22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3564 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. svaraði hér aðeins að nokkru leyti þeim fsp., sem ég bar fram. Ég bað um, að svar seðlabankastjórnarinnar viðvíkjandi fjárfestingarsjóðunum væri lesið hér upp, þannig að það kæmi greinilega fram, hverju þar hefði verið svarað. Mér skilst þó í sambandi við seðlabankastjórnina, að það hafi þó verið haft það mikið við hana, að spurning hafi verið lögð fyrir hana, og að hún hafi komið saman til fundar, og mér skilst jafnvel, að þeir fundir hafi staðið meginhluta laugardags og meginhluta sunnudags og sé ólokið enn, þannig að það virðist vera eina stofnunin, sem hefur þó fengið tækifæri til þess að hafa þessar spurningar liggjandi fyrir sér, eins og l. gera ráð fyrir. Þess vegna væri fróðlegt að vita, hverju hún hefur svarað, ef skrifleg svör skyldu liggja fyrir frá henni.

Viðvíkjandi þeim upplýsingum, er voru gefnar um svör hinna stjórnanna í hinum ýmsu sjóðum, vil ég alveg taka undir það, sem hv. 1. þm. Austf. segir hér, að mér sýnist, að farið hafi verið algerlega ólöglega að. Mér skilst, að það hafi nokkrir menn úr stjórnum nokkurra sjóða verið kallaðir niður í eitthvert ráðuneyti. Að vísu kann þarna að vera undantekning viðvíkjandi hæstv. landbrh., að hann hafi haft nokkuð löglegan hátt á um þessar aðfarir og kallað eina stjórn til umr. við sig um þessi mál. En eftir því, sem hæstv. félmrh. upplýsir, virðast hafa verið kallaðir nokkrir menn úr nokkrum stjórnum saman til einhvers spjalls niðri í stjórnarráði einn morgun. Ég skil ekki, hvernig á að framkvæma lög eins og þau, sem þarna er um að ræða, ef á ekki að gera það þannig, að ríkisstj. og sá ráðh., sem viðkomandi sjóðir heyra undir, skrifar bréf til þeirra stjórna, sem þarna er um að ræða, óskar eftir því, að þessar stjórnir láti í ljós álit sitt um, hvort t.d. beri að hækka vexti, hvort beri að lengja eða stytta lánstíma eða annað slíkt, síðan kalli formenn slíkra stjórna þessar stjórnir saman á fund, hverja fyrir sig, leggi þar fyrir þessar spurningar, ræði þessar spurningar og menn móti síðan sína afstöðu viðvíkjandi þeim og það liggi fyrir í fundargerðum stjórna þessara sjóða, hvernig þetta er gert. Ég veit ekki, hvort við hér á Alþ, eigum að fara að taka þetta til fyrirmyndar um afgreiðslu, t.d. þegar við erum í nefndum, — við skulum segja, að við í fjhn. hefðum þann hátt á, að við kölluðum t.d. nokkra menn úr einhverri stofnun, sem við viljum tala við, til okkar og segðum: Þetta hérna er nú meiningin að gera, og við göngum út frá því, að þið séuð samþykkir því, og þar með er það búið. Ef maður á að fara að kasta öllum formum fyrir borð, — og sjálf lögin eru fyrst og fremst form, sem verið er að setja á þjóðfélagið, — þá er verið að taka upp allt aðra stjórnarhætti en hér hafa viðgengizt um alllangt skeið. Ég held þess vegna, að þessar aðfarir, sem þarna er beitt, séu gerræði, eigi ekkert skylt við venjulegar starfsaðferðir þingræðislegra stjórna, enda er máske sá tilgangur, sem á að ná með þessu, þannig í sínu eðli, að það mundi vera nokkuð erfitt að fá menn til þess að fallast á slíkt eins og hér er verið að gera, sérstaklega stjórnir þessara sjóða, nema með því að beita svona aðferðum. Ég held þess vegna, að það, sem ætti að gera nú, væri, að hæstv ríkisstj. læsi upp afrit af sinum bréfum til þessara stjórna þessara fjárfestingarsjóða, læsi upp svör þessara sjóðsstjórna, þannig að við vitum, hverjir það eru, sem þetta hafa samþykkt.

Þá vil ég enn fremur undirstrika það, að með svona aðferðum, — slæmar voru aðferðirnar hér í þinginu, en þó ekki að öllu leyti óvenjulegar um þessa hluti, — en þessar aðferðir, sem beitt er eftir á gagnvart þeim sjóðum, sem þarna eiga hlut að máli, og þeim sjóðsstjórnum, eru alveg forkastanlegar. Þessir sjóðir eru myndaðir með áratuga baráttu, m.a. mjög harðri baráttu verkamanna, alþýðunnar á Íslandi. Og það þótti sérstakur sigur, þegar það var knúið fram hér á árunum, fyrir rúmum 30 árum, að verkamenn skyldu geta fengið lán til þess að byggja sér bústaði með 2½% vöxtum, og var Ísland fátækt land þá. Það þótti strax illa horfa og var barizt á móti því af mörgum hér á þingi, þegar það var undir áhrifum Marshall-lánanna og afskipta amerískrar ríkisstj. af okkar efnahagsmálum farið að hækka vextina hjá byggingarsjóðum verkamanna. En það kastar þó tólfunum, þegar það er knúið í gegn að hækka vexti hjá byggingarsjóðum verkamanna á lánum, sem eru lánuð út til 42 ára, upp í 9%, og þekkist hvergi nokkurs staðar í veröldinni, þar sem mér er kunnugt, að þess háttar aðferðir séu hafðar um mikilvæg umbótalög, sem eiga að vera til þess að styrkja þá fátæku í þjóðfélaginu og skapa þeim betri aðstöðu. Það má þess vegna ekki minna vera en að það liggi fyrir alveg skýrt og ótvírætt: Hverjir eru það, sem með hæstv. ríkisstj. eru ábyrgir fyrir þessum aðgerðum? Það er verið að kollvarpa um eina helgi áratuga baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir endurbótum á þessu þjóðfélagi, og það er gott að vita, hverjir það eru, sem bera ábyrgð á slíku fyrir utan hæstv. ríkisstj., fyrst henni var ekki gefið algert einræði um, hvað hún gerði í þessu, fyrst hún átti þó að hafa samráð og hlusta á aðra í þessu sambandi.

Ég vil svo vona, fyrst hæstv. félmrh. svaraði ekki fyrir hönd ríkisstj. þeirri spurningu, sem ég bar fram áðan, að hæstv. bankamálarh. muni svara því, hvaða svör seðlabankastjórnin gaf og hvernig seðlabankastjórnin samþykkti þær vaxtahækkanir, sem hér hafa farið fram.