11.02.1960
Efri deild: 18. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3543 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þeir, sem hér hafa talað af hálfu ríkisstj„ ráðherrar og 11. þm. Reykv., telja, að hér sé ekki vikið frá venjulegum vinnuaðferðum. En þeir hafa ekki nefnt nema eitt dæmi um vinnuaðferð, sem ætti að vera hliðstæð því, sem hér um ræðir. Og það er, þegar gefin var út bókin Verkin tala. Þessu hefur nú verið svarað. Það má vel vera, þó að ekkert stæði nema skýrslur í Verkin tala, skýrslur um það, sem hafði verið gert, og það eitt, — það má vel vera, að það hafi verið vafasamt af þeim ráðh., sem fyrir því stóð. En þó var ekki neinu svipuðu þar til að dreifa eins og á sér stað í þessu áróðursriti, sem hér er birt. Og ég man eftir því, að þessar skýrslur, sem þáverandi dómsmrh. stóð fyrir að birta um framkvæmdir, eingöngu um framkvæmdir, þær entust stjórnarandstöðunni í mörg ár til að útmála það sem eitt óskaplegasta hneyksli, sem hefði komið fyrir í stjórnmálasögu Íslands, og var ekki um annað meira rætt árin á eftir en þessar skýrslur, sem hefðu verið gefnar út á ríkisins kostnað.

Nú hafa hv. forsvarsmenn þess að gefa út þetta rit látið liggja að því, að til hafi staðið að gefa út rit eitthvað svipað þessu af þeirri ríkisstj., sem ég veitti forstöðu. Ég sagði frá því, áður en hæstv. ráðh. spurði um það, að það hefði staðið til, og ég sagði frá því, hvers vegna það hefði ekki verið framkvæmanlegt. Það var vegna þess, að rétt áður en stjórn hæstv. núv. forsrh. lét af völdum, hafði hann fengið 4 hagfræðinga, þ. á m. Ólaf Björnsson, hv. 11. þm. Reykv., til þess að semja skýrslu um fjárhagsástandið. Þegar kom til þess að birta skýrslu, sem var talað um að gefa út sem fjölritað plagg til þm. og annarra, sem vildu afla sér upplýsinga um fjárhagsmálin, þá strandaði það á því, að sá maður, sem beðinn var um að athuga þetta verk, taldi m. a., sem rétt var, — og ríkisstj. var honum sammála um það, — að ekki kæmi til mála að birta einn einasta staf úr skýrslu þeirri, sem hafði verið samin stuttu áður en stj. sú, sem ég veitti forstöðu, tók við, nema þeir færu í gegnum það staf fyrir staf. Ef þá væri breytt skýrslunni, svo að hún yrði ekki eins löng, þá yrðu þeir að semja útdráttinn að öllu leyti og birta sitt nafn í sambandi við hann, að það færi ekki á milli mála, þ. á m. 11. þm. Reykv., sem var að tala hér. Og í þessu var, eins og þeir ráðh., sem hafa séð þessar skýrslur, vita, ekkert nema blákaldar skýrslur um staðreyndir, um gjaldeyrismál, innflutning, útflutning, gjaldeyrisástand o.s.frv.

Næstu skýrslur, sem var aflað, voru frá tveimur útlendingum. Þær voru langar, og hagfræðingur sá, sem átti að athuga það að gefa út þetta uppgjör, taldi jafnframt, að það kæmi ekki til mála, að það væri hægt að birta neitt af þessu, nema þeir gerðu útdráttinn og settu sitt nafn neðan við skýrslurnar, — og jafnframt neitaði hann að gefa út sínar eigin skýrslur og að nokkur gerði það, nema hann gerði sjálfur útdráttinn af þessum skýrslum. Allt voru þetta undantekningarlaust skýrslur um það, sem ég greindi áðan, en enginn slíkur áróður kom til mála eins og er í þessu riti, sem ég kem aðeins síðar að. Og ég veit ekki til þess, að það hafi nokkurn tíma verið orðað né neinum dottið í hug að senda út slíkar skýrslur, dreifa jafnvel slíkum skýrslum út um allt landið á ríkisins kostnað, þó að ekki væri í þeim neinn áróður. Þær áttu fyrst og fremst að vera gerðar fyrir þingið og þá menn, sem óskuðu eftir að afla sér upplýsinga um málin, að dreifa út slíkum skýrslum kom vitanlega aldrei til mála, hvað þá heldur áróðursriti eins og því, sem hér er um að ræða.

