11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það hefur nú orðið frekar fátt um svör, sem vænta mátti, hjá hæstv. ríkisstj. Ég leyfði mér að beina til hennar þremur fyrirspurnum. Ég spurði í fyrsta lagi, hver eða hverjir væru höfundar þessa rits. Því fékkst ekki svarað. Og einhvern veginn er það nú svo, að þetta rit er þannig úr garði gert, að það virðist svo sem enginn hafi viljað leggja þar nafn sitt við.

Ég spurði í öðru lagi, hvað kostaði útgáfa og dreifing þessa rits. Því fékkst ekki svarað. Hæstv. forsrh. var svo léttlyndur að lýsa með fáeinum orðum eins og í spegli þeim hugsunarhætti, sem nú mun ríkja hjá hæstv. ríkisstj. Hann sagði, að það væri ekki verið í upphafi alltaf að skoða það, hvernig reikningurinn mundi síðar líta út.

Og í þriðja lagi spurði ég að því, hvar væri að finna heimild til þessarar fjárgreiðslu, sem varið væri í þessu skyni. Hæstv. forsrh. gat ekki bent á neina heimild fyrir þessari greiðslu. Hann vitnaði aðeins til þess, að það hefði áður tíðkazt, að slíkar hvítar bækur hefðu verið gefnar hér út. Honum til hjálpar hefur svo komið hv. 11. þm. Reykv. og hefur reynt að nefna dæmi þess, að slíkt hafi áður átt sér stað.

Það eru í fyrsta lagi ákaflega léttvæg rök stundum að vísa til þess, sem áður hefur gerzt. Ef það var rangt fyrir 30 árum að gefa út þessa bók, sem vitnað var í, Verkin tala, eins og mér skildist á hv. 11. þm. Reykv., þá verð ég að segja, að það er einkennileg afsökun að benda á það sem rök fyrir því, að þeir megi nú haga sér á sömu lund. Það er eins og þegar götustrákar eru að tala saman og segja: Þú gerðir þetta, þú ert ekki betri. — Það eru áþekk rök. Og hitt fær auðvitað engan veginn staðizt, að vitna í þessu sambandi til þeirrar hvítu bókar, sem gefin var út um landhelgismálið á sínum tíma. Þar gegndi vitaskuld allt öðru máli. Þar var um mál að ræða, sem þjóðin öll stóð einhuga að, og þar var verið að gera eða reyna að gera tilraun til þess að skýra málstað Íslands og Íslendinga gagnvart útlöndum. Ég vil þó þar með segja, að ég vil engu lofsorði ljúka á þá bók, hvorki hér né annars staðar.

En hæstv. forsrh. kom hér upp í pontuna til þess eins, að því er virtist, að vilja hafa eitthvert framhald á umr., sem áttu sér stað fyrir nokkru í Sþ., og þóttist þá þess umkominn að bera fram vítur í minn garð fyrir mína framkomu þá. Ég mun nú ekki taka við neinum vítum af hæstv. forsrh. varðandi mína framkomu þá né endranær. Hæstv. forsrh. var þá eitthvað að finna að því, að það væri ekki sæmilegt fyrir mann í minni stöðu — eða manni í minni stöðu væri sæmra að vera við mitt aðalstarf heldur en að vera að gantast á þingi eða að gantast í stjórnmálum, eins og hann orðaði það. Já, það er svona, — hugsunarhátturinn er þessi. Ef það eru andstæðingar, þá skal þeim ekki leyfast þetta. En nú ætla ég bara að spyrja hæstv. forsrh., — ég ætla ekki að taka hans tilmæli neitt til greina, en ég ætla að spyrja hann, hvort hann hafi ekki fundið neitt að því á sínum tíma eða beint þeim tilmælum til hæstv. fjmrh., þegar hann gegndi þeirri stöðu, sem ég gegni nú, að hann skyldi ekki vera að gantast neitt í pólitík, hann skyldi vera á sínum stað. Ég ætla að beina þeirri fyrirspurn líka til hans, hvort hann hafi ekki áður, þegar hæstv. dómsmrh. gegndi þeirri stöðu, sem ég nú gegni, beint til hans þeim tilmælum að vera ekki að gantast neitt í pólitík. Hæstv. dómsmrh. var að vísu ekki þá kominn á þing. En ég held, að ég muni það rétt, að hann hafi boðið sig fram við hverjar alþingiskosningar, sem áttu sér stað á þeim árum. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann hafi ekki ráðlagt kollega mínum, hv. 11. þm. Reykv. (ÓB), að draga sig í hlé frá pólitík og vera ekki að gantast í pólitík. Og það mætti fara lengra aftur í tímann og nefna þá menn, sem horfnir eru héðan. Þá þótti ekkert athugavert, að þeir væru í pólitík, þó að þeir væru þá í stöðum hliðstæðum minni. En það er þetta, sem er einkenni á Sjálfstfl. svo oft, að hann vill ekki unna öðrum þess, sem hann telur sér leyfilegt.

