22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina fsp. til ríkisstj., sem að nokkru leyti eru þær sömu og hv. 1. þm. Austf. nú kom fram með.

Í fyrsta lagi, hvernig stendur á, að ríkisstj. áleit nauðsynlegt að beita svona undireins þeim ákvæðum, sem eru í l., og hafa sjálf frumkvæði um það gagnvart seðlabankastjórninni að hækka alla vaxtastiga í landinu, eins og nú hefur verið gert á útlánsvöxtum og öðru. Og að því er manni virðist, þá er hér ekki um neina bráðabirgðabreytingu að ræða. Þetta er auðsjáanlega hugsað sem varanleg breyting, sem setur Ísland í ákaflega slæma aðstöðu gagnvart öllum öðrum löndum, þar sem allir vextir hér verða miklu dýrari og íslenzkum atvinnurekendum og öðrum Íslendingum. sem til framkvæmda vilja stefna, gert miklu erfiðara fyrir en öðrum þjóðum. Mér sýnist, að hæstv. ríkisstj, hafi unnið að þessu með meira kappi heldur en forsjá og hafi beitt í þessu offorsi, sem að öllu leyti er óviðkunnanlegt.

Ég vil um leið leyfa mér að óska upplýsinga hæstv. ríkisstj. og sérstaklega þess ráðh., sem bankamálin heyra undir, um hvernig þessi samþykkt hafi verið knúin í gegn í stjórn Seðlabankans.

Þá vil ég í öðru lagi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi þeirri vaxtahækkun, sem fram hefur farið í fjárfestingarsjóðunum. Það átti að ná í eða fá álit seðlabankastjórnarinnar um þá hækkun, áður en hún færi fram. Vill hæstv. ríkisstj. lesa upp það álit, sem seðlabankastjórnin gaf um þá vaxtahækkun í fjárfestingarsjóðunum? Sú hækkun, sem þar er framkvæmd, á auðsjáanlega að gilda á þeim lánum, sem útgefin væru nú fyrst um sinn, t.d. á lánsbréfum allt til 42 ára með þessum föstu vöxtum, sem þarna eru ákveðnir, allt upp í 9%, eins og hjá byggingarsjóði verkamanna, þannig að þarna virðist ekki vera um neina bráðabirgðaaðgerð að ræða gegn verðbólgu eða einhverju öðru slíku, eins og látið var í veðri vaka, þegar verið var að pína þessi lög hér í gegnum þingið, heldur virðist hér vera beinlínis um að ræða aðgerð til stöðvunar á framkvæmdum og í þessu tilfelli sérstaklega á húsbyggingum í sambandi við verkamannabústaði. Og það væri fróðlegt að fá að heyra hér það álit, sem seðlabankastjórnin lét í ljós í sambandi við þetta, og raunar, eins og hv. 1. þm. Austf. minntist á, álit fleiri þeirra stjórna, sem spurðar hafa verið, eða jafnvel, hvort þær hafi ekki verið spurðar.

Í þriðja lagi vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv.. ríkisstj., hvort hún hyggist gera eitthvað viðvíkjandi þeim sparisjóðum úti á landi, sem nú eru settir í mjög slæma aðstöðu, eða hvort beinlínis eigi að stuðla að því, að þeir fari á höfuðið með þessum óvenjulegu harðstjórnarráðstöfunum, sem gerðar eru í peningamálum Íslands. Það var varað við þessari stefnu, sem nú er tekin upp svo fljótt, þegar þessi mál voru til umr. hér í þinginu. Alþb. barðist eins og fleiri hér innan þings á móti því. Ég vil um leið upplýsa það, af því að einn af forustumönnum Alþb. á sæti í seðlabankastjórn, að hann tók afstöðu á móti þessum ráðstöfunum. Og það er æskilegast að öllu leyti, að það komi hér algerlega fram, hver afstaða manna hefur verið í sambandi við þessar ráðstafanir, svo óvenjulegar sem þær eru. Það er greinilegt, að hér á að innleiða harðstjórn peninganna í landinu, á sama tíma sem vinnan og vinnuaflið er sett lægra og metið minna en verið hefur um áratugi áður á Íslandi.

Ég vil leyfa mér að vona, að hæstv. ríkisstj. verði við því að gefa upplýsingar um þessi efni, sem. hér var um spurt.