22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Lögum samkvæmt ákveður stjórn Seðlabankans vexti í landinu, útlánsvexti banka og innlánsvexti.

Hinu háa Alþ. er um það kunnugt, að það hefur verið einn þáttur þeirrar stefnu, sem ríkisstj. nú vill fylgja í efnahagsmálum, að hækka nú um skeið vexti, bæði útlánsvexti og innlánsvexti. Þessa skoðun sína tjáði ríkisstj. stjórn Seðlabankans þegar í stað, er Alþ. hafði afgr. hin nýsamþykktu lög um efnahagsmál, og jafnframt skoðanir sínar á því, hver hæð vaxtanna, bæði útlánsvaxta og innlánsvaxta, ætti að vera að dómi ríkisstj. Í lögunum um efnahagsmál, 32. gr., er enn fremur gert ráð fyrir því, að ríkisstj. leiti álits stjórnar Seðlabankans á ákvörðun sinni um vexti fjárfestingarsjóðanna. Þetta gerði ríkisstj. einnig þegar í stað, eftir að lögin höfðu verið afgr.

Í tilefni af þessum tvenns konar tilmælum ríkisstj. til stjórnar Seðlabankans hélt hún fundi á laugardag og sunnudag og tók ákvarðanir sínar um vaxtahæðina annars vegar og hins vegar lét í ljós skoðun sína á fyrirhuguðum ákvörðunum ríkisstj. um vaxtahæð fjárfestingarsjóðanna.

Í tilefni af fsp. hv. 3. þm. Reykv. (EOl) vil ég taka það fram, að stjórn Seðlabankans var ekki á einu máli um afstöðuna til þessara tveggja atriða, sem til hennar var leitað með. Hinir nýju vextir, útlánsvextir og innlánsvextir, voru samþ. í bankastjórninni með 3:2 atkv., og þeir, sem voru andvígir ákvörðuninni um vaxtahækkunina, voru annars vegar Ólafur Jóhannesson prófessor og hins vegar Ingi R. Helgason lögfræðingur. Hinir þrír stjórnarmeðlimir Seðlabankans greiddu atkv. með þessum ákvörðunum, þannig að þær eru löglega teknar.

Það kom ekki fleira fram í fsp. hv. þm., sem ástæða er fyrir mig að svara.