Annars verð ég að segja það, að ég held, að það verði sjálfsagt hægt að segja margt gott um hæstv. forsrh. Og vafalaust verður margt enn þá betra sagt um hann, þegar hann er allur. En ég held, að það verði aldrei um hann sagt, að hann hafi verið sérstakur siðapostuli. Og ég held, að því verði tæplega haldið fram, að hann hafi verið þess umkominn að veita öðrum þm. áminningu. Ég læt mér hans vitnisburð í léttu rúmi liggja. En það liggur fyrir hér skjalfestur í alþingistíðindum vitnisburður um þennan hæstv. ráðh. frá hæstv. ráðh., samverkamanni hans, viðskmrh., og ef hann óskar eftir, þá er hægt að rifja þann vitnisburð upp. Og á meðan sá vitnisburður stendur óhaggaður, þá held ég, að hæstv. forsrh. ætti ekki að leggja það í vana sinn að vera að kenna öðrum framkomu hér á Alþingi.

Hæstv. forsrh. var að tala um það, að hann vissi ekki, hvort ég talaði hér í alvöru eða einhverju glensi um þetta. Ég vil segja honum það, að ég tala hér í fyllstu alvöru og ég tala hér í nafni allra þeirra mörgu kjósenda, sem hafa sent mig á þing og vilja ekki, að það sé á kostnað ríkissjóðs dreift út áróðursritum, sem ganga gegn þeirri stefnu, sem þeir aðhyllast. Þeir mótmæla og ég mótmæli í þeirra nafni þeirri hlutdrægni, sem hér er höfð í frammi, og ég ítreka það, og það þarf ekki að benda raunar á fleiri dæmi en hv. 5. þm. Austf. (PÞ) benti hér réttilega á, að það úir og grúir í þessum bæklingi af allra ómerkilegasta áróðursvaðli, sem líka er að vænta, þegar enginn fæst til þess að gangast við faðerni hans og enginn vill leggja nafn sitt við þennan bækling. Það er alveg auðséð, að með þessu hátterni eru tekin upp þau vinnubrögð, að hver óhlutvönd ríkisstj., sem er hér eftir, getur farið að gefa út áróðurspésa æ ofan í æ á kostnað ríkissjóðs og getur farið að styrkja sín málgögn og kosta þau undir alls konar yfirskini. Þetta er óhæfilegt, og það er fyllsta ástæða til að taka þetta mjög alvarlega. Og við, sem erum fulltrúar annarra flokka en þeirra, sem standa að ríkisstj., mundum vissulega bregðast skyldu okkar, ef við bærum ekki hér fram á þessum vettvangi hin alvarlegustu mótmæli gegn þessu og vöruðum við þeirri braut, sem hér er farið inn á. Það mun sannast að þessir háu herrar munu á næstunni fá að heyra mótmæli hvaðanæva að af landinu út af þessum aðförum. Og það er alveg óhæfilegt, eins og hv. 5. þm. Austf. benti á, hvernig hér er farið með sannleikann í þessu máli.

Það má t.d. til viðbótar því, sem hv. þm. nefndi, benda á þau ummæli, sem hér eru höfð um greiðsluhallann við útlönd, og þá töflu, sem þar er sett upp, sem er virkilega villandi og ósæmilegt af nokkrum fræðimanni að láta frá sér fara, eins og svo greinilega kom fram í þeirri ágætu ritgerð, sem dr. Benjamín Eiríksson birti í dagblöðunum í gær. Það verður ekki hrakið, að þessi tafla, sem sett er þarna upp um greiðsluhallann við útlönd, er algerlega villandi og blekkjandi. Það er svo, að í þessum pésa úir og grúir af blekkingum, fyrir nú utan þær fyrirsagnir, sem settar eru inn í þetta rit.

Ég verð að segja það, að ég harma, að ríkisstj. skuli hafa farið inn á þessa braut. Það er stórhættuleg braut, og það er skylda allra alþm., sem vilja standa í ístaðinu fyrir sína kjósendur og fyrir lýðræðið í landinu, að mótmæla þessum aðgerðum.