11.02.1960
Neðri deild: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það má nú kannske eiga við mig orðtækið: „Það má brýna svo deigt járn, að bíti.“ Hvort það svo bítur á ríkisstj., það er annað mál. Ég hef raunar ekki nógu sterk orð til að láta í ljós undrun mína yfir framkomu ríkisstj., að hún skuli sýna hv. Alþ. þá vanvirðu að hafa ekki svo mikið fyrir að svara hógværri fsp., þegar ekki er um meiri fyrirhöfn að ræða en það, að það er hægt að svara með jái eða neii. En það er e.t.v. í stíl við það, sem fram er komið hér áður á Alþingi af hæstv. ríkisstj. og á eftir að koma fram.

Ég tek alveg undir þá ádeilu hjá hv. 1. þm. Austf., að þessi hvíta bók er hrein hneisa og vanvirða og óforsvaranlegt að kalla hana því nafni eða gefa hana út á kostnað ríkisins. Mín skoðun er sú, að það geti ekki orkað tvímælis, að algerlega hafi verið óheimilt að verja fé úr ríkissjóði til að gefa út hina svokölluðu hvítu bók, sem ríkisstj. hefur gefið út og hefur tilkynnt, eftir því sem mér skilst, að eigi nú að dreifa um allar jarðir, á hvert heimili landsins. Hér er einhliða fjallað um allra viðkvæmasta deilumál, sem uppi er nú meðal þjóðarinnar, framkvæmdir í efnahagsmálunum. Þessi pési ríkisstj., hin svokallaða hvíta bók, ber nafnið Viðreisn, og er það einhliða áróður, eins og hér hefur verið lýst áður, einhliða áróður fyrir sjónarmiði ríkisstj., og ekkert annað kemst að. Nafngift pésans, kaflafyrirsagnir og allt innihald er á sömu bókina lært.

Ég hef haldið, að í lýðfrjálsu landi eigi allir að hafa sömu aðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri við alþjóð. Þetta munu allir vilja viðurkenna, og þá um leið hljóta þeir að fordæma það, að ríkisvaldið leggi fram fé til að auðvelda einum eða fleiri stjórnmálaflokkum að koma áróðri á framfæri eftir leiðum, sem öðrum eru lokaðar. Þetta virðist m.a. vera viðurkennt, t.d. eftir þeim reglum, sem starfað er eftir í sambandi við ríkisútvarpið og stjórnmálin. Þar á öllum stjórnmálaflokkum að vera tryggður sami réttur til að koma skoðunum sínum á framfæri, enginn á að vera þar rétthærri en annar. Frekari málflutning og áróður stjórnmálaflokkanna fyrir skoðunum sínum og viðhorfum eiga þeir sjálfir að kosta og annast í gegnum skrif blaðanna, í tímaritum eða pésum. Ég hef einlægt haldið, að hvít bók, blá bók eða hvað þær nú heita, þessar ríkisstjórnarbækur, eigi eingöngu að vera hlutlaus skýrsla um mikilvæg mál, sem uppi eru á teningnum hjá hlutaðeigandi þjóð, eigi að vera hlutlaus skýrsla og ekkert annað.

Málið, sem pési þessi fjallar um, er vissulega mikilvægt. En framsetningin í þessari bók er ekkert annað en áróður, og ég tel því, að útgáfukostnað þessa pésa sé óheimilt að taka af almannafé. Það má vel vera, að fjártaka þessi varði ekki við lög, en mín persónulega skoðun er sú, og ég fordæmi það jafnt í eðli sínu eins og ef trúnaðarmaður ríkisins fer í frímerkjageymslu þess til þess að taka verðmæti ófrjálsri hendi.