar um viss umdeild verk, sem hún hefur haft með höndum eða á prjónunum, því að víst var um það, að bók þessi var ferföld að stærð á við þann bækling, sem hér liggur fyrir.