En að hér sé um áróðursrit að ræða, leynir sér ekki, þegar maður lítur á ritið. Og ég skal benda ykkur bara aðeins á fáein atriði, lesa af fyrstu siðunum: „Ný stefna mörkuð.“ Já, sú er nú ný, þessi stefna. Við þekktum nú, held ég, þessa stefnu fyrir svona 30–40 árum. Sumir halda, að þetta sé ein harðvítugasta íhaldsstefna, sem hér sé endurvakin.

Svo kemur: „Heilbrigður grundvöllur.“ Eru allir sammála um það, að hér sé um heilbrigðan grundvöll að ræða? Heilbrigður grundvöllur. Ég held, að þeir séu a.m.k. eins margir meðal þjóðarinnar, sem álíta, að þar sem talað er um heilbrigðan grundvöll, þar sé vægast sagt um vafasama fullyrðingu að ræða, svo að ekki sé meira sagt.

Og svo kemur þriðja, ef maður heldur áfram: „Bótakerfið afnumið.“ Sömu mennirnir, sem hafa haldið því fram og með réttu, að niðurgreiðslur og uppbótagreiðslur séu eins og rétthverfa og ranghverfa á sama hlutnum, halda nú fram, að bótakerfið sé afnumið. Fyrst og fremst er nú eftir þeim loforðum, sem landbúnaðinum hafa verið gefin, bótakerfi í þrengri merkingu þess orðs ekki afnumið. Það hefur verið lofað að greiða með útfluttum landbúnaðarafurðum. En við vitum það, að niðurgreiðsla á vöruverði innanlands til þess að halda niðri dýrtíð er vitanlega ekkert annað en hluti af uppbótakerfi. Það er bara fyrirkomulagsatriði að greiða niður vörur innanlands til þess að halda niðri dýrtíðinni, til þess að framleiðslan geti borið sig, til þess að hún geti selt vöru sina fyrir viðunandi verð á erlendum markaði, eða nákvæmlega sama aðferðin og að gera það ekki, en greiða síðan uppbót á vörurnar, sem fluttar eru út. Menn hafa lengi verið sammála um það, að niðurgreiðslurnar og uppbæturnar eru, eins og ég sagði áðan, ranghverfa og rétthverfa á sama hlutnum.

Þannig úir og grúir af fullyrðingum. „Tekjuskattur er felldur niður.“ Hér er beinlínis sagt ósatt. Tekjuskatturinn er alls ekki felldur niður, — bara hreinlega skrök. Svona heldur áfram hver fullyrðingin eftir aðra. Og ég fullyrði það, eins og ég sagði áðan, og það mun ekki verða hrakið, að ef á að vera leyfilegt að gefa út áróðursrit eins og þetta, fullt af skröki og blekkingum og á ekkert skylt við hlutlausar skýrslur um efnahagsmálin, — ef það er leyfilegt að gera slíkt, þá er alveg eins leyfilegt fyrir ríkisstj og raunar nákvæmlega það sama að gefa út annað slagið stjórnarblað, einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði, og senda inn á hvert heimili í landinu. Ég sé engan mun á því og þessu verki: að gefa út skrökrit um efnahagsmálin, eingöngu út frá sjónarmiði ríkisstj. og stjórnarflokkanna. Og það er sannarlega fordæmi, sem er ekki neitt smávægilegt í þessu landi, ef það á að líðast, að stjórnarflokkar fari að gefa út á ríkisins kostnað blöð og áróðursrit, því að þá erum við komnir inn á svið, sem er alveg nýtt fyrir þessa þjóð.