22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. ráðh. upplýsti, að það hefði verið styttur lánstíminn hjá ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði úr 20 árum í 15 ár. Þá höfum við það, að samhliða því, sem vextir voru stórlega hækkaðir hjá þessum sjóðum, er lánstíminn styttur mjög mikið frá því, sem hann hefur verið, þannig að þessi lán verða stórkostlegum mun þyngri en þau hafa áður verið. Það er mál út af fyrir sig. Hitt er svo athyglisvert, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa þorað að segja hreinskilnislega frá því í tilkynningunni, að hún hafi gert þetta, og er það þó ofur lítill vottur um samvizkubit í sambandi við þessi mál, og þótti nú sjálfsagt fáum hann koma fyrr í ljós en við mátti búast.

En það er sýnilegt, að það hefur verið beygur í ríkisstj., þannig að hún hefur ekki þorað að gefa út rétta fréttatilkynningu um það, sem hún ákvað, — eða hvers vegna tilkynnti hún ekki þetta líka? Þó teygði hún sig til þess að tilkynna um leið um ýmis atriði, sem ekki voru skyld vaxtahækkuninni, en þetta var dregið undan í tilkynningu hæstv. ríkisstj.

Ég upplýsti það hér áðan, að 32. gr. efnahagsmálalaganna hefði verið brotin, og ákvörðun hæstv. ríkisstj. um vexti í byggingarsjóði verkamanna er markleysa, af því að það hefur ekki verið leitað álits stjórnar þessa sjóðs um vaxtabreytinguna, eins og skylt er að gera eftir lögunum.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að muldra hér í barm sinn um, að það hefðu verið kallaðir hinir og aðrir menn upp í stjórnarráð, sem til hefði náðst, — mér skilst á föstudag, — en ég hefði ekki verið þar mættur. Þetta átti víst að vera á einhvern smekklegan hátt að gefa í skyn, að það mundi ekki hafa verið hugsanlegt að ná til mín í þessu sambandi — mín sérstaklega. Ég vil í fyrsta lagi út af þessu taka það fram, að það var algerlega vandalaust að ná til mín, bæði föstudagskvöldið og laugardagsmorgun fram yfir hádegi, en var áreiðanlega engin tilraun til þess gerð. Ekki heldur gerð tilraun til þess að ná í aðra stjórnarnefndarmenn úr þessum sjóði, nema formaðurinn í sjóðsstjórninni var kallaður sem stjórnarmeðlimur í fiskveiðasjóðnum. Þetta eru nú vinnubrögðin, og svo er verið að muldra hér um, að það hafi verið kallað í þá, sem hafi til náðst, og á að gefa það í skyn, að einhverjir hafi ekki verið betur á verðinum en svo, að þeir hafi verið fjarverandi þessar örlagaríku klukkustundir, sem mátti gefa til þess að íhuga málið. Það var alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. að vera að muldra þetta, vegna þess að það liggur alveg fyrir, að álits þessarar stjórnar var ekki leitað og ákvörðunin er ólögleg. Varðandi vinnubrögðin að öðru leyti, það sem ég veit, þá voru þau þannig, að stjórnir hinna sjóðanna munu yfirleitt hafa verið kallaðar og þeim tilkynnt, að það væri búið að ákveða vextina, og eins og hæstv. ráðh. sagði, þá hafi verið rætt þar um framkvæmdaratriði. Og ég vil biðja menn að taka eftir því, að hann orðaði það þannig, að það hefði verið rætt fram og aftur um framkvæmdaratriði. En það var ekki verið að gera tilraun til þess að framkvæma skýlaus ákvæði lagagr., sem hæstv. ríkisstj. hefur sjálf beitt sér fyrir á Alþ. að yrði samþ. Hverjum mundi detta það í hug, að þegar stendur í lagagrein, að það skuli leita álits stjórnanna um jafnþýðingarmikið mál og vextina og lánstímann, þá yrði það ekki haft þannig, eins og venja er í slíkum tilfellum, að óskað væri eftir skriflegri álitsgerð, og a.m.k. gefið tóm til þess, að það yrði haldinn fundur í stjórn viðkomandi stofnunar til þess að ræða þessi efni, jafnörlagarík mál og þau eru bæði fyrir viðskiptamenn þessara stofnana og stofnanirnar sjálfar? En ríkisstj. sá enga ástæðu til þess, eins og hér hefur verið upplýst. Hún sá enga ástæðu til þess, að neitt tóm gæfist til slíks, og yfirleitt enga ástæðu til þess að reyna að framkvæma þessa lagagrein á þann hátt, sem vitaskuld er til ætlazt um slík ákvæði. Það er ekki að leita álits með venjulegum hætti, sem hér hefur verið gert, og til sumra hefur alls ekki verið leitað.

M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. hefur tekið sér einræðisvald um þessi efni, þvert ofan í ákvæði l., því þó að hún ætti að hafa endanlegt úrskurðarvald og hefði endanlega heimild, var skylt að leita þessa álits skilmerkilega, eins og venja hefur verið til. Og það er fullkomin ástæða til þess að mótmæla alveg sérstaklega þeim vinnubrögðum, sem hér hafa verið viðhöfð, auk þess sem alveg liggur fyrir, að vaxtaákvörðunin um verkamannabústaðalánin er gersamlega ólögleg.