11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Í gær var útbýtt hér á Alþ. áróðursriti um stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, sem kallað er Viðreisn, og mér hefur skilizt á ýmsu, sem fram hefur komið, að útgáfan á þessu riti muni vera kostuð úr ríkissjóði. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort það sé rétt að þessi útgáfa sé kostuð af almannafé. — [Hlé.]

Er það ætlunin að svara ekki þessari fsp.? Ég sé ekki betur en að þegar ég bar hana upp, hafi verið a.m.k. einn hæstv. ráðh. viðstaddur og hann hlýtur að vita þetta, — nei, tveir. Nú eru þeir orðnir þrír, og ég vil endurtaka þessa fsp., hvort það sé rétt, að útgáfa þessa áróðursrits sé kostuð úr ríkissjóði?