11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Ég þykist vita, að í þessu tilfelli sé þögnin sama og samþykki, en það muni vera einhver beygur í hæstv. ráðherrum að efna til umr. um þetta atriði hér á hv. Alþ., — eða a.m.k. bregður svo undarlega við, að þeir vilja ekki svara þessari fsp. Ég man ekki eftir því, að það hafi komið fyrir á Alþ., síðan ég kom hingað, að hæstv. ráðherrar hafi neitað að svara fsp. af þessu tagi. Og má þá segja, að það sé í fleira en einu atriði, sem einsdæmin gerast nú um þessar mundir.

Ég dreg ekki í efa, að ef þessi áróðursbók væri kostuð af þeim flokkum, sem standa að ríkisstj., eða af ráðh. sjálfum, mundu þeir hafa sagt frá því, enda hefur mér verið sagt, að það hafi komið fram í einhverri útvarpsfrétt ummæli, sem bendi eindregið í þá átt, að þetta áróðursrit sé kostað af ríkissjóði.

Ég vil lýsa alveg sérstakri óánægju minni yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli leggja út á þá braut að kosta með almannafé útgáfu á pólitískum áróðursritum, því að þetta rit, sem hér er kallað Viðreisn, er ekki skýrsla um efnahagsmál, heldur pólitískt áróðursrit fyrir tiltekinni stefnu eða tilteknum úrræðum í efnahagsmálum, sem stórfelldur ágreiningur er um. Og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér það ljóst, hvert það leiðir að leggja út á slíka braut, ef á henni verður gengið áfram.

Þá getur hvaða ríkisstj. sem er haldið áfram slíkri bókaútgáfu til áróðurs fyrir sínum málstað á almannakostnað. Slíkt er vitanlega alls ekki viðunandi, og það hélt ég satt að segja, að allir væru sammála um.

Það var einu sinni gefin hér út bók fyrir áratugum, sem ég hygg að hafi heitið Verkin tala og olli miklum ágreiningi í landinu. Útgáfa hennar olli geysilegri gagnrýni frá þeim, sem þá voru í stjórnarandstöðu. Og ég man ekki betur en að síðan sá ágreiningur varð, sem varð mjög mikill, hafi aldrei verið gefið út neitt rit á vegum ríkisstj., sem hægt væri að kalla áróðursrit fyrir málstað ríkisstjórnar eða pólitískt áróðursrit. Það mátti vitaskuld deila um bókina Verkin tala, og það var gert ósleitilega. En ég man ekki eftir því, að síðan hafi komið til greina, að nokkurt rit hafi verið gefið út á vegum ríkisstj., sem ágreiningur hafi verið um af þessu tagi.

En þá kemur spurningin: Ef þessi ritlingur, skýrsla um efnahagsmálin, er hann eðlileg hvít bók, eða er hann áróðursrit? Ég fullyrði, að hann er áróðursrit og ekkert annað en áróðursrit. Og ef ætti að vera eitthvert jafnræði eða samræmi í þessu, þá ættu stjórnarandstæðingar kröfu á því, að það væri gefin út á kostnað ríkisins grg. af þeirra hendi um efnahagsmálin og afstöðu þeirra í efnahagsmálunum og útbýtt til allra landsmanna. Það væri sú jafnréttiskrafa, sem hægt væri að gera. En hvar halda menn, að þessum málum væri þá komið, ef farið væri að kosta slíkt bókaflóð af almannafé? En auðvitað væri ekki nokkurt jafnrétti í öðru en að þetta ætti sér stað í framhaldi af því, sem nú hefur verið gert. Ég er ekki að stinga upp á því, að þetta sé gert, vegna þess að ég álít, að þetta eigi að verða víti til varnaðar og það sé hæstv. ríkisstj. til vansæmdar að hafa lagt út á þessa braut og algerlega óheimilt að taka fé af almannasjóði til þess að gefa út áróðursrit af þessu tagi. Og áróðursrit er þetta og ekkert annað. Við sjáum það t.d. strax á því, að ritið heitir Viðreisn, — það heitir ekki skýrsla um efnahagsmál eða neitt slíkt. Það er áróður strax í fyrirsögninni. Þessar till., sem hér eru á ferðinni, heita Viðreisn. Þó að þær séu rótarlegasta árás á framfarastefnu þjóðarinnar, sem komið hefur fram um áratugi, þá skulu þær heita Viðreisn samt. Og almenningur skal borga undir það úr ríkissjóði, að þetta heiti Viðreisn.

Ef við svo skoðum sjálft innihald bókarinnar, þá er næsta fyrirsögnin, sem blasir við: „Heilbrigður grundvöllur.“ Það er vitanlega líka áróðursfyrirsögn. Og þannig mætti telja nærri því segja bókina út í gegn.

Þá eru í bókinni algerlega villandi upplýsingar, eins og nærri má geta. Þar er t.d. talað um, að bótakerfið sé afnumið, þó að það sé alls ekki afnumið, tekjuskattur felldur niður, þó að hér eigi að vera tekjuskattur áfram, og þannig mætti telja alveg endalaust.

Ég er aðeins, hæstv. forseti, að sýna fram á, hvers konar plagg það er, sem ríkisstj. lætur sér sæma að gefa út fyrir almannafé.

(Forseti: Forseti var að gefa hv. þm. merki um, að hann vildi ná tali af honum, en hann virðist ekki vilja hlusta á forsetann.) Jú, auðvitað. (Forseti: Efni þessarar bókar, sem hér er verið að tala um, liggur ekki fyrir hér til umr. nú. Þm. hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár og hefur verið veitt það tvisvar og nú í þriðja sinn, en á þessu vil ég vekja athygli.) Ég mun ekki heldur fara lengra út í þetta, aðeins sýna fram á það, hvers vegna ég finn að því, að þessi bók er gefin út og greidd af almannafé. Ég þarf ekki að nefna fleiri dæmi, og ég vil ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta á nokkurn hátt.

En ég vil þó aðeins benda á, að hér er því haldið fram alveg blygðunarlaust, eins og í grg. fyrir efnahagsmálafrv., og kostað af almannafé og sent, að því er mér skilst, öllum heimilum, að þjóðarbúskapur Íslendinga hafi verið rekinn með halla á undanförnum árum, þó að það sé þvert ofan í allar staðreyndir, sem fyrir liggja. Þannig mætti halda áfram nær endalaust að rekja áróðurinn og blekkingarnar, sem á þessa bók eru settar og almannafé notað til þess að gefa út og senda víðs vegar um landið.

Ég mótmæli því, að nokkur heimild sé til þess að fara svona að, — að leggja út í annað eins og þetta.